Stjórnarfundir – 8. 2010-2011
16.12.2010
Fundargerð stjórnar LK 16. desember 2010. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Bjarni Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Jóhann Nikulásson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Gestur undir lið 2, 3 og 4 var Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 10.55.
1. Fundargerð síðasta fundar. Samþykkt með lítils háttar breytingum. Verður birt á naut.is að loknum fundi.
2. Staða ESB umsóknar. Eiríkur Blöndal fór yfir stöðuna. Rýnifundur um landbúnaðarstefnu ESB var haldinn í byrjun desember. Rýnifundir um landbúnaðarstefnu Íslands munu síðan fara fram í Brussel í lok janúar. BÍ tók ekki beinan þátt í þessum fundum, enda er verkefnið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda, ekki samtaka bænda. BÍ hefur mótmælt harðlega fullyrðingum aðalsamningamanns Íslands í Fréttablaðinu, um að frávera BÍ skaði samningshagsmuni Íslands. Óskað hefur verið eftir liðsinni samtakanna við að svara hluta af spurningalistum sem lagðir verða fram á síðari rýnifundinum í Brussel í lok janúar. Munu BÍ sinna því verkefni, þar sem starfsmenn þeirra hafa sérþekkingu á málaflokknum. Vinna við ESB-umsóknina hefur nú þegar útheimt mikla vinnu á sama tíma og fjármunir eru af skornum skammti. Nauðsynlegt er að láta bændum í té meira ítarefni varðandi alla þætti sem að málinu snúa.
Talsvert var rætt um framhald aðildarferlisins. Þegar rýnivinnunni lýkur í byrjun næsta árs verður aðildarferlið komið á nýtt stig, þó skilin séu engu að síður mjög óljós. Afar mikilvægt er að fagráðuneyti greinarinnar komi sér upp viðeigandi og öflugri þekkingu á málinu. Rætt um hlutverk og framtíð landbúnaðarhópsins, en starfsmaður LK hefur átt sæti í honum sem fulltrúi BÍ. Mikilvægt er að málið fái ítarlega umfjöllun á komandi Búnaðarþingi.
3. Framkvæmd á nýjum búnaðarlagasamningi. Eiríkur Blöndal kynnti samninginn. Fram kom að með auknum niðurskurði verði hlutdeild lífeyrissjóðsskuldbindinga stærri og meira íþyngjandi. Hætt verður að greiða framlög vegna búrekstraráætlana. Vinna þarf að frekari opnun á milli starfssvæða ráðgjafamiðstöðvanna og nauðsynlegt að BÍ hafi forgöngu um slíkt. Bændur þurfa að geta leitað eftir þeirri þjónustu sem hentar þar sem hún er best hverju sinni.
Framlög til héraðsþjónustu búnaðarsambandanna lækkar um 16-29%. Framlag til jöfnunar kostnaðar vegna fjarlægðar fellur niður og bitnar það harðast á minni og dreifbýlli búnaðarsamböndum. Skerðing í búfjárræktinni er 10%. Sæðingar -9%. Nautastöð BÍ -36%. Fer úr 8,8 milljónum 2010 niður í 5,6 m.kr. 2011. Þróunarverkefni skorin alveg niður, nema ræktunarsjóður (gras, korn, grænfóður), þar er niðurskurður 10%. Markaðsverkefni alveg skorin niður.
Erfitt er að gera áætlanir um heildarskil búnaðargjalds og lokauppgjör hvers árs er lengi að skila sér. Áætlað búnaðargjald 2010 var vanmetið um amk 25 milljónir, verður 345 milljónir í stað 320 milljóna. Áætluð innheimta fyrir árið 2011 er um 400 milljónir. Spurning hefur vaknað um hvernig háttað er innheimtu búnaðargjalds af heimasölu og heimavinnslu. Hækkandi búnaðargjald á undanförnum árum er að mestu leyti borið uppi af afurðaverðsleiðréttingum hjá kúabændum sem komu í kjölfar gríðarlegra hækkana á aðföngum. Það verður að hafa í huga þegar fjármunum er ráðstafað og rætt um notendagjöld.
Viðbrögð BÍ við samdrættinum eru að draga úr nýráðningum, auka sölu á ráðgjöf og síðan er spurning um árgjöld af forritum s.s. Huppu. Á síðasta ári var sótt um fjármuni í þróunarsjóð bæði til frekari þróunar forritsins og vegna árgjalda. Fagráð tók þá afstöðu á þeim tíma að ekki væri eðlilegt að greiða árgjald vegna Huppu af þróunarfé, en lagði til að greitt yrði sem því næmi hærri upphæð til þróunar á Huppunni. Það þarf að vera efnahagslegur hvati af því fyrir bændur að þeir skrái sjálfir sín skýrsluhaldsgögn. Margt bendir til að hlutfall kúabænda af greiddu búnaðargjaldi sé hærra en verðmæti þeirrar þjónustu sem þeir njóta.
Stjórn samþykkir svofellda bókun um málið: „Stjórn LK leggur ríka áherslu á að unnið verði áfram að þróun og styrkingu skýrsluhaldsforritsins Huppu. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja nægjanleg fjárframlög til rekstrar og viðhalds forritsins. Hinsvegar telur stjórnin ófært að farið verði í innheimtu notendagjalda vegna Huppunnar án þess að lagt verði mat á nýtingu búnaðargjalds greinarinnar til annarra þátta. Þá telur stjórnin að með gjaldtöku komist á óeðlilegt misræmi milli þeirra sem færa gögnin sjálfir inn í Huppuna og þeirra sem skila gögnum á pappír. Eins er sú hætta fyrir hendi að með gjaldtöku fækki notendum Huppunnar og fleiri fari að skila gögnum aftur á pappír, þannig muni aukast hætta á röngum skráningum og færri notendur beri uppi notendagjöld Huppunnar.“
Farið var ítarlega yfir framlög til sæðingastarfseminnar. Einhvers misskilnings virðist gæta við úrvinnslu tillögu sem unnin var af nefnd LK og BÍ og samþykkt var á síðasta aðalfundi LK vegna þessa. Þann misskilning þarf að leiðrétta.
Hætt er við að opinber framlög til ýmissa málaflokka í búnaðarlagasamningi séu horfin til frambúðar. Erfið staða getur komið upp varðandi t.d. upphreinsun stofnskurða falli framlögin að fullu niður. Rædd var staða á eignasölu vegna Nautastöðvar BÍ. Þegar er búið að selja uppeldishúsið í Þorleifskoti, heimild fyrir sölu Hvanneyrarstöðvarinnar er komin á fjárlög og íbúðarhúsið Fífusund á Hvanneyri er til sölu. Áhyggjuefni er ef samdráttur í framlögum til Nautastöðvarinnar muni koma fram í hækkuðu sæðisverði til bænda?
4. Skuldamál bænda. Rætt var um fram komin frumvörp vegna skuldaaðlögunar og útspil stjórnvalda frá í gær varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki, sem vert er að skoða. Fjöldi almennra úrlausna er í boði, en langflest mál bænda eru ennþá í biðstöðu. Mörg mál voru langt komin áður en gengisdómurinn féll í vor, en eftir það hefur lítið þokast einkum vegna óvissu hjá fjármögnunarfyrirtækjum. Ljóst er að verðmat á jörðum er einn stærsti óvissuþátturinn sem snýr að úrlausn þessara mála. Mikil vinna hefur verið lögð til vegna þessara mála og reikna verður með að svo verði áfram.
5. Framleiðsla, sala, verðlags- og afkomumál. Sala á próteingrunni eftir nóvembermánuð er um 115 milljónir lítra, sem er 0,63% samdráttur sl. 12 mánuði. Sala á fitugrunni er 111,4 milljónir lítra. Athygli vekur að frá 1. jan 2008 til og með ágúst 2010 er samdráttur í dagvörusölu sem nemur 9% sé tekið mið af veltu, en á sama tíma er aukning í sölu mjólkurafurða sem nemur um 2% í ferskvöru og 1% í birgðavöru. Ostar sækja mjög í sig veðrið einkum á kostnað iðnaðarmjólkur, enda eru upplýsingar frá Mjólku nú inni í gögnum SAM. Í þróun hefur verið ný gerð af kálfadufti þar sem mysuþykkni er nýtt til vinnslunnar. Prófanir sýna að þessi framleiðsla kemur vel út og mun verða talsvert ódýrara en eldri gerð.
Nautakjötssala heldur áfram að aukast, eða sem nemur 2,8% sl. 12 mánuði. Einn sláturleyfishafi hækkaði verð um 10 kr/kg í nóvember. Innflutningur jan.-okt. 2010 er um 100 tonn, sem er mjög svipað og á sama tíma í fyrra. Áhyggjuefni er að framboð á gripum verði ekki nægjanlegt á næstu misserum, þar sem eftirspurn er nokkuð meiri en framboðið.
Á fundi verðlagsnefndar búvöru 13. desember sl. var lagður fram nýr verðlagsgrundvöllur kúabús frá 1. des. 2010 og hann staðfestur. Sýnir hann hækkunarþörf frá 1. september 2008 upp á 9%. Ef litið er til 1. júní 2009 er hækkunarþörf frá þeim tíma 7,45%. Afar mikilvægt er að halda áfram að leiðrétta framlegðarskekkju. Ljóst að mjög þung undiralda er meðal bænda vegna þróunar í afkomunni og mikil umræða á kýrhausnum um kjaramál. Ýmislegt athyglisvert kemur fram í umræðum, m.a. að eðlilegt sé að verð fyrir umframmjólk ráðist af efnainnihaldi hennar. Ákveðið var að senda erindi til Auðhumlu vegna þessa.
6. Breytingar á búvörulögum. Ef ekki eiga að vera til staðar refsiákvæði vegna markaðssetningar mjólkur umfram greiðslumark á innanlandsmarkaði, verður nauðsynlegt að ganga hart fram í að leiðrétta og vinda ofan af framlegðarskekkjunni á næstu mánuðum. Ekki verður enn sem komið er séð að Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hyggist fylgja málinu frekar eftir, en núverandi staða er algerlega ómöguleg
7. Búnaðarþing 2011. Verður sett 6. mars n.k. Rætt um að leggja fram tillögu um endurskoðun á skrifstofuaðstöðu BÍ. Skoðað verði hvort hægt sé að bæta rekstur hótelsins með því að taka 3. hæðina alla undir hótelrekstur í ljósi spár um aukningu í ferðaþjónustu. Skila þarf tillögum fyrir 20. janúar n.k.
8. Aðalfundur LK 2011. Verður haldinn 25. og 26. mars á Hótel KEA á Akureyri. Boða þarf aðalfund fyrir 10. janúar. Æskilegt væri að fundargerðir aðildarfélaganna séu birtar á naut.is. Landssambandið er 25 ára 4. apríl 2011. Undirbúningur aðalfundar í eðlilegu fari. Framkvæmdastjóra falið að skipa árshátíðarnefnd af Norðausturlandi.
9. Stefnumörkun. Formaður kynnti drög að kaflaskiptingu stefnumörkunar. Næsta skref er að koma niðurstöðum hópsins í samfelldan texta og nauðsynlegt er að stjórn komi öll að því starfi. Taka þarf saman stöðumat greinarinnar í dag. Fyrir liggur greining á áhrifum á niðurfellingu tollverndar fyrir mjólkurframleiðsluna, í undirbúningi er verkefni sem snýr að bættri bústjórn og talsvert hefur verið rætt um skipulag kynbótastarfsins. Verið er að taka saman greinargerðir um rekstrarumhverfi framleiðslunnar í öðrum löndum (ESB, Noregi, Kanada) og áhrif breytinga núverandi fyrirkomulags á rekstrarumhverfi greinarinnar. Eins er von á greinargerð um fjármálaumhverfið á Nýja-Sjálandi og fleira. Stefnt er að því að leggja niðurstöður þessarar vinnu fyrir næsta aðalfund.
10. Kvótamarkaðurinn. Ekki verður annað sagt en fyrsti markaðurinn hafi gengið vel og sáralítið vantaði uppá að um helmingur framboðins kvóta skipti um eigendur. Eins lækkaði verð nokkuð miðað við síðustu viðskipti nú í vor, sé tekið mið af mismun á lengd framleiðsluára. Farið var yfir nokkur atriði sem lagfæra þarf í reglugerðinni um kvótamarkaðinn. Æskilegt er að fjölga markaðsdögum í þrjá, sem dæmi væri hægt að hafa þá 1. apríl og 15. ágúst. Markaðinn sem nú er gert ráð fyrir 1. desember væri æskilegt að færa til 1. nóvember, svo hægt sé að ganga frá öllum atriðum fyrir áramót. Eins þarf að fara yfir ábyrgðir, tímafresti og fleiri atriði gagnvart lánastofnunum og MAST.
Forsvarsmenn LK voru kallaðir fyrir efnahags- og skattanefnd þann 14. desember s.l. vegna frumvarps Fjármálaráðherra um breytingar á skattalögum, þar sem gert er ráð fyrir að felld verði niður heimild til að fyrna kaupverð greiðslumarks á 5 árum. Fyrir liggur að af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hefur engin tilraun verið gerð til að meta áhrif aðgerðarinnar, ekkert samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og óvissa er um hvort fyrna megi greiðslumark sem keypt var á markaði 1. desember sl. Þau rök eru m.a. færð fyrir málinu frá hendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að ekki sé þörf á jafn örum skipulagsbreytingum í landbúnaði og áður hafi verið talið. Að mati LK er nauðsynlegt að greina áhrifin af breytingunni, enda á engan hátt víst að hún leiði sjálfkrafa til þess að lækka framleiðslukostnað mjólkur og auðvelda nýliðun.
11. Endurskoðun búnaðargjalds. Formaður fór yfir vinnu nefndar um búnaðargjald. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur fallið frá því, a.m.k. að sinni, að fara fram með frumvarp til breytinga á lögum um búnaðargjald. Spurningin er sú hvaða áhrif það hefur á lagalega stöðu gjaldsins og möguleika okkar til að hafa áhrif á innheimtu þess og ráðstöfun. Í ljósi þess telur nefndin æskilegt að fá betri skilgreiningu á því til hvaða verkefna gjaldinu er varið hjá einstökum notendum.
12. Vinnuhópur um erfðabreytt matvæli. Guðný Helga hefur verið skipuð í vinnuhóp til að móta reglur varðandi erfðabreytt matvæli og hélt hópurinn fund sl. mánudag. Til greina kemur að þeir sem sýnt geta fram á að framleiðslan sé fullkomlega laus við erfðabreytt aðföng geti merkt sínar afurðir sérstaklega. Að öðru leyti verður reglum ekki breytt frá því sem nú er og þær verða því með líku sniði hér á landi og gerist í nágrannalöndunum.
13. Styrkumsókn samtakanna Beint frá býli. Málið var rætt lauslega. Nauðsynlegt er að hitta forsvarsmenn samtakanna og ræða stefnumörkun vegna þessarar framleiðslu. Eins þarf að fara yfir skýrsluskil heimavinnsluaðila nú við lok árs. Afgreiðslu málisins frestað að sinni.
14. Önnur mál.
a. Framkvæmdastjóri fer þess á leit við samtökin að þau greiði kostnað við nettengingu á heimili framkvæmdastjóra. Kostnaður nemur um 5-6 þús. kr á mánuði. Stjórn ákveður að samþykkja þá beiðni.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.15.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK