Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. 2011-2012

19.01.2012

Fundur stjórnar Landssambands kúabænda haldinn að Birtuhálsi 1 fimmtudaginn 19. janúar 2012. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 11.00 og gekk til dagskrár.

 

1.      Fundargerð afgreidd og undirrituð. Hafði verið birt á naut.is stuttu eftir síðasta fund.

 

2.      Framleiðsla, sala og verðlagsmál. Innvigtun mjólkur síðasta ár var 124,4 milljónir lítra. Svo virðist sem ofhöld í próteinsölu fara vaxandi á ný, en út frá þeim virðist raun sala á próteini einungis vera um 112,7 milljónir lítra. Það er mikið áhyggjuefni ef rétt er. Aukning í smjörsölu er hinsvegar ánægjuefni. Mjólkuruppgjör fyrir árið 2011 hefur ekki farið fram, mikilvægt er að fulltrúar í samstarfsnefnd SAM og BÍ fái þann aðgang að gögnum sem nauðsynlegt er áður en uppgjörið verður staðfest. Fram kom að fundur verður í verðlagsnefnd búvara n.k. föstudag 20. janúar. Farið var yfir stöðu verðlagsgrundvallar 1. desember 2011 og breytingar á honum frá 1. júní s.l. Hækkun á breytilegum kostnaði þetta tímabil er 1,47 kr/ltr, þá eru talsverðar breytingar á föstum kostnaði, einkum launalið, eða sem nemur 3,85 kr/ltr. Samtals er því hækkunarþörfin þetta tímabil 5,32 kr/ltr. Hækkun stuðningsgreiðslna um áramót nema um 2,54 kr/ltr. Þegar búið er að uppfæra nautakjötsverðið vantar sem nemur 30,26 kr/ltr upp á að raun tekjur verðlagsgrundvallarbúsins dugi á móti reiknuðum framleiðslukostnaði þess. Ákveðið var að leggja til við verðlagsnefnd að gerð verði hagfræðileg úttekt á forsendum verðlagsgrundvallabúsins. Þá var lögð áhersla á að vaxtaliður grundvallarins verði tekinn til endurskoðunar, enda séu aðstæður orðnar til þess nú. Mikilvægt er að áburðarverð fari að birtast og var framkvæmdastjóra falið að ýta á eftir því við söluaðila. Farið var yfir stöðu framleiðslu og markaðsmála nautakjöts. Framleiðsla 2011 var 3.858 tonn, það er 0,9% minna en árið áður. Salan var nánast sú sama, eða 3.856 tonn. Innflutningur nautgripakjöts fyrstu 11 mánuði ársins 2011 var 418 tonn, sem er fjórum sinnum meira en sama tímabil 2010. Opin heimild er til innflutnings á nautakjöti á lágum tollum og mun hún gilda fram á mitt þetta ár, samkvæmt ákvörðun ráðherra landbúnaðarmála. Svo virðist sem heyskortur á sumum svæðum valdi því að gripum er slátrað fyrr en ella. Afsetning sláturgripa gengur með eðlilegum hætti, en í raun þyrfti nautakjötsframleiðslan að vera 4.500 tonn á ári til að metta innanlandsmarkaðinn. Mikil eftirspurn virðist vera eftir lífgripum.

 

3.      Eftirlit með framleiðslu og aðföngum í landbúnaði. Ræddar voru ýmsar uppákomur varðandi eftirlitsmál undanfarnar vikur, einkum sem snúa að Matvælastofnun. Þó vissulega eigi stofnunin ekki ein sök í öllum þeim málum sem upp hafa komið hefur trúverðugleiki hennar boðið mikinn hnekki. Stjórn LK bókar eftirfarandi ályktun vegna þessa: „Stjórn LK lýsir miklum áhyggjum af ýmsum uppákomum sem tengjast eftirlits og þjónustuhlutverki Matvælastofnunar síðustu misseri. Má þar nefna m.a. heimild til notkunar á iðnaðarsalti í matvæli og sölu á túnáburði með kadmíuminnihaldi yfir leifilegum mörkum án þess að almenningur eða notendur væru upplýstir um málið. Þá er máttleysi stofnunarinnar við að tryggja dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og eðlilega vaktþjónustu dýralækna mikið áhyggju efni, ekki síst út frá sjónarmiðum dýravelferðar. Ljóst er af framangreindu að trúverðugleiki stofnunarinnar hefur beðið mikinn hnekki og þar með grafið undan trausti almennings á því mikilvæga starfi sem henni er ætlað. Að mati stjórnar LK er óhjákvæmilegt að gerð verði nú þegar óháð úttekt á starfsemi Matvælastofnunar hið allar fyrsta og verkferlum þar komið í eðlilegt horf.“ Þá varð all nokkur umræða um dýralæknamál og lyfjanotkun, var framkvæmdastjóra falið að kanna framboð og birgðir dýralyfja.

 

4.      Stuðningur við nýliðun í mjólkurframleiðslu. Skipuð hefur verið nefnd til að útfæra stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu á grunni samkomulags Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytis, Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda. Nefndin er skipuð Helga Hauki Haukssyni, sem er formaður, Guðmundi Sigþórssyni og Níelsi Árna Lund frá SLR, Haraldi Benediktssyni frá BÍ og Sigurði Loftssyni frá LK. Þá starfa þau Erna Bjarnadóttir og Baldur Helgi Benjamínsson með nefndinni. Formaður reifaði drög að minnisblaði sem stendur til að leggja fram á fyrsta fundi nefndarinnar 20. janúar. n.k.  Fyrsta spurningin er: Hvert er markmiðið með verkefninu? Ræddir voru mögulegir farvegir fyrir þessar greiðslur, hugsanleg áhrif á stofnsjóð Auðhumlu svf. og áhrif á afkomu bænda. Miklar umræður urðu um málið og atriði því tengd.

 

5.      Styrkumsóknir. Grillið á Hótel Sögu sækir um stuðning vegna 50 ára afmælis hótelsins og íslensks þema í matseðli af því tilefni. Ákveðið að skoða möguleika á að  þessir viðburðir verði kynntir á heimasíðu LK, með fréttum og hlekk á síðunni, ásamt allt að 100.000 kr styrk. Útgáfufélagið Sjarminn, vegna útgáfu á búnaðarblaðinu Freyju. Ákveðið að veita 200.000 kr í stuðning til að uppfæra heimasíðu og stuðla að útgáfu fagefnis fyrir bændur. Stuðningur við bókina Eldum íslenskt. Sótt um 300.000 kr styrk. Samþykkt að veita styrk að þeirri upphæð.

 

6.      Búnaðarþing 2012. Farið yfir mál sem leggja á fyrir búnaðarþing. Ákveðið að leggja fram sameiginlega tillögu um málefni dýralæknaþjónustunnar ásamt Landssamtökum sauðfjárbænda og Félagi hrossabænda. Þá var ákveðið að leggja fram tillögu vegna áætlunar um innheimtu og útgreiðslu á búnaðargjaldi.

 

7.      Staða verkefna. Farið yfir verkefnalista sem settur var upp í kjölfar síðasta fundar stjórnar LK í nóvember. Sameiginlegur fundur stjórna LK og Auðhumlu er áætlaður í byrjun febrúar. Farið var yfir minnisblað Snorra Sigurðssonar yfir fjármögnun hagsmunasamtaka í nágrannalöndunum og nokkrar umræður urðu um framtíðar fjármögnun LK. Rætt var um tryggingamál og bætur vegna gripatjóna. Lögð var áhersla á að ljúka því máli hið allra fyrsta. Farið yfir lista yfir stöðu verkefna tveggja síðustu aðalfunda. Ákveðið að fara yfir stjórnarfundi síðustu tveggja ára til að kanna stöðu verkefna sem þar voru ákveðin.

 

8.      Aðalfundur LK 2012. Ákveðið að kynbótastarf í nautgriparækt verði eitt megin umfjöllunarefni fundarins sem rökrétt framhald af ráðstefnu um kynbætur nautgripa og stefnumörkun LK 2021. Miklar umræður voru um fjárhagsramma, verkefni, skrifstofuaðstöðu og starfsmannahald samtakanna.

 

9.      Tilnefning fulltrúa í stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Stungið upp á Sigurði Loftssyni sem aðalmanni og Jóhanni Nikulássyni sem varamanni. Tillagan samþykkt.

 

10.  Önnur mál.

a.       Aðgangur að skráningu hjarðbókar í  Mark. Mikilvægt er að bændum sem ekki eru með aðgang að Huppa.is verði gert kleift að skrá beint í Mark.

b.      Þjónustumál mjaltakerfa. Þau mál virðast í talsverðu uppnámi þessa dagana og hafa nokkrir umbjóðendur LK haft samband og lýst áhyggjum af stöðu sinni í því efni. Haft verði samband við umboðsaðila og áhyggjum umbjóðendanna komið á framfæri og þrýst á um úrbætur. Nauðsynlegt er að farið verði ofan í rekstrarkostnað vegna mjaltakerfa, varahlutaverð og kostnað vegna þjónustusamninga.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.10.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda