Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. 2011-2012

21.09.2011

Stjórnarfundur Landssambands kúabænda haldinn á Bitruhálsi 1 21. september 2011. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 10.51. Einar Sigurðsson forstjóri MS og Auðhumlu og Jón Axel Pétursson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS voru gestir fundarins undir lið 2.

 

1. Fundargerð. Afgreidd með minni háttar lagfæringum og undirrituð að því loknu. Verður birt á naut.is að loknum fundi.

2. Sölumál mjólkur. Farið var ýtarlega yfir sölumál einstakra flokka mjólkurafurða, bæði stöðuna í dag og yfir lengra tímabil. Sala á próteingrunni 114 milljónir lítra eftir ágúst 2011, sala á fitugrunni 110,3 milljónir lítra. Spár um sölu næstu mánaða ganga út frá 114 milljón lítra sölu á próteingrunni. Farið yfir mannfjöldaþróun og þróun á aldurssamsetningu þjóðarinnar undanfarin ár. Þjóðin eldist tiltölulega hratt og við því verður að bregðast í vöruþróun. Próteinneysla hefur dregist saman um 3,5% pr. íbúa frá 2007-2011. Sala á mjólkurvörum hefur þó verið heldur betri en á annarri matvöru. Ostamarkaðurinn hefur vaxið frá 2007, drykkjarmjólkurmarkaður hefur dregist saman, sú þróun á sér stað almennt á Vesturlöndum. Sala á viðbiti hefur staðið í stað í 2 ár. „Máltíðamarkaður“ hefur verið köflóttur. Miklar umræður urðu um mjólkurumbúðir, „tappavæðing“ Fjörmjólkur hefur gefið mjög góða raun. Söluhorfur á innanlandsmarkaði í september taldar góðar. Ágætt gengi á útflutningi, sér í lagi til Evrópu. Verð á útfluttu smjöri er hærra en á innanlandsmarkaði. Vangaveltur komu fram um fjármuni til sölu- og markaðsmála, hvort of langt hefði verið gengið í að draga úr þeim. Fram kom að ekki þarf endilega að vera samræmi á milli upphæðar þeirra fjármuna sem settir eru í markaðsstarf  og árangurs. Því hefur megin áherslan verið lögð á að nýta þessa fjármuni betur en áður var. Vöruþróun er öflug innan fyrirtækisins, dæmi um slíkt sem vel hafa gengið eru grjónagrautur og heimilisjógúrt. Farið yfir líftímakúrfur einstakra vara. Rædd var þjónusta við verslanir og fullyrðingar um vöruskort. Fréttir af óviðunandi vöruframboði og þjónustu eru of algengar að mati stjórnar LK. Fram kom að þetta á fyrst og fremst við vörur sem eru framleiddar í mjög litlum lotum, en verið að skoða þessi mál innan mjólkuriðnaðarins. Mikil óánægja hefur komið fram með hversu lítið framboð er á innlendu kálfadufti. Þau mál eru að komast í rétt horf, væntanlegt er nýtt kálfadufti með mikið breyttri uppskrift, þar sem meira er af mysuprótein en minna undanrennuduft. Þá hefur bruninn sem varð í duftvinnslu MS á Selfossi árið 2010 haft neikvæð áhrif á framleiðslugetuna. Meiriháttar viðgerð er fyrirhuguð þar á haustmánuðum, meðan mjólkurframleiðslan er í lágmarki.

3. Verðlagsmál mjólkur. Verðlagsnefnd búvara hefur ekki verið kölluð saman að nýju eftir verðákvörðunina í júní. Óljóst er um stöðu kjarasamninga, t.d. er verðbólga mun meiri en gert var ráð fyrir og bati í efnahagslífi hefur látið standa á sér. Talsverð viðbrögð urðu gagnvart ráðuneytinu eftir síðustu hækkun á mjólkurverði. Framreikningur verðlagsgrundvallar er kominn talsvert langt frá þeim veruleika sem verðlagsnefnd hefur boðið framleiðendum og mikið skortir uppá að hagtölur skili sér með ásættanlegum hætti. Mikilvægt er að þau gögn sem unnið er með endurspegli raunveruleikann í sem ríkustum mæli. Ekki hefur náðst vilji innan verðlagsnefndar búvara til að ganga til þeirrar heildarendurskoðunar á verðlagsgrundvelli kúabús sem síðasti aðalfundur LK óskaði eftir. Mikilvægt er að ræða tilvist verðlagsgrundvallar á haustfundum og hvað geti tekið við af honum.

4. Greiðslumark og greiðslur af mjólkursamningi 2012. Formaður reifaði hugmyndir að skiptingu beingreiðslna og greiðslur vegna mjólkursamnings árið 2012. Ljóst að verðbólgan verður yfir 5% á árinu, en samkvæmt breytingum sem gerðar voru á samningnum í apríl 2009 er sett hámark á hækkun framlaga vegna mjólkursamnings við 5% milli áranna 2011 og 2012. Miðað við verðlagsþróun stefnir í skerðingu frá upphaflega samningnum upp á a.m.k. 135 m.kr. árið 2012. Frumvarp til fjárlaga 2012 verður lagt fram í byrjun október. SAM mun funda bráðlega til að ræða ákvörðun um greiðslumark 2012. Farið var yfir tilhögun C-greiðslna, telur stjórn ekki ástæðu til að gera breytingar á þeim að svo stöddu. Stefnt er að útgáfu greiðslumarksreglugerðar fyrir 2012 í októbermánuði og leggur stjórn áherslu á að hún verði með sama sniði og sú sem nú gildir. Rætt var um greiðslumarksverð og þróun þess. Mikilvægt að koma á framfæri ráðgjöf til bænda sem hyggja á greiðslumarkskaup. Þá verði bændur minntir á kvótamarkaðinn 1. nóvember n.k.

5. Framkvæmd búvörulaga. Samkvæmt upplýsingum LK eru skil á framleiðsluskýrslum margra mjólkurvinnsluaðila óviðunandi. Mikilvægt er að viðeigandi stjórnvald gangi eftir skýrsluskilum varðandi mjólkuruppgjör, enda grundvallaratriði að allir vinnsluaðilar, hvort sem um er að ræða heimavinnslu eða aðra, skili skýrslum og því sé fylgt fast eftir. Verði þar misbrestur á ber að nýta núverandi lagaramma og þær leiðir til eftirfylgni sem í honum felast.

6. Nautakjötsframleiðslan. Lagðar voru fram nýjar ásetningstölur úr gagnagrunni BÍ. Samkvæmt þeim stefnir í að ásetningur nautkálfa verði svipaður á þessu ári og í fyrra. Samkvæmt þeim voru 8.653 gripir settir á árið 2008, 9.113 árið 2009, 9.231 árið 2010 og það sem af er þessu ári hafa 5.554 nautkálfar verið settir á. MAST á að fylgja eftir merkingum gripa og skýrsluskilum um þá, en upplýsingar um ásetning eru mjög lengi að skila sér og í mörgum tilfellum virðast þær ekki gera það fyrr en komið er að því að senda gripi í slátrun. Einnig var lögð fram reglugerð nr. 721/2011 sem heimilar ótakmarkaðan innflutning nautakjöts á lágum tollum fram til 30. september n.k. Áhrif hennar sjást vel í innflutningi á nautakjöti sem hefur aukist verulega það sem af er ári, 257 tonn voru flutt inn fyrstu sjö mánuði ársins 2011 á móti 79 tonnum á sama tímabili 2010. Farið var ítarlegar í framlegðarútreikninga sem áður höfðu verið kynntir fyrir stjórn. Samkvæmt þeim er munur á framlegð holdablendinga og alíslenskra gripa gríðarlegur, þeim fyrrnefndu í hag. Stjórn LK telur mikilvægt að markaðstækifæri fyrir nautakjöt séu nýtt af íslenskum bændum, þó með þeim hætti að afkoma framleiðslunnar sé viðunandi. Möguleiki á gerð framleiðsluspár ræddur áfram, framkvæmdastjóri mun koma þeirri hugmynd á framfæri við Landbúnaðarháskólann.

7. Endurskipulagning leiðbeiningaþjónustunnar. Gerð var grein fyrir fundi sem haldinn var miðvikudaginn 14. september með dönskum ráðgjafa, Ole Kristensen, sem BÍ hefur falið það hlutverk að gera tillögur um gagngera endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar hér á landi. Fundinn sóttu Baldur, Jóhann og Guðný Helga. Minnisblað LK sem lagt hafði verið fram á umræddum fundinum var reifað, en innihald þess var byggt á forsendum nýrrar stefnumörkunar LK. Nokkrar vangaveltur urðu um búnaðargjaldið og hvort einstakir kúabændur, eða aðrir sem mikilla hagsmuna hafa að gæta, muni hafa frumkvæði að því að það verði fellt niður, náist ekki fram róttækar breytingar á ráðgjafaþjónustunni. Farið var yfir  spurningalista frá BÍ vegna þessarar endurskipulagningarvinnu og munu stjórnarmenn skoða hann fyrir næsta stjórnarfund sem fyrirhugaður er 13. október n.k.

8. Stefnumörkun. Gengið var efnislega frá texta á síðasta stjórnarfundi á Egilsstöðum. Verið er að ganga frá uppsetningu og frágangi til prentunar og glærukynningar þessa dagana. Drög að endanlegu ritverki kynnt fyrir stjórn, sem gerði nokkrar tillögur til úrbóta sem framkvæmdastjóra var falið að koma á framfæri við ritstjóra verksins og umbrotsaðila. Stjórn ræddi kynningu verksins. Fyrirhugað að dreifa stefnumörkuninni með Bændablaðinu 13. október og kynna hana á fyrsta haustfundinum sem haldinn verði í Þingborg þann sama dag.

9. Efnistök haustfunda. Formaður hafði sent stjórn minnisblað um efnistök haustfunda fyrir fundinn. Var samþykkt að efnistökin yrði í meginatriðum eftirfarandi:

1. Framleiðsla og sala mjólkurafurða.
2. Framleiðsla og sala nautakjöts.
3. Verðlags- og afkomumál.
4. Framkvæmd mjólkursamnings.
5. Lánamál bænda. Mótormaxdómur. Endurútreikningur lána.
6. Greiðslumark og viðskipti með það.
7. Lög og reglugerðir.

 Reglugerð um varnir gegn garnaveiki.
 Frumvarp til laga um dýravelferð.
 Reglugerð um aðbúnað nautgripa
 Reglugerð er varða matvæli úr dýraríkinu (mjólkurhluti)

 

8. ESB mál.
9. Stefnumörkun.
10. Önnur mál.

a.  Árangur sæðinga hefur farið mjög dvínandi. Ekki verður séð að kerfið bregðist við því með neinum hætti. Einhver vandamál eru með uppþíðingarbrúsa hjá frjótækum. Mikilvægt að málið verði tekið fyrir í Fagráði hið fyrsta.
b. Mál fyrir tilraunanefnd Stóra-Ármóts. Prófun á kálfadufti. Gæðamál mjólkur, ffs. Útnefning mjólkurgæðameistara.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.19.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK