Beint í efni

Stjórnarfundir – 02. f. 2000/2001

31.10.2000

 

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda


Annar fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn í fundarsal Mjólkurbús Flóamanna á Selfossi, þriðjudaginn 31. október 2000 og hófst hann klukkan 10:30. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:

1. Verðlagsmál
– framvinda og staða:
Þórólfur kynnti stöðu mála í verðlagsnefnd og hefur nefndin lent þar í nokkuð erfiðri vinnu við mat á byggingarkostnaði. Í dag sést þó fyrir endann á þessari vinnu og áætluð lok vinnu nefndarinnar er í þessum mánuði. Fundarmönnum var tíðrætt um ýmsar kostnaðarhliðar við byggingarframkvæmdir sem erfitt er að henda reiður á, s.s. gjafavinnu ofl. Ákveðið var að LK myndi vinna að betri kostnaðarmati á byggingarframkvæmdum, s.s. með útboði með einhverjum hætti.
Þá kynnti Þórólfur yfirlit um afkomu mjólkurbúa fyrir árið 1999.

– formannafundur:
Ákveðið var að halda kynningarfund með formönnum aðildarfélaga LK, um málið, þegar betur sést fyrir endann á vinnu nefndarinnar, væntanlega í lok þessa mánaðar. Einnig var ákveðið að kalla saman á þeim tíma búnaðarþingsfulltrúa LK.

2. Mjólkuruppgjörið
Gunnar fór fyrir uppgjörið fyrir síðasta verðlagsmál. Sala á verðlagsárinu m.v. fitu var 98.630.269 lítrar og 105.586.126 lítrar m.v. prótein. Innvigtun var 103.951.066 lítrar og var umframmjólk 1.951.066 lítrar.
Þá var rætt um umframmjólk og hugsanlegar leiðir til að stjórna betur framboði á mjólk frá bændum. Margar hugmyndir komu fram og ákveðið að ræða betur þegar framleiðsluspá BÍ og SAM fyrir nýhafið verðlagsár liggur fyrir.

3. Nautakjötsmálefni
– staða sölu- og framleiðslumála
Snorri fór yfir markaðsmálin og hefur heldur dregið úr framboði undanfarin misseri. Sala á nautakjöti hefur gengið þokkalega, en aukningin ekki mikil. Samkvæmt mati ýmissa sláturleyfishafa er framundan mun minna af sláturgripum en undanfarin ár og því sést hugsanlega fyrir endann á því ástandi sem verið hefur á markaðinum undanfarin tvö ár. Þrátt fyrir að víða sé verið að slátra mun fleiri gripum en á sama tíma í fyrra, er ástandið enn ekki komið í jafnvægi á afmörkuðum svæðum. Verið er að vinna að lausn slíkra afmarkaðra vandamála og allar líkur á að ástandið verði komið í góðan farveg á næstu vikum.

– þróunarstarf
Þá kynnti Snorri stöðu þróunarstarfs nokkurra samstarfsaðila LK, s.s. Matra, Kjötiðjunnar á Húsavík og Ferskra kjötvara. Allir aðilar eru að vinna að mjög spennandi málum og er nýjunga að vænta á markaði fyrir jól.

– faghópur bænda um nautakjötsmálefni
Í samræmi við fyrri ákvörðun stjórnar var ákveðið að tilnefna þrjá bændur í s.k. faghóp í nautakjötsframleiðslu. Ákveðið var að tilnefna Snorra Ö. Hilmarsson á Sogni, Ólaf Eggertsson, Þorvaldseyri og Aðalsteinn Hallgrímsson, Garði í faghópinn. Faghópnum er ætlað að starfa með framkvæmdastjóra LK að ýmsum sérhæfðum málefnum er lúta að nautakjötsframleiðslu og -sölu.

4. Bactoscan
Þórólfur kynnti málið og hugsanleg vandamál við yfirtöku kerfisins. Helst eru þar á ferð sýni sem breytast við nýja greiningu og mælast í Bactoscan sem verri en þau virðast í eldri mælingum. Ljóst er að nokkrir aðilar munu lenda í þessu og þarf að gefa þeim tækifæri til að taka á sínum málum samhliða yfirtöku kerfisins.

5. Gæðastýring
Þórólfur kynnti nýjan samning Framkvæmdanefndar um búvörusamninga annars vegar og LBH hins vegar, um aðkomu LBH að gæðastýringu í sauðfjárrækt. Stjórnin ítrekaði fyrri afstöðu sína um að gæðastýring í mjólkurframleiðslunni eigi að þróast í gegnum afurðastöðvarnar. Einnig var það nefnt að einstaklingsmerkingar (sjá lið 8) munu gefa mjög mikla möguleika á eftirliti og því gæðastýringin komin þar fram að hluta.

6. NRF
– staða málsins:
Þórólfur kynnti það sem gerst hefur í málinu síðan á síðasta stjórnarfundi. Töluvert hefur verið unnið að framgangi málsins með samstarfi við landbúnaðarráðuneytið. Einnig hefur Fagráðið lagt valáherslur á eiginleika foreldra NRF-fósturvísa og undirbúningur því vel á veg kominn. Þá voru kynntar umræður af fagfundi um málið, sem landbúnaðarráðherra hélt um málið á Selfossi 10. október s.l.

– fyrirhugaður formannafundur:
Í tengslum við fyrirhugaðan kynningarfund með formönnum aðildarfélaga um verðlagsmál, var ákveðið að kynna einnig stöðu NRF-málsins.

– næstu skref:
Farið var yfir leyfisveitinguna. Stjórn ákvað að setja fullan kraft í verkefnið og að taka einnig þátt í því verkefni sem sett verður af stað samhliða tilraunainnflutninginum. Framkvæmdastjóra heimilað að undirrita nauðsynlega samninga við seljendur fósturvísanna í Noregi. Framkvæmdastjóra og formanni falið að afla fjármagns í verkefnið.

– tilnefning fulltrúa í faghóp verkefnisins:
Stjórn ákvað að tilnefna framkvæmdastjóra LK, Snorra Sigurðsson, og Jón Gíslason, Lundi, sem fulltrúa LK í faghópinn. Til vara var ákveðið að tilnefna Pétur Diðriksson, Helgavatni.

7. Drög að orðsendingu til bænda um framleiðslumál
Rætt var um mjólkurframleiðsluna og með hvaða hætti væri best að koma réttum skilaboðum til bænda varðandi framleiðslustýringuna. Ákveðið var að formaður skoði málið.

8. Drög að reglugerð um einstaklingsmerkingar búfjár
Snorri kynnti stöðu vinnu nefndar um skyldumerkingar. Fundarmenn lýstu ánægju sinni með gang mála, en gerðu athugasemd við 11. grein draganna; þar sem kveðið er á um að BÍ verði falið að annast gagnagrunn kerfisins. Þetta telur stjórn ekki nauðsynlegt og æskir þess að ekki verði gert krafa um einstakan aðila sem reka skuli skráningarkerfið, heldur verði ráðuneyti gefin opin heimild til að fela umsjón gagnagrunnsins þeim sem hann kunna að reka. Er þá einkum horft til þess að sú vinna sem þar skapast geti farið fram á landsbyggðinni. Framkvæmdastjóri vinni að framgangi málsins.

9. Greiðslur vegna símakostnaðar stjórnarmanna
Snorri kynnti málið og þar sem stjórnarmenn bera í dag aukinn kostnað vegna móttöku sendinga með tölvupósti og útprentunar á gögnum – og LK hafi sparað töluverðan kostnað með færri ljósritunum og hefðbundnum póstsendingum, var ákveðið að endgreiða kostnað stjórnarmanna að hluta.

10. Innsend erindi og bréf
· Bréf frá BÍ um skipun fulltrúa LK í búnaðarráð:
Ákveðið var að tilnefna Birgi Ingþórsson sem fulltrúa LK í ráðið.

· Bréf frá Lánasjóði Landbúnaðarins; drög að úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 2001:
Fundarmenn fóru yfir drögin og komu ekki fram athugasemdir.

· Bréf frá Landbúnaðarráðuneyti um tilnefningu fulltrúa í endurskoðunarnefnd fyrir aðbúnaðarreglugerðina (nr. 671/1998):
Stjórnin ákvað að tilnefna Snorra Sigurðsson, framkvæmdastjóra LK, fulltrúa sinn í endurskoðunarnefndinni.

· Bréf frá Landbúnaðarráðuneyti með svari við fyrirspurn um úthlutun greiðslumarks á ríkisjörðum:
Bréfið er svar landbúnaðarráðuneytis við spurningum LK um úthlutunarreglur á greiðslumarki. Fundarmenn töldu svar ráðuneytisins bera með sér möguleika á mismunun á milli bænda í tengslum við úthlutun greiðslumarks, sem stjórn LK getur á engan hátt fallist á. Ákveðið var að senda landbúnaðarráðherra bréf þess efnis, með tillögum stjórnar LK um ásættanleg vinnubrögð varðandi tilfærslu á greiðslumarki milli ríkisjarða. Formaður og framkvæmdastjóri kynni fyrir stjórn drög bréfsins áður en það verði sent.

· Sameiginleg ályktun frá kúabændafélögunum í Eyjafirði og Þingeyjasýslu um nýja dýralæknareglugerð:
Kristín Linda kynnti ályktun félaganna um að nýju reglugerðinni verði breytt og dýralæknum gert kleyft að hafa meiri sveigjanleika varðandi skilgreingingar á sjúkdómagreiningum. Fundarmenn voru sammála um að fyrirséð væru ýmis vandamál varðandi eftirfylgni reglugerðarinnar og brýnt að slípa einstaka agnúa hennar. Stjórnin ákvað að fela formanni og framkvæmdastjóra að ræða málið við yfirdýralækni og þá einnig um lyfjameðhöndlunarskráningu dýralækna úti á búunum, sem er mjög misjöfn yfir landið.

Ýmis erindi til kynningar fyrir stjórn
· Svarbréf frá Samgönguráðherra með viðbrögðum hans við ályktun LK um símamál.
· Bréf frá nefnd er sér um skipulagningu ráðunautafundar með óskir um tillögur um efni fyrir komandi fund.
· Bréf frá Bjarna Guðmundssyni varðandi fyrirlestur á Hvanneyri í tilefni 100 ára afmælis mjólkurkennslu á Íslandi 1. nóvember
· Bréf frá Helga B. Ólafssyni, endurmenntunarstjóra LBH, um stöðu vinnu við afleysingamannanámskeið

11. Önnur mál
· Verð á kjarnfóðri hérlendis og erlendis:
Egill minnti á fyrri samþykkt stjórnar um að kannað verði verð á kjarnfóðri í nágrannalöndunum til samanburðar við verð hérlendis. Samþykkt var að hraða málinu.

· Merkjavinna við merki LK:
Snorri kynnti með hvaða hætti hefði verið staðið að framgangi málsins og að drög að nýju merki fyrir LK verði komið fyrir næsta fund stjórnarinnar.

· Aukinn innflutningur á kálfadufti:
Rætt var um aukinn innflutning á kálfamjólkurdufti. Ákveðið að fá yfirliti yfir innflutninginn og gæði duftsins fyrir næsta stjórnarfund.

· Þjónusta BÍ við nautgriparæktina:
Egill nefndi að þörf væri fyrir stéttina að fá sundurliðun frá BÍ á því í hvað búnaðarsjóðsgjaldið sé að fara og að hve miklu leiti BÍ sinni nautgriparækt, sem og öðrum búgreinum. Formanni var falið að vinna að málinu.

· Ráðstefna um ræktunarmál:
Þórólfur kynnti hugmynd um ráðstefnu um ræktunarmál í íslenskri nautgriparækt. Ákveðið var að halda ráðstefnuna á nýju ári og var formanni falið að vinna frekar að undirbúningi ráðstefnunnar.

· Starfsmannahald LK:
Þórólfur fór yfir verkefnastöðuna hjá LK og ljóst að samhliða NRF-verkefninu þarf að fá starfsmann í hlutastarf til að mæta auknu vinnuálagi á framkvæmdastjóra. Stjórn samþykkti þetta og munu framkvæmdastjóri og formaður vinna að framgangi málsins.

Ýmis gögn lögð fram til kynningar:
· Samkomulag Rala og LBH um kennslu og rannsóknir í sauðfjárrækt.
· Fundargerð frá aðalfundi NLK ehf.
· Fundargerð frá ferð íslendinga á fund og sýningu IFOAM (alþjóðasamtökum lífrænna bænda).

Fundinum var frestað frá kl. 11:45 til 14:00 og héldu fundarmenn á meðan að Stóra Ármóti þar sem landbúnaðarráðherra hafði boðað til blaðamannafundar í tengslum við leyfisveitingu á tilraunainnflutningi á NRF-fósturvísum
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl.18:10
Snorri Sigurðsson