Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2011-2012

13.04.2011

1. stjórnarfundur Landssambands kúabænda starfsárið 2011-2012 haldinn á Bitruhálsi 1 í Reykjavík miðvikudaginn 13. apríl 2011. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Einnig er mætt 1. varamaður Jóhanna Hreinsdóttir. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega nýjan stjórnarmann Jóhann Gísla Jóhannsson, setti fund kl. 11 og gekk til dagskrár.

 

1. Verklag stjórnar og fundargerðir. Formaður fór yfir verklag stjórnar, verkaskiptingu formanns og framkvæmdastjóra. Tímasetning á birtingu fundargerða hefur sætt gagnrýni frá umbjóðendum LK en stefnt er að því að þær séu birtar eigi síðar en eftir næsta fund og helst fyrr ef mögulegt er. Tölvupóstur til stjórnar er sendur á báða varamenn í stjórn og um þá ríkir trúnaður. Stefnt að birtingu fundargerða Fagráðs á naut.is. Gerð tillaga að breyttri uppsetningu á vef, að víxlað verði staðsetningu á Kýrhausnum og smáauglýsingunum.

2. Verkaskipting stjórnar og tilnefningar í nefndir og ráð. Fram kom tillaga um Guðnýju Helgu Björnsdóttur í stöðu varaformanns og var hún kjörin varaformaður með 5 atkvæðum. Fram kom tillaga um Sveinbjörn Þór Sigurðsson í embætti ritara og var hann kjörinn ritari með 5 atkvæðum. Í Samninganefnd vegna búvörusamninga kom fram tillaga um Sigurð Loftsson og Guðnýju Helgu Björnsdóttur af hálfu LK. Sú tillaga er samþykkt. Tillaga kom fram um að fulltrúar í Verðlagsnefnd búvara verði tilnefndir í samráði við Bændasamtök Íslands. Sú tillaga var samþykkt. Í Samráðsnefnd SAM og BÍ kom fram tillaga um Jóhann Nikulásson sem aðalfulltrúa og Sveinbjörn Þór Sigurðsson til vara. Sú tillaga var samþykkt. Í Framkvæmdanefnd búvörusamninga var tilnefndur Sigurður Loftsson. Sú tillaga var samþykkt.

3. Aðalfundur 2011, aðdragandi og framkvæmd. Góður og starfssamur fundur, umræður málefnalegar og mikil eindrægni ríkti. Tímapressa var mikil í lokin, líkt og síðast þegar stefnumörkun var til umræðu. Mikilvægt er að hafa skrifstofustjóra sem þekkir málefnin vel. Framkvæmdastjóri þarf að hafa tök á að vera til staðar allan tímann meðan afgreiðsla mála stendur yfir. Spurning hvort starfsnefndir hafi verið of stórar? Nauðsynlegt að skipa ritara í starfsnefndum, ásamt formanni með eðlilegum fyrirvara. Velt upp hvort betra væri að fá utanaðkomandi fundarstjóra. Reifuð ýmis málefni í aðdraganda aðalfundar.

4. Aðalfundur 2012. Undanfarin ár hefur aðalfundur verið haldinn til skiptis á Akureyri, Selfossi og í Reykjavík.  Framkvæmdastjóra verði falið að leita tilboða í fundinn á Selfossi, 23. og 24. mars 2012.  Ákveðið var að kanna hugsanlega möguleika á að halda fundinn á Egilsstöðum 2013.

5. Úrvinnsla ályktana aðalfundar 2011.
a. Kjaramálaályktun. Er stefnumarkandi fyrir stjórn LK. Verði kynnt fyrir BÍ og SAM og ráðherra landbúnaðarmála. Senda framkvæmdastjórum framangreindra samtaka og stofnana, Framkvæmdanefnd búvörusamninga, Verðlagsnefnd búvara, Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og Efnahags- og skattanefnd Alþingis. 
b. Verðlagsgrundvöllur. Tillögunni er beint til stjórnar.
c. Búvörulagafrumvarp. Vinna þarf að málinu með öllum tiltækum ráðum. Málið verði rætt við ráðherra.
d. Jarðalög. Senda á formenn þingflokka, SLR, BÍ, Samtök sveitarfélaga, Landssamtök landeigenda. Ítarlegar umræður urðu um málið.
e. Málefni nautakjöts. Tillögu um innflutningi á erfðaefni verði vísað til umræðu í Fagráði í nautgriparækt og stjórn BÍ, fyrir hönd Nautastöðvar BÍ. Vinna þarf áhættumat vegna innflutnings á djúpfrystu nautasæði. Málið verði kynnt fyrir ráðherra. Framkvæmdastjóri kanni markaðsstöðu nautgripakjöts, ánægjulegt að sláturleyfishafi skuli greiða verðuppbót á nautakjötsinnlegg, vonandi að aðrir sláturleyfishafar geri slíkt hið sama.
f. Búnaðargjald. Ályktun er beint til stjórnar, tekur að miklu leyti undir álit búnaðargjaldsnefndarinnar.  Nauðsynlegt er að skoða framtíðar tekjustofna LK.
g. Tímasetning Búnaðarþings. Senda tillöguna til BÍ.
h. Fóðureftirlit. Senda til MAST. Málið verði kannað ítarlega og stofnunin heimsótt af þessu og fleiri tilefnum.
i. Kynningarmál. Endurnýjun heimasíðu verði lokið. Óskað verði eftir að stjórnarmenn LK verði á póstlista Mjólkurpóstsins, yfirliti yfir framleiðslu og sölu, ásamt innvigtun mjólkur. Leiðaraskrif stjórnarmanna verði endurnýjaðir eigi síðar en hálfsmánaðarlega. 
j. Kynbótastarf. Senda til Fagráðs í nautgriparækt.
k. Sæðingastarfsemi. Framkvæmdastjóra verði falið að vinna að málinu ásamt BÍ, í samræmi við ályktun aðalfundar LK og Búnaðarþings. Tillagan verði send til BÍ og rædd í Fagráði.
l. Lyf og dýralæknaþjónusta. Senda á SLR og MAST, ræða við MAST.
m. Samþykktabreytingar. Afgreitt mál.
n. Umsókn um aðild að ESB. LK stendur þétt við bakið á BÍ gagnvart þessu máli. Senda til BÍ og Utanríkismálanefnd Alþingis.
o. Umfjöllun RÚV um aðildarumsókn Íslands að ESB. Senda til útvarpsstjóra, formanns útvarpsráðs og Menntamálaráðherra. Í erindinu komi fram á hvaða aðila sé sent afrit.
p. Kvótamarkaður. Senda til SLR. Málið verði kynnt ráðherra. Ítarlega var rætt um niðurstöðu kvótamarkaðar 1. apríl 2011.  MAST sendir bankaábyrgðir til baka eftir markaðinn en bændur þurfa sjálfir að láta fella þær niður, eða lækka niður í þá upphæð sem þeir munu fyrirsjáanlega greiða fyrir greiðslumarkið. Ræða þarf verkferla varðandi ábyrgðir við bankana og MAST.
q. Mengunarmál í Skutulsfirði. Senda Umhverfisráðherra, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ísafjarðarbæ, MAST og Umhverfisstofnun. Kynna fyrir Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
r.  Málefni skuldugra bænda. Senda til BÍ og kynna tillöguna fyrir Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá eru nýlega farnir af stað endurútreikningar á gengistryggðum lánum bænda sem eru í viðskiptum við Landsbanka Íslands og  Íslandsbanka. Grundvöllur þeirra byggir á lögum nr. 151/2010 um uppgjör lána einstaklinga sem samþykktar voru á Alþingi 22. desember síðastliðinn. Ekkert slíkt virðist hinsvegar vera í gangi hjá Arionbanka enn sem komið er. Ólíðandi er að  ekki sé unnið á samræmdan hátt að þessum málum meðal fjármálafyrirtækja. Ákveðið var að ræða þessi mál sem fyrst við forsvarsmenn Arionbanka og eftir atvikum önnur fjármálafyrirtæki.

6. Útflutningsmál mjólkurafurða. Undir þessum lið mætti til fundarins Einar Sigurðsson forstjóri Auðhumlu. Umframframleiðslan hefur verið á bilinu 6-7% undanfarin ár. Salan verður lítillega undir greiðslumarki. Jákvæð þróun á útflutningsmörkuðum. Skyr arðbærasti útflutningurinn. Smjörverð á heimsmarkaði er mjög hátt. Heildartekjur af útflutningi mjólkurafurða á liðnu ári 515 m.kr.  Tekjur af sérleyfisvinnslu fara vaxandi og eðlilegt er að þær  séu nýttar til frekari landvinninga í útflutningi mjólkurafurða. Ákveðið að forsvarsmenn LK og MS fundi með Íslandsstofu hið fyrsta um stuðning við markaðsstarf í USA. Þangað til verði beðið með ákvörðun um stuðning LK við málið. Upplýsingum um umframmjólkurverð verði komið reglulega á framfæri.

7. Umsagnir vegna lagafrumvarpa.
a. Jarðalög. Afstaða LK er mjög skýr gagnvart málinu eftir ályktun aðalfundar og stefnt er að því að vinna ummsögn vegna frumvarpsins á þeim forsendum. Umsagnarfrestur er til 27. apríl. Gagnrýnivert er að ekkert samráð var haft við LK í starfi nefndarinnar um endurskoðun laganna.
b. Hagþjónusta landbúnaðarins (niðurlagning stofnunarinnar). LK hefur ekki athugasemdir við lagafrumvarpið.

8. Framleiðsla, sala og verðlagsmál. Sala á próteingrunni er tæplega 115 m. ltr. Í tekjum talið er sala yfir áætlunum. Hækkunarþörf er tæpar 2 kr/ltr á tímabilinu 1. desember 2010 til 1. mars 2011. Markaðsstaða margra mjólkurafurða í járnum og svigrúm til verðhækkana eftir því takmarkað. Fóðurhækkanir í febrúar og áburðarhækkanir eru ekki enn komnar inni í verðlagsgrundvöll.

9.  Umsókn fyrir verkefnið Betri bústjórn. Umsóknin hefur verið til umfjöllunar í Fagráði og samþykkt þar. Lagt er til að þrír aðilar leggi til fjármuni, þróunarsjóður nautgriparæktarinnar 1,1 m.kr., LK 1,1 m.kr. og BÍ 1,35 m.kr. Skipuleg vinnutímaskráning verði tekin upp samhliða auknum innlestri haggagna frá bændum og tengingu á milli forrita þannig að fleiri lykiltölur fáist úr gögnunum. Mikilvægt að ná inn auknu gagnamagni frá bændum en til þess þurfa bændur að fá eitthvað í staðinn, lykiltölur og etv. lægri árgjöld fyrir dkBúbót. Stjórn ákvað að styrkja verkefnið í samræmi við ofangreinda umsókn.

10. Stefnumörkun. Rætt um  áframhald verkefnisins. Fylgja eftir skipulegri vinnutímaskráningu, huga að tæknilegum úrlausnum. Hámarka nýtingu á föstum kostnaði. Tryggja að ekki komi til takmarkanir á bústærð. Gera skal úttekt á kostum þess og göllum að taka upp skipulagða blendingsrækt sem lögð verði fyrir aðalfund 2012. Rætt með hvaða hætti best sé að standa að því verkefni.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.20.

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK