Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. 2010-2011

22.11.2010

Símafundur stjórnar Landssambands kúabænda, 22. nóvember 2010. Á línunni voru Sigurður Loftsson, Sigurgeir Bjarni Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Fundur settur kl. 21.00 og gengið til dagskrár.

 

1. Verkefni um betri bústjórn. Formaður reifaði málið, en í framhaldi af greiningu á rekstri kúabúa sem stefnumótunarhópurinn fékk Runólf Sigursveinsson og félaga á Búnaðarsambandi Suðurlands til að vinna upp úr gögnum frá Sunnubúunum, hefur komið upp sú hugmynd að leggja í frekari vinnu við greiningu á kostnaðarþáttum í rekstri og möguleikum til hagræðingar í greininni. Stefnt verði að samþættingu þeirra bústjórnarverkefna sem þegar eru unnin á héraðavísu, þannig að styrkja megi þann talnagrunn sem til staðar er. Verkefnið muni síðan í framhaldinu skapa grunn að markmiðssetningu til lækkunar framleiðslukostnaðar. Fenginn verði að stjórn verkefnisins aðili sem hafi haldgóða þekkingu á málinu. Þegar hefur verið leitað samstarfs við Bændasamtök Íslands um verkefnið og því vel tekið. Verkefnið yrði kostað með því að sækja um styrki í þróunarsjóð nautgriparæktarinnar auk annarra samstarfsaðila. Málið var rætt frá ýmsum hliðum og m.a. bent á að eftirfylgni verði að vera í lagi þannig að raunverulegur árangur náist. Fram kom það sjónarmið að árangur bústjórnarverkefnanna hafi ekki staðið að fullu undir væntingum og eftirfylgninni kunni að hafa verið ábótavant. Áhyggjuefni er ef leiðbeiningaþjónustan hefur ekki yfir meiri þekkingu að ráða en bestu bændurnir og því illa í stakk búin að styðja þá til frekari árangurs. Setja þarf verkefninu skýrt afmarkaðan tíma- og fjárhagsramma. Spurningin er hvaða viðmiðun eigi að leggja til grundvallar varðandi ákvörðun mjólkurverðs í framtíðinni? Bestu búin? Meðalbúið? Verðlagsgrundvöll? Í raun er enginn hörgull á hvata til hagræðingar í því umhverfi sem greinin hrærist í um þessar mundir. Stefnt er að því að kanna viðbrögð Fagráðs í nautgriparækt til verkefnisins á næsta fundi þess 1. desember n.k. og móta umsókn í framhaldi af því.

2. Fundargerðir stjórnar Landssambands kúabænda. Fundargerðir tveggja síðustu funda hafa verið afgreiddar af stjórn. Ákveðið að birta þær á naut.is.

3. Kýrhausinn. Rædd viðbrögð sem komið hafa fram á kýrhausnum um að þar séu óviðeigandi innlegg og ótengd greininni. Stjórn telur enga ástæðu til afskipta af þeim umræðum sem þar fara fram, svo lengi sem skrifað er undir nafni og velsæmis sé gætt.

4. Kvótamarkaður. Talsvert hringt í LK síðustu viku vegna kvótamarkaðar. Enn hefur ekki borist svar frá fjármálaráðuneytinu um það hvort fyrirhugað er að fella út heimildir til niðurfærslu kostnaðar vegna kaupa á greiðslumarki og veldur sú óvissa verulegum óþægindum fyrir þá sem hyggja á viðskipti.  Einhver munur virðist á útfærslu ábyrgða milli bankastofnana. Svo er að sjá að þeir aðilar sem þurfa á sértækum úrlausnum í lánamálum að halda fá ekki bankaábyrgð en þeir sem eru í þokkalegum málum fá hana. Nauðsynlegt er að fara ítarlega yfir reynsluna eftir þennan fyrsta markað og sníða af þá agnúa sem í ljós hafa komið. Ákveðið að hnykkja á skilafresti tilboða.

5. Samningahópur um landbúnaðarmál. Rædd staða umsóknarferilsins að ESB og aðkoma bænda að því.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22.45

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK