Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2011-2012

13.10.2011

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda, haldinn hjá Búnaðarsambandi Suðurlands fimmtudaginn 13. október 2011. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 14.45 og gekk til dagskrár.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð.

2. Verðlags- og sölumál mjólkur. Talsverðar umræður urðu um stöðu verðlagsmála. Fyrir liggur verðlagsgrundvöllur 1. september en hann hefur ekki verið staðfestur af Verðlagsnefnd. Mikilvægt er að nefndin komi saman hið fyrsta en hún hefur ekki fundað síðan í júní s.l. Framtíð verðlagsgrundvallarins er óljós og mikilvægt að rætt verði á haustfundunum með hvaða hætti verði best staðið að kostnaðarmælingum í tengslum  við  verðlagningu mjólkur. Bráðabirgðatölur um sölu á próteingrunni gefa tilefni til að ætla að salan sé nú um stundir 114,1 milljón lítra.

3. Málefni nautakjöts. Farið yfir hugmyndir að B.Sc. verkefni Davíðs Loga Jónssonar um stöðu nautakjötsframleiðslunnar. Gerð á spálíkani um nautakjötsframleiðslu. Þá kom fram að hópur um áhættumat vegna innflutnings á erfðaefni holdakynja sé að hefja störf.

4. Greiðslumarksreglugerð 2012 hefur ekki verið gefin út, en ekkert á að standa í vegi þess að það verði gert mjög fljótlega. Rætt var um skiptingu á óframleiðslutengdum stuðningi, en 27,4 milljónir standa útaf, þegar þeir liðir sem njóta framlaga innan þess flokks hafa verið uppreiknaðir frá fyrra ári í samræmi við aðra liði mjólkursamnings. Stjórn LK er þeirrar skoðunar að skilvirkast sé að þeir fjármunir verði árið 2012 greiddir út á kynbótaverkefni og skýrsluhald. Þá kom fram að hefði mjólkursamningurinn staðið óbreyttur, mætti gera ráð fyrir að óframleiðslutengdi stuðningurinn væri kominn í um 465 m.kr. á verðlagsárinu 2011-2012, sem jafnframt hefði verið lokaár samningsins og beingreiðslur hefðu þá lækkað sem því næmi. Ráðuneytið telur sér ekki lengur fært að greiða umsýslugjald vegna vinnu við framkvæmd búvörusamninga til Bændasamtaka Íslands, en kostnaður vegna þessa á árinu 2011 er á bilinu 10-11 m.kr.  Unnið hefur verið að því að fá framlag af fjáraukalögum vegna þessa, en hófleg bjartsýni ríkir með að það náist. Krafa ríkisins er að þessi kostnaður verði greiddur af samningunum sjálfum. Að mati BÍ er sú vinna sem í þetta fer u.þ.b. eitt ársverk. Rætt var hvort hægt væri að fá mat á umfangi þessa starfs hjá öðrum aðilum sem fást við svipuð uppgjör, t.d. Auðhumlu svf.

5. Aðbúnaðarreglugerð. Fyrir liggja drög að nýrri aðbúnaðarreglugerð, sem og drög að breytingum á lögum um búfjárhald. Í reglugerðardrögunum er víða vísað í reglur um góða búskaparhætti. Landssambandið mun hafi forgöngu að gerð slíkra reglna og hefur Snorri Sigurðsson tekið að sér að gera drög að slíkum reglum, í samvinnu við Unnstein Snorra Snorrason. LK mun vinna að þessu verki í samvinnu við Fagráð í nautgriparækt, auk þess sem óskað verði þátttöku SAM og Landssamtaka sláturleyfishafa.  

6. Kvótamarkaður. Þriðji kvótamarkaður stendur fyrir dyrum þann 1. nóvember n.k. Stjórn telur æskilegt að fá fram hugleiðingar rekstrarráðgjafa um hvað sé eðlilegt að bjóða í greiðslumark við núverandi aðstæður, áður en tilboðum skal skilað inn þann 25. október. n.k. Nokkrar umræður urðu um væntanlegt framboð, eftirspurn og jafnvægisverð.

7. Stefnumörkun og verkefni tengd henni. Stjórn ákvað að stefna að sameiginlegum fundi stjórna LK og Auðhumlu í byrjun janúar 2012 til að fara yfir verkefni tengd stefnumörkuninni. Þá eru nokkur verkefni einnig á borði fagráðs í nautgriparækt sem væntanlega verður farið yfir á fundi þess 9. nóvember n.k.
a. Betri bústjórn.
b. Bætt nýting fastafjármuna. Skoða þarf að setja upp lista með landbúnaðarverktökum í einstökum héruðum og setja á heimasíðu LK. Þá mætti birta viðtöl við bændur sem hafa langa reynslu af nýtingu verktaka. Þá er mikið til af tækjum sem flutt voru inn á lággengisárunum, þau verða trauðla endurnýjuð í sama mæli. 
c. Takmarkanir á bústærð. Ályktun aðalfundar LK frá 2010 gerir ráð fyrir hugmyndum um takmarkanir á bústærð, þó ekki minna en 1% af greiðslumarki. Það er ekki vilji stjórnar LK að setja önnur mörk en öryggismörk, sem taki mið af heilbrigðis- og dýraverndarsjónarmiðum. Enda stórt álitamál hvar eigi bústærðartakmörk að vera?
d. Blendingsrækt og samvinna við ræktunarfélögin Viking og Geno. Stefnt er að því að ljúka blendingsræktarverkefninu fyrir áramót.
e. EUROP mat á nautakjöti fyrir árslok 2012. Stefna að fundi með Landssamtökum sláturleyfishafa um þetta efni.
f. Áhættumat vegna innflutnings á erfðaefni í holdanautastofnana. Nauðsynlegt að stjórn LK fylgist með störfum hóps á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem hefur það mál með höndum.
g. Skipulag og fjármögnun félagskerfis kúabænda. Ýmsir möguleikar til framtíðar fjármögnunar á samtökunum ræddir. Er raunhæft að innheimta félagsgjald í gegnum mjólkuriðnaðinn?  Ljóst er að þeim mun erfiðari sem verkefnin eru félagslega, verður fjármögnun samtakanna erfiðari. Nauðsynlegt er að kanna fjármögnun hliðstæðra samtaka í nágrannalöndunum.
h. Endurskipulagning leiðbeiningaþjónustunnar.
i. Vinna Ole Kristensen frá Videncenter for Landbrug fyrir BÍ.
ii. Skýrsla Snorra Sigurðssonar um framleiðendaþjónustu á Norðurlöndunum og Bretlandi.
iii. Samanburður á ráðgjafaþjónustu hér og í nágrannalöndum.
iv. Úttekt á þörf fyrir þjónustu.

8. Önnur mál.
a. Dýralæknaþjónustan. Með reglugerð 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum sem taka á gildi 1. nóvember n.k. er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á dreifbýlum landsvæðum. Alls hafa verið skilgreind 9 þjónustusvæði þar sem sýnt þykir að ekki sé grundvöllur fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna. Samkvæmt upplýsingum sem Landssamband kúabænda hefur aflað er ekki búið að ganga frá þjónustusamningum við dýralækna á þessum þjónustusvæðum. Slíkt er með öllu óviðunandi. Auk þess er það skoðun stjórnar Landssambands kúabænda að þjónustusvæðin séu allt of umfangsmikil fyrir einn dýralækni.

 

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17.45.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda