Beint í efni

Stjórnarfundir – 01. f. 2000/2001

12.09.2000

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda


Fyrsti fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn í fundarsal veitingarstaðarins Brekku, í Hrísey, þriðjudaginn 12. september 2000 og hófst hann klukkan 11. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:

1. Val í trúnaðarstöður
Varaformaður var kosinn leynilegri kosningu og var Gunnar kosinn með fjórum atkvæðum. Stjórn LK lýtur svo á að allir stjórnarmenn hafi jafna ábyrgð, þrátt fyrir að einstakir stjórnarmenn séu valdir sem varaformaður, gjaldkeri og ritari skv. ákvæðum í samþykktum LK. Kristín Linda var kjörin gjaldkeri og Birgir ritari.

– Val fagráðsfulltrúa LK
Jón Gíslason, Lundi, hefur óskað eftir því að hætta í fagráði nautgriparæktar og því ljóst að setja þarf inn nýja menn fyrir hönd LK, þar sem Hjörtur Hjartarson hefur einnig hætt störfum fyrir LK. Ákveðið var að skipa Þórólf Sveinsson, Þórarinn Leifsson í Keldudal og Sigurð Loftsson í Steinsholti sem aðalfulltrúa og Gunnar Sverrisson og Kristínu Lindu Jónsdóttur sem varamenn.

– Val fulltrúa LK í ræktunarhóp nautgriparæktarinnar
Fagráð skipar vinnuhóp sem fjallar um kynbótaþáttinn í starfi fagráðs. Töluverðar umræður urðu um það með hvaða hætti sé hægt að gera starfið sýnilegra. Talið var æskilegt að skipa stjórnarmann LK í þennan ræktunarhóp.

2. Reynslan af aðalfundur LK
Fundarmenn voru mjög ánægðir með nýliðinn fund og lofuðu aðstöðuna. Mjög góð aðsókn gesta var á fundinn og ánægjuleg þátttaka maka aðalfundarfulltrúa. Þó komu fram ábendingar um nauðsyn á jafnri fóðrun fundarmanna allan fundinn. Fundarmenn höfðu frétt að þeir makar sem tóku þátt í makadagskrá aðalfundarins hafi verið mjög ánægðir og er það ánægjulegt. Fjölmiðlar gerðu fundinum mjög góð skil og hafa komið þakklæti á framfæri við LK vegna góðrar aðstöðu og þjónustu. Varðandi umræður og ályktanir var það mál manna að fundurinn hafi verið málefnalegur og tekist vel. Rætt var um það form fundarins að gestir sem ávarpa fundinn taki virkan þátt í fundinum og umræðum fundarins. Fundarmenn voru sammála að breyta ekki þessu formi fundarins.

3. Afgreiðsla ályktana aðalfundar LK
Ályktanir frá aðalfundi LK 2000 voru teknar fyrir og framkvæmdastjóra falið að senda ályktanir fundarins í samræmi við ákvörðun stjórnar:

Ályktun um nýjungar í bútækni
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, skorar á rannsóknaaðila í nautgriparækt og yfirdýralækni að halda vöku sinni gagnvart nýjungum í fóðrun, mjöltum og umhirðu nautgripa. Nauðsynlegt verður að teljast að til þess hæfir aðilar meti þær tæknilausnir sem fram koma þannig að leiðbeiningar liggi fyrir og reglugerðir þar að lútandi séu endurskoðaðar í tæka tíð.“

Greinargerð:
Á undanförnum misserum hafa átt sér stað örar breytingar í hönnun og uppbyggingu fjósa hérlendis og jafnframt hafa komið fram nýjar tæknilausnir varðandi fóðrun gripanna og mjaltir. Má þar m.a. nefna mjaltaþjóna og gjafakerfi fyrir gróffóðu en hvorutveggja þessara búnaða eru á undanþágu frá gildandi reglugerðum til næstu áramóta. Ætla verður að tímabundin undanþága sé gefin þar sem ástæða þykir til að skoða nánar eiginleika viðkomandi búnaðar. En hver er svo reyndin? Umrætt gróffóðurgjafakerfi byggir á þeirri grunnhugsun að gripirnir hafi jafnan og stöðugan aðgang að fóðrinu og því muni hægt að hafa fleiri gripi á hvert átpláss heldur en ef um venjulegan fóðurgang er að ræða þar sem gefið er á málum. Síðastliðinn vetur voru tvö svona kerfi tekin í notkun í íslenskum fjósum og allar líkur eru til að allmörg bætist í hópinn á komandi vetri. Samt sem áður hefur ekki verið gerð nein úttekt á þessum búnaði af hendi íslenskra rannsóknaaðila. Bændur nútímans hljóta að gera þá kröfu að rannsóknageirinn fylgist grannt með nýjungum og standi sig í öflun og dreifingu upplýsinga þegar um afdrifaríkar og kostnaðarsamar fjárfestingar er að ræða.

Ákveðið var að senda ályktunina til Fagráðs í nautgriparækt, Yfirdýralæknis, BÍ, Bútæknideildar Rala og LBH.

Ályktun um ráðgjafaþjónustu og ræktunarmál
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, gerir kröfu til að aukin gjaldtaka fyrir leiðbeiningaþjónustu verði nýtt til lækkunar búnaðargjalds.

Greinargerð:
LK lítur svo á að skipta megi þjónustu sem nautgriparæktin þarfnast í þrjá flokka:

a. Sjá um kúasæðingar og fleira er tengist kynbótastarfi í nautgriparækt.
– LK leggur mikla áherslu á að við endurskoðun búnaðarsamnings verði horfið frá þeirri miklu skerðingu á framlögum til kynbótastarfseminnar sem raunin varð í núgildandi búnaðarsamningi en ljóst er að sæðingastarfsemin er víða í hættu þar sem rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi.

– Nauðsynlegt er að skoða hvort hagkvæmt sé að veita á landsvísu stóran hluta af þeirri fagþjónustu sem nautgriparæktin þarfnast vegna ræktunarstarfsins. Minna má á að allt ytra umhverfi til slíks er gjörbreytt vegna nýrrar tækni og bættra samgangna. Nauðsynlegt er að skilgreina hvaða grunnþjónusta á að standa til boða vegna ræktunarstarfsins. Síðan verður að tryggja aðgengi allra bænda að þeirri þjónustu á jafnréttisgrundvelli. Þá getur frekari einstaklingsþjónusta staðið til boða og verið veitt gegn þjónustugjaldi.

– Mjög brýnt er að búnaðarsamböndin svari sem fyrst með nákvæmum hætti fyrirspurn BÍ um heildarkostnað við sæðingastarfsemina og ræktunarstarfið. Að þeim fengnum þarf að skoða hvort hagkvæmt er að öll sæðingastarfsemin verði undir einni stjórn. Þá hefur Fagráð ályktað um nauðsyn bættrar þjónustu hvað varðar kúaskoðun. Þær breytingar ganga nú yfir og þurfa að komast á um allt land sem fyrst.

b. Veita tiltölulega almennar upplýsingar er stundum/oft felast í að vísa hlutaðeigandi á hvar frekari upplýsingar er að hafa.
– LK gerir ráð fyrir að þessi starfsþáttur haldist lítt breyttur, eða ef þörf krefur, með töku vægs gjald fyrir viðtöl og upplýsingagjöf.

c. Veita ráðgjöf um tiltekin rekstrarleg/fagleg málefni.
– LK gerir ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu á þessum starfsþætti að verk er undir hann falla verði seld á kostnaðarverði. Nauðsynleg forsenda þess að taka upp þessa starfshætti er að búnaðarsamböndin viti nákvæmlega hvað hver starfsþáttur þeirra kostar, hvaða tekjur koma til hans af opinberu fé, hvaða hlutdeild hann á að fá í tekjum búnaðarsambands af búnaðargjaldi og í framhaldi af því ákveða þau hversu dýrt þarf að selja viðkomandi verk. Það er síðan bóndans að ákveða hvaða þjónustu hann kaupir og hvar hann kaupir hana.

– LK leggur mikla áherslu á að starfsumhverfið þarf að kalla á hagræðingu.“

Ákveðið að senda ályktunina til BÍ, ásamt svari LK við spurningum frá BÍ um hvaða þjónustu kúabændur óska af búnaðarsamböndum og fjármögnun þeirrar þjónustu. Einnig verði ályktunin send til Fagráðs í nautgriparækt og landbúnaðarráðuneytis.

Ályktun um innflutning á norskum fósturvísum í tilraunaskyni
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, átelur harðlega þann drátt sem orðið hefur á að leyfi fáist til innflutnings á NRF-fósturvísum í tilraunaskyni. Skorar fundurinn á landbúnaðarráðherra að taka sem fyrst ákvörðun þar um.

Greinargerð:
Fyrir liggja allar umbeðnar umsagnir vegna innflutningsins og eru allar jákvæðar. Allur frekari dráttur á afgreiðslu hefur í för með sér aukinn kostnað, viðheldur óvissu hjá kúabændum og seinkar því að bændur fái notið hugsanlegs ávinnings af nýju kyni. Vissulega er málið umdeilt en úr því leysist ekki með lengri bið. Loks skal á það bent að vegna afmarkaðs burðartíma kúa í Noregi fer í hönd á næstu vikum æskilegasti tíminn til söfnunar fósturvísa þar. Allar aðstæður kalla því á skjóta afgreiðslu málsins.“

Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðuneytis ásamt eftirfarandi yfirlýsingu stjórnar LK: Í ræðu landbúnaðarráðherra á aðalfundi LK í ágúst s.l. kom fram að öll gögn, sem óskað hefði verið eftir vegna umræddrar umsóknar, hefðu skilað sér í ráðuneytið. Stjórn LK lítur svo á að nú sé gagnaöflun lokið og svars að vænta á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Ályktun um rannsóknir á próteini í mjólk
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, beinir því til Fagráðs að aukin áhersla verði lögð á rannsóknir á próteini í mjólk. Einkum verði kannaðir möguleikar til að hafa áhrif á próteinhlutfall mjólkur með fóðrun. Jafnframt beinir fundurinn því til Fagráðs að kanna hvort ástæða sé til að auka vægi próteinhlutfalls í ræktunarstarfinu og jafnvel að velja fyrir lægra fituhlutfalli.“

Ákveðið að senda ályktunina til fagráðs í nautgriparækt.

Ályktun um bætt símkerfi í sveitum
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, ítrekar fyrri ályktanir um nauðsyn á bættu símkerfi í sveitum og krefst þess að öllum notendum símkerfisins verði tryggð viðunandi tenging við Netið.

Greinargerð:
Sú þróun sem orðið hefur undanfarið í rafrænum samskiptum skapar nýja og stórkostlega möguleika á fjölmörgum sviðum og getur gjörbreytt möguleikum fólks til atvinnu, menntunar og dægrardvalar óháð búsetu. Ekki er annað sýnna en að í náinni framtíð verði í ríkum mæli treyst á þessa tækni í miðlun hverskyns upplýsinga og ráðgjafar, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Þeir sem ekki hafa tök á að nýta þessa tækni verði því í óviðunandi stöðu að þessu leyti.
Enn er stór hópur bænda sem ekki á kost á viðunandi tengingu við Netið vegna takmarkana í símkerfinu og fer því á mis við þá möguleika sem þarna er boðið upp á. Er slík staða að sjálfsögðu með öllu óþolandi og í eyrum þessara manna næsta holur hljómur í hástemmdum yfirlýsingum ráðamanna um að þessi nýja tækni muni bjarga hinum dreifðu byggðum.
Því setur fundurinn þessa kröfu fram af fullum þunga.“

Ákveðið að senda ályktunina til samgönguráðherra, stjórnarformanni og forstjóra Landssímans, formanns samgöngunefndar Alþingis og forstjóra og stjórnarformanni Byggðastofnunar.

Ályktun um úttekt á dýralæknaþjónustu
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, telur fulla ástæðu til að fram fari úttekt á hvernig reynsla er af nýjum lögum um dýralæknaþjónustu. Bæði verði hugað að þjónustustigi við notendur og virkni eftirlitsþáttarins.

Greinargerð:
Eitt meginmarkmið nýrra laga um dýralæknaþjónustu var að aðskilja eftirlitsþáttinn frá almennum dýralækningum. Víðast hvar hefur þetta ekki tekist fullkomlega, enda varla framkvæmanlegt vegna kostnaðar. Reynslu þeirra sem að eftirlitinu stóðu var kastað fyrir róða og hefur kerfið orðið mun flóknara og þyngra í vöfum en áður var. Að auki virðist sem eftirlitið hafi versnað og gengur víða illa að fá endurnýjun á mjólkursöluleyfi.
Fundurinn beinir því einnig til stjórnar að hún geri reglulega könnun á þjónustustigi og verðlagningu dýralæknisþjónustu um landið. Þetta virðist vera mjög mismunandi eftir landshlutum og eru það hagsmunir bænda að gerður sé á þessu samanburður sem menn geti gengið að.
Með nýjum reglum um lyfjagjöf eru möguleikar bænda til að meðhöndla ýmsa algenga sjúkdóma, skertir til muna. Nokkuð er mismunandi hvernig þetta er framkvæmt en ljóst er að þetta er mjög dýrt og óhentugt, ekki síst þar sem dýralæknaþjónustan er minnst.
Með virku innra eftirliti og gæðastýringu ætti að vera hægt að treysta bændum fyrir ýmsum þessum störfum og minnka með því kostnað og umstang.“

Ákveðið að senda ályktunina til Yfirdýralæknis

Ályktun um tengsl bænda við almenning og fjölmiðla
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, hvetur stjórn til að leggja aukna áherslu á kynningar og útbreiðslustarf til að gera sambandið og störf þess sýnilegri en verið hefur.
Þar er höfð í huga nauðsyn þess að ná athygli og velvild samfélagsins og ekki síður að efla tengslin við kúabændur sjálfa.
Í hraða nútíma þjóðfélags eru áhrif fjölmiðla gífurlega mikil og getur skipt sköpum að koma réttum upplýsingum á framfæri á réttum tíma. Þetta krefst fagmennsku og þekkingar á innviðum fjölmiðlanna. Fundurinn telur ástæðu til að kannað verði hvort hægt sé að ná samstöðu innan mjólkurgeirans um að ráða fjölmiðlafulltrúa.“

Ákveðið að senda ályktunina til Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins. Þá var og ákveðið að fyrir næsta stjórnarfund hafi framkvæmdastjóri fengið hönnuði til að vinna hugmyndir að nýju og framsæknara merki fyrir Landssamband kúabænda.

Ályktun til stjórnar LK um útreikninga á greiðslumarki
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, telur nauðsynlegt að mjólkurframleiðendur viti með góðum fyrirvara hvaða mjólkurmagn þörf sé fyrir á komandi verðlagsári og að breytingar á greiðslufyrirkomulagi séu gerðar með svo góðum fyrirvara að framleiðendur geti brugðist við þeim áður en þeir skipuleggja framleiðslu verðlagsársins. Því felur fundurinn stjórn LK að leita eftir nauðsynlegum breytingum á útreikningi greiðslumarks til að svo megi verða.

Greinargerð:
Stýring í mjólkurframleiðslunni byggir á því að fundið er svokallað heildargreiðslumark sem á að endurspegla þörf markaðarins fyrir mjólk í eitt ár. Þetta heildargreiðslumark skiptist síðan í greiðslumark framleiðenda. Tveir megin efnaþættir mjólkurinnar eru prótein og fita. Það gerir málið flóknara að markaðurinn þarf ekki jafn mikið af þessum efnaþáttum. Þannig má segja að nú þurfi markaðurinn prótein úr allt að 105 milljónum lítra mjólkur en fitu úr 99 milljónum lítra mjólkur. Þegar afurðastöðvarnar gera upp við bændur greiða þær þannig fyrir mjólkina að próteinið vegur 75% en fitan 25%. Það heildargreiðslumark sem reiknað er ár hvert, er fundið með því að margfalda prótein- og fitusölu með þessum hlutföllum. Það gefur því auga leið að til viðbótar því próteini sem kemur úr mjólk innan greiðslumarks, þarf mjólkuriðnaðurinn að kaupa viðbótarprótein til að mæta þörfum markaðarins. Þannig voru keyptar um 5,6 milljónir lítra af umframmjólk á síðasta verðlagsári. Þær próteinbirgðir sem þá urðu til munu væntanlega klárast á næsta verðlagsári en þær gera að verkum að ekki eru forsendur til að greiða fyrir umframmjólk með sama hætti nú og í fyrra. Annmarki þessa kerfis er að ekki er til nein aðferð til að tryggja árlega framleiðslu á þeirri mjólk sem þarf til að skila því próteini sem markaðurinn þarf umfram það sem greiðslumarksmjólkin skilar. Að kaupa umframmjólk í slumpum eins og reyndin varð á síðasta verðlagsári er óskynsamlegt og kostnaðarsamt. Því felur aðalfundur LK stjórn að leita eftir nauðsynlegum breytingum á þessu fyrirkomulagi þannig að þörfum markaðarins verði sinnt með sem ódýrustum hætti.“

Ákveðið að senda ályktunina til SAM og framkvæmdanefndar búvörusamninga. Einnig veltu fundarmenn því fyrir sér með hvaða hætti ætti að kaupa umframprótein, ef á þyrfti að halda á nýbyrjuðu verðlagsári. Fram kom hugmynd um hvort hægt væri að leggja til kaup á umframpróteini á síðustu hlutum verðlagsársins eða setja flatt aukahlutfall á framleiðsluheimildir bændanna, í báðum tilvikum að ákveðmu hámarki.

Ályktun um rannsóknastöðu í mjöltum og mjaltatækni við LBH
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, beinir því til stjórnar LK að hún beiti sér fyrir því að við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri verði komið á stöðu rannsóknamanns um mjaltatækni, vinnubrögð við mjaltir, aðbúnað gripa og starfsfólks og annað, sem að þeim málum lýtur.

Greinargerð:
Öllum má vera ljós nauðsyn þess að bændur, mjólkureftirlitsmenn og ráðunautar hafi jafnan aðgang að bestu þekkingu og upplýsingar um nýjustu tækni á þessu sviði. Það verður væntanlega best tryggt með því að einn ákveðinn aðili hafi það hlutverk að afla þessarar þekkingar og gera hana aðgengilega og eðlilegt að horft sé til LBH í því efni. Þar fer fram kennsla í nautgriparækt og góð aðstaða er til námskeiðahalds. Á Hvanneyri hefur þegar verið komið upp aðstöðu til kynningar á mjaltatækjum, þar er dýralæknir júgursjúkdóma staðsettur og Bútæknideild RALA..
Vegna smæðar mjólkurgeirans á Íslandi er ekki raunhæft að búast við því að hér verði stundaðar fræðilegar grunnrannsóknir að neinu ráði og því yrði þekkingarleit í öðrum löndum að sjálfsögðu fyrirferðarmikill þáttur í starfinu. Þó hlýtur í einhverjum mæli að þurfa að gera athuganir á ýmsum hlutum við íslenskar aðstæður og yrði það eðlilega hlutverk þessarar stofnunar að sjá um þær.“

Ákveðið að senda ályktunina til Fagráðs í nautgriparækt, landbúnaðarráðuneytis, LBH Bútæknideildar Rala og SAM.

Ályktun um markaðsmál nautgripakjöts
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, hvetur stjórn LK að fylgjast vel með stöðu mála á kjötmarkaði og grípa til aðgerða, sem vænlegastar eru á hverjum tíma, svo koma megi í veg fyrir óæskilega birgðasöfnun og verðfall afurða. T.d væri hægt að grípa til verðuppbóta á slátraða ungkálfa og afsetja lélegustu flokka kýrkjöts. Einnig hvetur fundurinn stjórn LK til að fylgjast vel með verðlagningu á nautakjöti. Til að fjármagna nauðsynlegar aðgerðir felur fundurinn stjórn LK að leita eftir hækkun á verðskerðingargjaldi í allt að 1600 og 2000 krónur, eftir tímabilum.“

Nautakjöt hefur mikið verið í umræðunni undanfarnar vikur og öll umfjöllun verið jákvæð í garð bænda og LK. Hvað snertir framleiðsluna þarf að afla skýrari upplýsinga um raunverulega biðlista hjá bændum og þá með skoðanakönnun. Samkvæmt tilboði frá einu fyrirtæki á því sviði kostar fimm spurninga könnun hjá 250 bændum, með uppgjöri, 290 þúsund með virðisaukaskatti, en tíu spurninga könnun 370 þúsund með virðisaukaskatti. Ákveðið var að gera könnun og að framkvæmdastjóra, formanni og gjaldkera falið að vinna að framgangi málsins.

Þá var ákveðið að skoða nánar flokkun á kýrkjöti og með hvaða hætti hægt er að auka gæði kjöts á markaði.

4. Málefni Verðlagsnefndar
Þórólfur kynnti störf nefndarinnar og með hvaða hætti verðtilfærsla mjólkur og mjólkurafurða verður framkvæmd á nýbyrjuðu verðlagsári, af hvaða vörum verðtilfærslugjald verði innheimt/endurgreitt og í hvaða mæli. Þá var rætt um stöðu nefndarinnar með vinnu við verðlagsgrundvöllinn. Unnið er í dag með byggingaskýrslur og þannig verið að nálgast raunverulegan byggingarkostnað við fjósbyggingar.

5. Innsend erindi og bréf
Fyrir fundinun lá þakkarbréf frá stjórn Íslandsdeildar NÖK þar sem stuðningur LK, við ráðstefnu norænna nautgriparæktarmanna (NÖK) á Akureyri s.l. sumar, var þakkaður. Bréfið lagt fram til kynningar.

6. Önnur mál
– Aðalfundur LK 2001
Ákveðið var að halda næsta fund á Norð-Austurlandi og var framkvæmdastjóra falið að vinna að pöntun á hóteli og aðstöðu. Gengið yrði frá þessu í vetrarbyrjun.

– Verðkönnun dýralæknaþjónustu
Rætt var um með hvaða hætti hægt sé að veita verðeftirlit með dýralæknaþjónustu á landinu og ákveðið að leita til aðalfundafulltrúa varðandi upplýsingar um kostnað við dýralækningar um land allt. Framkvæmdastjóra og Agli falið að gera lista yfir þau lyf og þær meðferðir sem afla skal upplýsinga um og hrinda könnuninni í framkvæmd sem fyrst.

– Athugun á próteinhæstu búum landsins
Fram komu hugmyndir um að að rætt verði við þá bændur sem standa fyrir þeim búum sem efst standa á lista yfir bú sem eru með hátt hlutfall af próteini eftir kýrnar á sínum búum og viðtölin birt í Bændablaðinu. Mikil umræða varð um málið og veltu fundarmenn því fyrir sér hvort ekki væri leið til að skoða betur þau gögn sem BÍ hefur þegar yfir að ráða. Ákveðið að vísa erindinu fyrst til fagráðs í nautgriparækt, áður en Bbl. yrði falið málið.

– Úttekt á hugsanlegum áhrifum aðildar Íslands að Evrópusambandinu
Í ræðu sinni á Aðalfundi Landssambands kúabænda 2000, gerði landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, það að tillögu sinni að efnt yrði til úttektar á áhrifum Evrópusambandsaðildar fyrir landbúnaðinn. Stjórn LK lýsir stuðningi við hugmynd ráðherra og óskar eftir að hann hafi frumkvæði að því að koma verkinu af stað á þeim forsendum sem hann kynnti á aðalfundi LK.

– Kynbótaræktunarráðgjöf til bænda
Rætt var um aðgengi kúabænda að kynbótaráðgjöf og er hún því miður víða í ólestri. Málið verður tekið upp á vettvangi fagráðs.

– Kýr 2000
Ákveðið var að senda Búnaðarsambandi Suðurlands þakkir vegna sýningarinnar ,,Kýr 2000“, en sýningin var aðstandendum sínum til sóma.

– Skýrsla frá norska mjólkuriðnaðinum
Fundarmönnum var afhent skýrsla frá norska mjólkuriðnaðinum um verðlagsmál í Noregi og hlutdeild mjólkurvörusölu af heildarsölu verslana. Skýrslan lögð fram til kynningar.

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl.15:50
Snorri Sigurðsson