Stjórnarfundir – 9. 2010-2011
25.01.2011
Fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda 25. janúar 2011. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri. Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
Fundur settur kl. 11.30.
1. Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð síðasta fundar 16. desember 2010. Samþykkt með lítils háttar breytingum. Stefnt að því að flýta birtingu fundargerða á naut.is frá því sem nú er.
2. Verðlagsmál. Ákvörðun verðlagsnefndar búvöru frá 19. janúar sl. um hækkun á mjólkurverði frá 1. febrúar n.k. Formaður reifaði aðdraganda ákvörðunar verðlagsnefndar og lagði fram minnisblað vegna hennar. Að hans mati var mjög mikilvægt að náðst hafi sameiginleg niðurstöða í nefndinni og rjúfa þar með þá kyrrstöðu sem upp var komin í verðlagningarmálum. Ekki er verið að skilja neina liði eftir, heldur eru þeir lagðir til hliðar í bili og verða teknir upp síðar. Ljóst er að ekki varð lengra komist að sinni án þess að til ágreinings kæmi innan nefndarinnar. Ekki er talið unnt að endurskoða vaxtahluta verðlagsgrundvallar kúabús, fyrr en niðurstaða er komin í úrvinnslu á skuldamálum kúabænda. Komin er full þörf á að endurskoða grundvöllinn í heild sinni , þar sem grunnforsendur hans eru orðnar 12 – 13 ára gamlar. Formaður og framkvæmdastjóri taki saman kynningarefni vegna verðlagningarinnar fyrir aðalfundi aðildarfélaganna sem framundan eru. Stjórn samþykkir svofellda bókun vegna þessa:
Stjórn Landssambands kúabænda lýsir fullum stuðningi við fulltrúa bænda í Verðlagsnefnd búvara. Afar mikilvægt var að rjúfa langvarandi kyrrstöðu í verðlagningarmálum með sameiginlegri niðurstöðu nefndarinnar, þó æskilegt hefði verið að ná fram meiri leiðréttingu á mjólkurverði í samræmi við framreikning verðlagsgrundvallar. Í framhaldinu er nauðsynlegt að grannt verði fylgst með þróun aðfangaverðs og launa á almennum vinnumarkaði. Fulltrúar bænda í verðlagsnefnd fylgi því eftir af fullri einurð í störfum verðlagsnefndar á komandi mánuðum, að mjólkurverð til bænda taki mið af framangreindri þróun.
Yfirlit um heildsöluverð mjólkurafurða og breyting milli tímabila kynnt fyrir stjórn.
3. Framleiðsla og sala 2010. Söluyfirlit SAM sýnir að salan 2010 á próteingrunni er 114,7 milljónir lítra, sem er nokkuð undir greiðslumarkinu 2011. Mjög mikilvægt að salan næstu mánuði gangi vel, þannig að ekki þurfi að draga greiðslumarkið saman. Nautakjötssalan 2010 var 3.900 tonn og jókst um 3,9%. Á yfirliti yfir flokkun 2010 kemur fram að dregið hefur úr fjölda gripa sem fara í úrval um 27%. Ásetningur fer heldur vaxandi. Á naut.is þarf að vekja athygli á ýtarlegri eftirfylgni MAST með merkingum og skráningum gripa. Bændur þurfa að staðfesta slátrun í huppu.is, þar eru víða farnir að safnast upp langir listar.
4. Kvótamarkaður. Fundur um kvótamarkaðsreglugerð var haldinn í ráðuneytinu 17. janúar sl. vegna ýmissa atriða sem breyta þarf í reglugerðinni. Formaður reifaði málið og lagði fram minnisblað sem sent var til ráðuneytisins. Í því eru m.a. gerðar tillögur um fjölgun markaðsdaga, 1. mars, 1. júní og 1. nóvember. Jafnframt var lögð fyrir stjórn greinargerð vegna niðurfellingar heimildar í tekjuskattslögum vegna niðurfærslu á kostnaði vegna greiðslumarkskaupa. Ýtarlegar umræður urðu um málin innan stjórnar. Ákveðið var að fela formanni að vinna ályktun vegna niðurfellingar á fyrningarheimild við greiðslumarkskaup, en bíða með frekari viðbrögð varðandi kvótamarkaðinn þar til að fyrir liggur hver niðurstaða ráðuneytisins verður.
5. Stefnumörkun, úrvinnsla og kostnaður. Farið var ýtarlega yfir efnistök á fundi stefnumörkunarhóps og stjórnar sl. föstudag. Snorra Sigurðssyni hefur verið falið að safna efni stefnumörkunar saman. Ljóst er að kostnaður vegna verkefnisins verður talsverður.
6. Betri bústjórn. Guðný Helga reifaði stöðu verkefnisins. Er orðið heldur meira að umfangi en lagt var upp með, m.a. komin fram hugmynd að tengja saman huppa.is og Gróða – hagtölugrunn BÍ. Því fylgir talsverð forritunarvinna sem ólíklegt má telja að verði lokið fyrir aðalfund LK 2011.
7. Styrkumsókn Beint frá býli og stefnumörkun í heimavinnslu. Formenn LK og BFB funduðu um stöðu þessara mála um miðjan janúar. Ljóst að skil heimavinnsluaðila á skýrslum um heimavinnslu mjólkur til BÍ hefur færst mjög til betra horfs. Nauðsynlegt er að setja upp verklagsreglur um meðferð heimavinnsluskýrslna. Skoða þarf t.d. möguleika á rafrænum mánaðarlegum skýrsluskilum. Nauðsynlegt er að skýra þá umgjörð sem heimavinnslan býr við þannig að sátt ríki um fyrirkomulagið. Mikilvægt er að þessi verkefni verði unnið í samstarfi LK og BFB, niðurstaðan gæti síðan orðið hluti af heildar stefnumörkun greinarinnar. Eðlilegt er að Beint frá býli njóti nokkurs stuðnings vegna þeirra verkefna sem þessu fylgir. Samþykkt að styrkja samtökin um 500 þúsund í samræmi við umsókn samtakanna frá 28. september s.l. Formanni og framkvæmdastjóra falið að rita bréf til samtakanna vegna þessa.
8. Aðalfundur og 25 ára afmæli Landssambands kúabænda. Þann 4. apríl 2011 verða 25 ár liðin frá stofnun Landssambands kúabænda. Rætt hvort og hvernig eigi að minnast þeirra tímamóta. Samkvæmt nýjum samþykktum LK verður fulltrúafjöldi 42, sem eru fleiri fulltrúar en verið hafa. Vangaveltur um hvort hækka eigi deilitölu vegna fulltrúafjölda. Kynna þarf tillögur um breytingar á samþykktum fyrir 10. mars n.k. Búgreinaráð BSE í nautgriparækt, sem lagt hefur verið niður, er ennþá aðili að LK samkvæmt samþykktum. Tillaga til samþykktabreytinga verði lögð fyrir aðalfund þess efnis að Félag eyfirskra kúabænda taki við af Búgreinaráði BSE sem aðildarfélag að LK. Rætt um hvernig auka megi fjölmiðlaumfjöllun um afmæli samtakanna og aðalfund þeirra.
9. Nýting búnaðargjalds – erindi endurskoðunarnefndar BÍ. Formaður reifaði málið. BÍ hafa sent bréf þar sem óskað er eftir nánari útlistun á ráðstöfun fjármunanna. Verður svarað á næstu dögum.
10. Önnur mál.
a. Gæðamál mjólkur. Samkvæmt samantekt Bssl er meðaltal líftölu mjaltaþjónabúa á Suðurlandi 2010 46 þús en meðaltal búa með hefðbundnar mjaltir 28 þús. Ljóst að alltof margir framleiðendur eru að ná óviðunandi árangri í þessum efnum Ákveðið að ræða við Auðhumlu um málið.
b. Sæðingamál. Tillaga BÍ um skiptingu fjármuna vegna sæðinga milli Búnaðarsambandanna rædd. Tillaga LK frá aðalfundi 2010 þótti ganga of skammt til að tryggja sæðingastarfsemina á dreifbýlustu svæðunum og því hefur BÍ mótað nýjar tillögur í þeim efnum. Stjórn LK telur ekki eðlilegt að ganga lengra í þessum efnum en aðalfundur ályktaði án þess að skilgreint verði betur hvað séu erfið svæði Framkvæmdastjórar LK og BÍ vinni áfram að lausn málsins.
c. Tryggingamál. Gripatjónstryggingar. Halli er á gripatjónum til kúabænda í Bjargráðasjóði og nauðsynlegt að gera breytingar á bótareglum og eigin áhættu vegna þess. Framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu í samstarfi við Auðhumlu.
d. Eldvarnir í útihúsum. Í framhaldi af haustfundi LK í Ásbyrgi er velt upp hugmynd, sem þar kom fram, um hvort gera ætti tilboð í brunaviðvörunarkerfi í fjós. Málið rætt stuttlega.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.55.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda