Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. 2011-2012

18.08.2011

Stjórnarfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Héraði fimmtudaginn 18. ágúst 2011. Mætt eru Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 10.07 og gekk til dagskrár.

 

1. Fundargerð. Fundargerð síðasta fundar staðfest og undirrituð.

2. Sölu og markaðsmál nautgripaafurða. Mikil umræða um landbúnað að undanförnu, einkum sauðfjárframleiðsluna. Viðbrögð við framsetningu á viðmiðunarverði kindakjöts umhugsunarverð. Óvíst hver langtímaáhrif af neikvæðri umræðu sumarsins verða. Svo virðist sem ýmsum öflum í samfélaginu henti illt umtal um atvinnugreinina. Próteinsala undanfarna 12 mánuði er tæplega 115 milljónir lítra, inni í því eru tvö hömstrunartímabil, í lok janúar og lok júlí 2011. Hver verða markaðsáhrif Vesturmjólkur? Þeim aðila ber að skila skýrslum um framleiðsluna til BÍ, eins og öðrum mjólkursamlögum. Fram hefur komið að framboð á íslensku nautakjöti er ekki nægjanlegt. Bændum og sláturleyfishöfum var kynnt sú staðreynd að ásetningur mætti vera meiri fyrir 2 árum. Ljóst að hér eru á ferðinni vannýttir tekjumöguleikar fyrir bændur. Framlegðarútreikningar nautakjötsframleiðslu, byggðir á innlendum eldistilraunum kynntir fyrir stjórn. Innflutningur nautakjöts eykst talsvert milli ára. Hvaða möguleikar eru í stöðunni til framleiðsluaukningar? Kyngreint sæði er víða í notkun í nágrannalöndunum. Aukin notkun á holdasæði og endurnýjun þess. Styttri eldistími skiptir máli. Ef öll kúabú setja á einn holdakálf til viðbóta ár hvert, myndi það koma mjög til móts við aukna eftirspurn. Mikilvægt að vakta markaðsstöðuna á hverjum tíma. LK geri framleiðsluspár, sem byggi á ásetningi og áætluðum fallþunga. Áhugavert að skoða sem nemendaverkefni.  

3. Verðlagsmál. Mikilvægt að fá leiðréttingu á mjólkurverði 1. júlí. Umgengni verðlagsnefndar um verðlagsgrundvöllinn er orðin verulegt umhugsunarefni. Frá 1. des. 2009 hefur aðeins náðst að leiðrétta breytingar vegna breytilegs kostnaðar, annað stendur fyrir utan. Þjónar tilgangi að nota verðlagsgrundvöllinn í núverandi mynd? Sem fyrr er staða einstakra bænda misjafnari en nokkurn tímann áður. Skuldastaðan víða er að trufla mjög mikið mat á afkomu greinarinnar. Endurútreikningar erlendra lána munu væntanlega hafa umtalsverð áhrif á mat bænda á afkomu sinni. Spurnig hver áhrif erfiðrar stöðu á vinnumarkaði, neikvæðrar umræðu sumarsins og þungrar stöðu í ríkisfjármálum verði á að ná fram frekari leiðréttingu mjólkurverðs. Líkur standa til að aðfangaverð til fóðurgerðar verði heldur skaplegra en verið hefur að undanförnu. Hvort það dugar til lækkunar á fóðurverði á eftir að koma í ljós. Óvíst hvernig kornuppskera sumarsins verður, hversu mikið af bygginu verður skurðarhæft? Fóðurframleiðsla sumarsins verður óhagkvæmari fyrir bragðið.

4. Skuldamál bænda. Samkvæmt heimildum frá Arion banka, verður búið að endurreikna erlend lán skv. dómi Hæstaréttar í Mótormax málinu í október. Væntanlega  verður farið að hafa samband við skuldunautana þegar endurreikningi er lokið. Vaxtakjör liggja ekki fyrir enn.

5. Stefnumörkun. Snorri Sigurðsson var á línunni frá Danmörku undir þessum lið. Ýtarlegar umræður um fram komnar athugasemdir við drög að stefnumörkun Landssambands kúabænda 2021, sem send voru til aðalfundarfulltrúa 13. júlí í sumar. Fyrirliggjandi stefnumörkunardrög voru endurskoðuð með hliðsjón af innsendum athugasemdum og henni þannig komið efnislega í endanlegt horf.

6. Búvörusamningar.  Í kornskýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá því í júní sl., er rætt um að fýsilegt verði að auka stuðning við kornrækt verulega. Þar er tekið sem dæmi, að þreföldun á stuðningi við kornrækt, myndi einungis nema um 10% af beingreiðslum skv. búvörusamningum við bændur. Ekki hefur borist ósk um endurskoðun búvörusamninga, en stjórn LK sér alls ekki fyrir sér að gerlegt muni vera að breyta núverandi mjólkursamningi frekar en orðið er.

7. Aðbúnaðarreglugerð og drög að frumvarpi til laga um velferð dýra. Undirbúningur að breyttri reglugerð er á lokastigi, drög hafa verið kynnt fyrir stjórn LK. Miklar umræður um útivistarákvæði reglugerðar og tillögur að skynsamlegri útfærslu á slíku ákvæði. Kynnt drög að umsögn LK um drög að frumvarpi til laga um dýravelferð. LK hefur athugasemdir við fjölmargar greinar frumvarpsdraganna. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá umsögninni í samráði við stjórn.

8. Úttekt á kostum og göllum blendingsræktar. Síðasti aðalfundur samþykkti í drögum að stefnumörkun að framangreind úttekt yrði unnin og niðurstöðu hennar yrðu lagðar fyrir aðalfund LK 2012. Í starfshóp hafa verið skipaðir Magnús B. Jónsson, nautgriparæktarráðunautur, Jón Viðar Jónmundsson, búfjárræktarráðunautur, Guðmundur Jóhannesson, héraðsráðunautur í nautgriparækt og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK. Hópurinn mun hefja störf í lok þessa mánaðar. 

9. Staða umsóknar Íslands um aðild að ESB. Starf samningahóps um landbúnaðar- og byggðamál hefur legið niðri um langt skeið. Á fundi hans í vetur var lagt fyrir hann að setja saman samningsmarkmið fyrir 1. maí sl. Sú vinna er ekki hafin enn og mun mjög tæplega fara fram. Slíkt er í algerri andstöðu við álit meirihluta utanríkismálanefndar frá því í júlí 2009, gerð samningsmarkmiða var beinlínis tilgangur þessa hóps.

10. Reglur um góða starfshætti í nautgriparækt. Farið yfir reglur Arla foods um góða búskaparhætti, „Arlagården“. Það efni er tiltölulega auðvelt að þýða og staðfæra. Málið verður tekið fyrir í fagráði í nautgriparækt. Gert ráð fyrir því í drögum að aðbúnaðarreglugerð að slíkar reglur verði til staðar. Verkefnið verði skilgreint og því sniðinn fjárhagsrammi. Aðkoma mjólkuriðnaðarins að slíku verkefni er æskileg. Stefnt að fundi í fagráði í lok þessa mánaðar.

11. Tilgangur og framtíð Samstarfsnefndar SAM og BÍ. Í kjölfar staðfestingar á mjólkuruppgjöri fyrir árið 2010, hafa verið talsverðar vangaveltur innan stjórnar LK um tilgang og framtíð samstarfsnefndar SAM og BÍ. Áður var um að ræða uppgjör milli margra aðila, en að stærstum hluta einn í dag. Spurningar eru um ábyrgð og hlutverk nefndarinnar gagnvart uppgjöri á framleiðslu  einstakra búa, útjöfnun á ónýttu greiðslumarki og sundurliðun á heimavinnslu. Í ljósi þessa skrifaði fulltrúi LK undir staðfestinguna með bókun.

12. Tryggingamál. Stjórn LK hefur vaxandi áhyggjur af bágri tryggingavernd Bjargráðasjóðs og takmörkuðum inngreiðslum í sjóðinn. Mikil þörf á aukinni tryggingavernd sem sótt verði á almennan markað. Ákveðið að setja aukinn kraft í málið í samvinnu við Auðhumlu.

13. Haustfundir LK 2011. Lögð fram drög að skipulagi haustfunda. Stjórn mæti öll á fyrsta haustfundinn sem haldinn verði í Þingborg 13. október n.k., formaður og framkvæmdastjóri beri hitann og þungann af fundahaldi þetta haustið. Formaður stefnir að fastri viðveru á skrifstofu samtakanna í Reykjavík á þriðjudögum og framkvæmdastjóri  á miðvikudögum, oftar ef nauðsyn krefur. Stefnt að föstum fundartímum stjórnar, lögð fram drög að fundaskipulagi.
14. Önnur mál.
a) Tollar á kálfamjólkurdufti. Málið er í vinnslu hjá ráðuneyti landbúnaðarmála.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.30

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK