Beint í efni

Stjórnarfundir – 6. 2011-2012

23.11.2011

Fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda, fundur haldinn miðvikudaginn 23. nóvember 2011 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1. Mættir eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 11.25 og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð með smávægilegum lagfæringum. Verður birt á naut.is að loknum fundi.

 

2. Framleiðsla, sala og verðlagsmál mjólkur. Framleiðslan vex hraðar nú á haustmánuðum en á sama tímabili undanfarin ár og er munur á vikuinnlegginu þessa dagana m.v. síðasta ár hátt í 200.000 ltr. Spurningin er sú hvort framleiðslan sé að jafnast, eða hvort um hreina framleiðsluaukningu sé að ræða. Mikilvægt er að fylgjast náið með þróun framleiðslunnar og koma upplýsingum á framfæri við bændur í því efni. Framkvæmdastjóra var falið að taka stöðu varðandi kúaslátrun út frá skýrsluhaldinu þegar nóvemberskýrslur liggja fyrir og fylgjast jafnframt reglulega með þróun á heimsmarkaðsverði mjólkurafurða, þær upplýsingar verði síðan birtar á naut.is. Sala mjólkurafurða á próteingrunni  s.l. 12 mánuði í októberlok var um 113,7 milljónir lítra og hefur dregist saman um rúma 200 þús/ltr frá í september. Á móti er aukning í fitusölu og er hún komin í tæpar 111 milljónir lítra. Samdráttur er í sölu drykkjarmjólkur en á móti söluaukning í osti. Í heildina litið er söluþróunin talsvert áhyggjuefni. Talsverð umræða varð um málefni mjólkurvinnslu á Ísafirði og vöruframboð mjólkurafurða.

Verðlagsgrundvöllur kúabús mælir hækkun kostnaðar frá 1. júní til 1. september sl. upp á 5,50 kr/ltr. Hækkun breytilegs kostnaðar er 1,47 kr/ltr, þar af nemur hækkun á  kjarnfóðri um 45 aurum á lítra, en fóðurverð hefur farið lækkandi nú á haustmánuðum. Fastur kostnaður hækkar um 4,03 kr/ltr., þar af nemur hækkun launaliðar um 3,23 kr/ltr. Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitala hækkað um 9,8%. Verðlagsnefnd hefur ekki verið kölluð saman síðan í sumar og þar af leiðandi hafa niðurstöðutölur verðlagsgrundvallar ekki verið staðfestar. Sú staða er engan veginn ásættanleg, en vonir standa til að nefndin muni hittast í byrjun desember þegar framreikningur verðlagsgrundvallar 1. desember liggur fyrir.

 

Nú á endurútreikningur erlendra lána að vera langt kominn. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að fara í úttekt á raunverulegri vaxtabyrði kúabænda þegar því verki er endanlega lokið. Samkomulag hefur verið innan verðlagsnefndar um að fram fari endurskoðun á vaxtalið verðlagsgrundvallar þegar þau mál skýrðust. Talsverðar umræður urðu um hvað skuli taka við af núverandi verðlagsgrundvelli, stærð hans og ýmsar aðrar forsendur, verði af heildarendurskoðun hans. Þá var farið yfir helstu niðurstöðutölur úr búreikningum ársins 2010. Athygli vekur að meðalaldur kúabænda á búreikningabúum hefur verið stöðugur um 47-48 ár undanfarin 15 ár.

 

3. Greiðslumarksreglugerð vegna ársins 2012. Greiðslumarksreglugerð hefur enn ekki verið gefin út. Ástæðan er vilji ráðherra málaflokksins til að breyta reglum um útjöfnun á ónýttu greiðslumarki. Formaður lagði fram og reifaði minnisblað um forsendur uppgjörsins. Stjórn LK hafnar með öllu hugmyndum um að breyta útjöfnun á ónýttu greiðslumarki og telur hugmyndir í þá veru fráleitar í ljósi forsögu málsins. Þá lýsti stjórn furðu sinni á þeirri stöðu sem málið er komið í. Meðan unnið var með ráðuneytinu að uppsetningu mjólkurreglugerðarinnar kom ekkert annað fram en að málið væri í eðlilegum farvegi. Drög að reglugerðinni hafa þegar verið kynnt fyrir Framkvæmdanefnd búvörusamninga sem fallist hafi á hana fyrir sitt leiti. Þá hafði innihald reglugerðardraganna verið kynntar fyrir bændum á haustfundum Landssambandsins í þeirri trú að allt væri með feldu innan ráðuneytisins. Ráðherra neitaði síðan að undirrita reglugerðina þann 31. október s.l. daginn fyrir síðasta kvótamarkað, þegar greiðslumark næsta árs þurfti að liggja fyrir og mánuði seinna en lög gera ráð fyrir. Í ljósi þess telur stjórn LK með öllu útilokað að fallast á að breytingar verði gerðar frá fyrirliggjandi drögum að mjólkurreglugerð fyrir árið 2012, enda hefur málið nú þegar dregist úr öllu hófi.  Þó fagnar stjórn LK áhuga ráðherra á stuðningi við nýliðun í greininni og lýsir sig reiðubúna að vinna að útfærslu og framgangi slíkra hugmynda, enda fylgi þeim stuðningi nauðsynlegt fjármagn og skerði þannig ekki afkomu þeirra sem þegar hafa lífsviðurværi sitt af þessari framleiðslu. 

 

4. Málefni nautakjöts. Framkvæmdastjóri fór yfir framleiðslu og sölu nautakjöts. Um 10% aukning var í októbermánuði, m.v. fyrra ár, með tilsvarandi söluaukningu. Eitthvað virðist vera um ótímabæra slátrun nautgripa á þeim landssvæðum sem heyfengur var hvað lakastur á liðnu sumri. Þeirrar þróunar verður hinsvegar ekki vart annars staðar. Innflutningur nautakjöts er áfram mjög mikill, fyrstu 9 mánuði ársins er hann um 400 tonn, að andvirði tæplega hálfur milljarður króna. Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu innflutnings á erfðaefni í holdanautastofnana og þess vinnuhóps sem Landbúnaðarráðherra skipaði vegna málsins. Hópurinn, sem LK á reyndar ekki fulltrúa í, hefur haldið tvo fundi og þar lagt meginlínur verkefnisins. Augljóst er að sá tími sem til ráðstöfunar er í að auka hagkvæmni nautakjötsframleiðslunnar er ekki ótakmarkaður. Ræktunarfélagið Geno í Noregi hefur sent LK ýmsar upplýsingar vegna ræktunarstarfs þeirra á Angus og Limousine stofnunum og boðið LK að kynna sér þau mál í Noregi á næstu vikum. Stjórn leggur áherslu á að vinna málið í nánu samráði við BÍ og Nautastöðina. Framkvæmdastjóri kynnti helstu þætti sem snúa að upptöku EUROP matskerfis fyrir nautakjöt og uppbyggingu kerfisins. Ljóst að núverandi staða á kjötmarkaði gerir veigamiklar breytingar af þessu tagi auðveldari en ella, en nauðsynlegt er að vanda allan undirbúning málsins sem kostur er. Framkvæmdastjóra var falið að undirbúa málið og leita til þess samráðs við formann sláturleyfishafa og fulltrúa kjötvinnslna. Þeim undirbúningi verði lokið fyrir stjórnarfund LK í janúar 2012 og í framhaldinu verði leitað til þeirra opinberu aðila sem málið varðar.

 

5. Frá síðasta Fagráðsfundi. Formaður fagráðs fór yfir þau mál sem rædd voru á síðasta Fagráðsfundi auk umræðna sem þar urðu um stefnumörkun LK til ársins 2021. Fram kom að nokkur umræða hafi verið um atriði sem í stefnumörkun er vísað til Fagráðs en heyra ekki undir verksvið þess. Þá hefur blendingsræktarverkefninu ekki miðað sem skyldi m.a. vegna aðstæðna einstakra aðila í verkefnahópnum. Stjórn LK telur nauðsynlegt að kanna möguleika á að fá erlenda vísindamenn að þessu starfi svo ljúka megi verkefninu á tilsettum tíma. Fagráð mun standa fyrir ráðstefnu um nautgripakynbætur sem verður haldin á Hótel Sögu þann 30. nóvember n.k. Farið var yfir dagskrá ráðstefnunnar, en hún verður kynnt næstu daga. Æskilegt er að stjórn LK mæti. Talsverðar umræður urðu innan stjórnar um skýrsluhaldið og gæði þeirra gagna. Mikilvægt er að auknum fjármunum til skýrsluhaldsins sé fylgt eftir með auknum kröfum um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þannig koma inn. Taka þarf málið upp í Fagráði nautgriparæktar.


6. Endurskipulagning leiðbeiningaþjónustunnar. Formaður fór yfir það efni sem lagt var fram á formannafundi BÍ um endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar. En á þeim fundi kynnti Ole Kristensen, sérfræðingur Videncenter for Landbrug í Danmörku hugmyndir sínar um endurskipulagningu ráðgjafaþjónustu á Íslandi. Þá kynnti framkvæmdastjóri BÍ þær hugmyndir sem uppi eru innan samtakanna um stofnsetningu eins fyrirtækis sem muni sjá um ráðgjafaþjónustuna á landsvísu. Ekki verður betur séð en þær hugmyndir sem þarna koma fram falli að þeim áherslum sem lagt var upp með í stefnumörkun LK, en mikilvægt er að vanda mjög uppsetningu og skipulag hins nýja ráðgjafafyrirtækis.
 
7. Framtíð búnaðargjalds og fjármögnun félagskerfisins. Á fyrrnefndum fundi var einnig farið yfir álitsgerð Sigurðar Líndal prófessor emeritus um lögmæti búnaðargjalds. Í álitsgerðinni leitast Sigurður við að svara ákveðnum spurningum frá BÍ varðandi búnaðargjald út frá þeim dómum sem nýlega hafa fallið um áþekka gjaldtöku s.s. iðnaðarmálagjald. Samkvæmt því kemur fram að gera þarf skýra grein fyrir hvernig búnaðargjaldinu er ráðstafað til einstakra verkefna. Eins virðist að gjaldtöku sem þessari megi einungis verja til verkefna sem hafi stjórnskipaða stöðu. Stjórn LK telur brýnt að ræða hvort og þá til hvaða stjórnsýsluverkefna eðlilegt sé að nota fjármuni af búnaðargjaldi og ekki komi til greina að nota þá fjármuni til verkefna sem ríkinu beri að standa straum af með búnaðarlagasamningi. Ekki er í álitinu svarað mikilvægum grundvallar spurningum varðandi þá stöðu sem a.m.k. sum búgreinafélög hafa samkvæmt t.d. búvörulögunum. Nauðsynlegt er að hefja nú þegar undirbúning á að fjármagna starfsemi LK með öðrum hætti en búnaðargjaldi. Ákveðið var að óska eftir því við Snorra Sigurðsson að kanna fjármögnun Dansk kvæg og Landsforeningen af Danske Mælkeproducenter núna í desember.

 

8. Verkefni tengd stefnumörkun. Framkvæmdastjóra var falið að taka saman yfirlit yfir stöðu verkefna sem kveðið er á um í stefnumörkun.

 

9. Staða ESB umsóknar.  Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu málsins. Landbúnaðarhópurinn, sem framkvæmdastjóri LK á sæti í fyrir hönd Bændasamtaka Íslands, hittist í fyrsta skipti þann 22. nóvember eftir mjög langt hlé. Á fundinum var farið yfir rýniskýrslu ESB um landbúnaðarmál sem kom fram í byrjun september. Einnig var farið yfir drög að framkvæmdaáætlun um innleiðingu og upptöku laga, reglugerða og stofnana Evrópusambandsins. Ljóst að slíkar áætlanir verða ýmsum annmörkum háðar, þar sem þær þarf að gera áður en samningsafstaða Íslands er lögð fram. Stuttlega rætt um nýjan samráðshóp um utanríkisviðskipti, óljóst hvaða stöðu hann hefur gagnvart landbúnaðarhópnum og hvort verkefni muni flytjast frá honum eða ekki. Farið var yfir skýrslu Daða M. Kristóferssonar og Ernu Bjarnadóttur um stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart aðild að ESB, áhrif á tekjur og stuðning og áætlaða stuðningsþörf. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að tollvernd falli alfarið niður í kjölfar aðildar ef af henni verður. Lækkunarþörf mjólkur í kjölfar aðildar verði amk. 25% og nautakjöts 8%. Stuðningsþörf mjólkurframleiðslunnar yrði samkvæmt því 7,4 milljarðar og nautakjötsframleiðslunnar 130 milljónir, til að halda nokkurn veginn óbreyttri afkomu. Stuðningsþörf landbúnaðarins í heild yrði 14,2 milljarðar, sem er veruleg aukning frá þeim stuðningi sem er í dag um 9 milljarðar króna á ári.

 

10. Starfsáætlun stjórnar fram að aðalfundi. Farið var yfir fyrirliggjandi fundaáætlun stjórnar.  Nauðsynlegt er að ná sameiginlegum fundi stjórna LK og Auðhumlu sem fyrst eftir áramót til að fara yfir sameiginleg verkefni sem snúa að stefnumörkun og fleiri mál sem ofarlega hafa verið síðustu misseri.

 

11.  Breytingar á reglugerð um merkingar nautgripa. Ný reglugerð um merkingar gripa tók gildi með nánast engum fyrirvara og sáralítilli kynningu. Málið var talsvert rætt og samþykkir stjórn LK eftirfarandi ályktun vegna málsins:  Þann 1. nóvember sl. tóku gildi breytingar á reglum um merkingar nautgripa, reglugerð 968/2011. Reglugerðin var sett um miðjan október og kynnt af Matvælastofnun á einum fundi, sem haldinn var sama dag og hún tók gildi. Fyrirvari breytinganna var því nánast enginn. Þótt nú sé langt liðið á nóvembermánuð er heldur ekki búið að gera nauðsynlegar breytingar á pöntunarkerfi fyrir plötumerki. Slík vinnubrögð Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis eru með öllu óásættanleg.

 

12. Önnur mál.
a. Stuðningur við kjötbókina. Matís ohf hefur óskað eftir 1.550 þús. kr framlagi frá LK vegna nautakjötshluta kjötbókarinnar. Sláturleyfishafar hafa gefið vilyrði um 1.000 þús. kr framlag í þann hluta. Stjórn samþykkir erindið.
b. Framvæmdastjóra var falið að taka saman yfirlit yfir framgang mála frá síðustu tveimur aðalfundum. Þá er mikilvægt að fara reglubundið yfir framgang mála á hverjum stjórnarfund til að tryggja að mál falli ekki milli stafs og hurðar.
c. Æskilegt að bæta skráningar í skýrsluhaldi á fósturláti. Birting á niðurstöðum skýrsluhaldsins hefur orðið fábrotnari undanfarin ár. Taka þarf málið upp í Fagráði nautgriparæktar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.31.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.