Stjórnarfundir – 8. 2011-2012
07.03.2012
Stjórnarfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Bitruhálsi 1 miðvikudaginn 7. mars 2012. Allir mættir. Fundur settur kl. 11.40 en nokkrar tafir urðu vegna slæmra flugskilyrða.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
1. Fundargerð afgreidd og undirrituð. Hafði verið birt á heimasíðu samtakanna fyrir nokkru síðan.
2. Verðlagsmál mjólkur. Síðasti fundur Verðlagsnefndar búvara var haldinn 14. febrúar sl. Þar var m.a. farið yfir yfirlit Einars Hafliða Einarssonar, endurskoðanda um endurmat á vaxtagrunni verðlagsgrundvallar kúabús. Þar er m.a. yfirlit frá Seðlabanka Íslands um virði heildarlána til landbúnaðar. Það yfirlit kemur stjórn LK mjög spánskt fyrir sjónir, en þar er heildarvirði lána til landbúnaðar í desember 2011 metið á rúma 11 milljarða, fyrir landbúnaðinn í heild. Á fundinum var ákveðið að miða við lægstu verðtryggða vexti SÍ, sem í dag eru 3,90% að viðbættu 0,75% álagi. Eftir breytinguna er mun betra samræmi milli vaxtaliðar grundvallarins og þess sem almennt gerist í lánakjörum bænda, auk þess sem gagnsæið er meira. Á fundinum var einnig farið yfir ýmsar forsendur verðlagsgrundvallar kúabús. Það verk er unnið af dr. Daða Má Kristóferssyni. Sú mynd sem núverandi verðlagsgrundvöllur gefur þarfnast endurskoðunar. Þetta efni verði tekið fyrir á aðalfundi LK. Stjórn LK ákvað að senda erindi til Landbúnaðarháskólans vegna yfirfærslu á vinnslu búreikninga til skólans við niðurlagningu Hagþjónustu landbúnaðarins. Framkvæmdastjóra falið að vinna að því.
3. Fundur með ráðherra búnaðarmála. Formaður fór yfir fund formanns og framkvæmdastjóra LK með Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 22. febrúar sl. Lögð var áhersla á að markaðsdögum á kvótamarkaði yrði fjölgað í þrjá, bætt yrði inn markaði um miðjan ágúst. Ráðherra er opinn fyrir að bæta við markaði en vill sjá niðurstöðu markaðarins 1. apríl n.k. áður en ákvörðun um reglugerðarbreytingu er tekin. Einnig var viðraður við ráðherra möguleiki á framlengingu mjólkursamnings og farið ítarlega yfir málefni nautakjötsframleiðslunnar, innflutning á erfðaefni og nýtt kjötmat.
Nautakjötsframleiðslan stendur veikum fótum, framleiðslan annar ekki innlendri eftirspurn. Stjórn mun setja fram ályktun um málið á aðalfundi. Auka þarf fagmennsku í greininni og gera henni auðveldara að standa á eigin fótum, innflutningur erfðaefnis er stórt atriði í því samhengi. .
4. Skipulag aðalfundar LK. Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir skipulag og dagskrá aðalfundar. Snorri Sigurðsson verður skrifstofustjóri aðalfundar og Runólfur Sigursveinsson ritari. Gerð tillaga að fundarstjórum: Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri og Jóhannes Torfason Torfalæk 2, til vara Guðrún Sigurjónsdóttir, Glitstöðum. Tillaga að uppstillinga- og kjörbréfanefnd: Þórir Jónsson, Selalæk 3 og verði hann formaður, Anna Jónsdóttir, Svalbarði og Jón Gíslason, Lundi. Tillaga að formönnum starfsnefnda: Starfsnefnd 1, Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ; Starfsnefnd 2, Stefán Magnússon, Fagraskógi; Starfsnefnd 3, Jóhanna Hreinsdóttir, Káraneskoti. Farið yfir drög að dagskrá fundarins.
5. Ársreikningur LK 2011. Afkoma Landssambandsins jákvæð um 10,4 milljónir kr. Handbært eigið fé 41 m.kr. Velt var upp hugmynd um stofnun varasjóðs Landssambandsins, sem verði til ráðstöfunar þegar samtökin ganga í gegnum breytingar á fjármögnun.
6. Staða verkefna frá síðasta aðalfundi. Formaður reifaði yfirlit um stöðu mála frá síðasta aðalfundi og þeirra mála sem heyra undir stefnumörkun LK 2021. Ítarleg umræða um málið.
7. Framtíðar uppbygging og fjármögnun félagskerfis bænda – Búnaðargjald. Málið verður unnið áfram á vettvangi Bændasamtaka Íslands. Vaxandi fylgi við að félagskerfið verði uppbyggt á búgreinagrunni. Nauðsynlegt að aðalfundur LK taki afstöðu í þessum efnum. Búnaðargjaldið er sérstakt viðfangsefni; hversu hátt má það vera og hvernig á að deila því út? Fyrirkomulag búnaðarsjóða gæti verði með svipuðum hætti og í Danmörku, þar sem hver grein ber ábyrgð á sínum sjóði.
8. Veffræðsla fyrir kúabændur. Formaður kynnti hugmyndir Snorra Sigurðssonar um veffræðslu fyrir kúabændur. Stjórn styður verkefnið og leggur til að það verði tekið fyrir á aðalfundi og gert ráð fyrir því í drögum að fjárhagsáætlun.
9. Umsókn um stuðning vegna Sustainable Iceland. Formaður reifaði málið. Aðalfundur taki afstöðu til þess í fjárhagsáætlun hvernig fjármunum LK til markaðsmála verður varið.
10. Reglur um góða búskaparhætti. Fundur um málið var haldinn í febrúar sl. Útlínur verkefnisins hafa verið lagðar. Drög liggi fyrir í aðdraganda haustfunda LK 2012. Málið í ágætum farvegi.
11. Önnur mál.
a. Tilraunanefnd Stóra-Ármóts fundar n.k. mánudag. Tillögur óskast frá stjórn um verkefni.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.44.
Baldur Helgi Benjamínsson