Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. 2010-2011

31.08.2010

Stjórnarfundur Landssambands kúabænda haldinn á skrifstofu LK þriðjudaginn 31. ágúst 2010. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Bjarni Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson skrifaði fundargerð. Guðni Ágústsson framkvæmdastjóri SAM var fundargestur undir lið 7.

Formaður setti fund kl. 10.50 og gekk til dagskrár.

1. Fundargerðir frá 2. fundi stjórnar 27. maí og 3. fundar, sem var símafundur 2. júlí, yfirfarnar og samþykktar.

2. Framleiðsla og sala. Sala á próteingrunni hefur gefið eftir undanfarna mánuði og er nú komin niður fyrir útgefið greiðslumark. Skýringin er væntanlega að júlí 2009 dettur nú út af 12 mánaða yfirliti, en sá sölumánuður var mjög hár vegna hömstrunar á mjólkurdufti. Líklegt er að salan muni ná jafnvægi á ný næstu mánuði.  Áframhaldandi ofhöld eru í fitu, en vænst er skýringa vegna þessa á næsta stjórnarfundi SAM. Lítilsháttar samdráttur í nautakjötinu í júlí, helgast væntanlega af heldur minna framboði en verið hefur, eftirspurn jöfn og stöðug. Innflutningur á nautakjöti heldur áfram að dragast saman.

3. Verðlagsmál mjólkur. Fundur er fyrirhugaður í verðlagsnefnd búvöru fimmtudaginn 2. september n.k. verði skipun nefndarinnar frágengin. Verðlagsgrundvöllur 1. júní sýnir hækkunarþörf upp á 9,2% og nauðsynlegt að hefja endurskoðun mjólkurverðs. Jafnframt er brýnt að halda áfram leiðréttingu á framlegðarskekkju drykkjarmjólkurinnar. Vangaveltur um aðra möguleika gagnvart hinu opinbera, varðandi hagræðingu heima á búunum?

4. Mjólkursamningur og aðgerðir í ríkisfjármálum.Við gerð fjárlaga fyrir komandi ár hafa komið fram hugmyndir um að skerða búvörusamninga enn frekar. eins er rætt að fella niður að fullu framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda, sem upphaflega komu til í því skyn að koma í veg fyrir verðlagshækkanir. Allt þetta leiðir til mikillar kjararýrnunar kúabænda að óbreyttu sem er ekki hægt að fallast á. Verði hinsvegar að þessum hugmyndum er útilokað annað en þeim verði mætt með verðhækkunum á markaði. Í framhaldi af þessu samþykkir stjórn svofellda ályktun: „Stjórn Landssambands kúabænd lýsir furðu sinni á hugmyndum um að ekki verði staðið að fullu við ákvæði búvörusamninga. Vorið 2009 voru búvörusamningar endurskoðaðir þar sem bændur gengust undir verulega skerðingu á framlögum til þeirra. Þær skerðingar til kúabænda einna, nema nú tæplega milljarði kr. Verði framangreindar hugmyndir að veruleika, eins og þær hafa verið kynntar, hækkar þessi skerðing um tæpan hálfan milljarð til viðbótar. Ef miðað er við upphaflega samninginn frá 2004, stefnir í að skerðingin árið 2011 nemi 12,5%. Þegar umræddar breytingar voru gerðar á samningunum, vorið 2009, var horft til erfiðrar stöðu þjóðarbúsins og lögðu bændur þar sitt af mörkum. Nú eru horfur í ríkisfjármálum hins vegar mun bjartari en þá leit út fyrir. Því með öllu óviðunandi að aftur verði höggvið í samningana, örfáum misserum síðar. Verði af þessum hugmyndum hafa bændur engan annan kost en að láta reyna á réttarstöðu sína gagnvart ríkisvaldinu.
Þessu til viðbótar hafa verið kynntar hugmyndir um 100% skerðingu á framlagi ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda. Verði þær að veruleika, eins og þær hafa verið kynntar, munu kjör kúabænda rýrna um talsvert á annað hundrað milljónir króna. Þessi framlög ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda voru upphaflega hugsaðar til að koma í veg fyrir hækkanir á búvöruverði til neytenda. Verði hinsvegar af fyrrgreindum skerðingum á framlögum ríkisins til greinarinnar, er óhjákvæmilegt að bændum verði bætt tekjutapið með leiðréttingu á mjólkurverði sem þýðir tilsvarandi hækkun út á markað.
Mjólkurverð til bænda hækkaði síðast í nóvember 2008. Frá þeim tíma hafa því bændur bæði borið allar hækkanir aðfanga vegna rekstar síns og tekið á sig fyrr greindar skerðingar á búvörusamningi. Verulega er farið að taka í rekstur margra kúabúa vegna þessa og ljóst er að ekki verður lengra gengið í þeim efnum“.

5. Reglugerð um greiðslumark mjólkur fyrir verðlagsári 2011. Miðað við sölutölur júlímánaðar næst ekki að auka greiðslumark næsta verðlagsárs. Línur hvað það varðar ættu að þó að skýrast þegar sölutölur septembermánaðar liggja fyrir. Fljótlega þarf svo að hefja undirbúning vegna reglugerðar um greiðslumark næsta árs og nauðsynlegt að hún verði tilbúin áður en haustfundir LK hefjast. Á aðalfundi 2010 var samþykkt svofelld ályktun um framkvæmd á mjólkursamningi: B- og C- greiðslum verði hagað þannig að þær stuðli að sem mestum jöfnuði milli framleiðslu og sölu á einstökum tímabilum. Skoðað verði sérstaklega hvort framkæmanlegt sé með góðu móti að taka upp mánaðaskiptingu þessara greiðslna. Reifaðar ýmsar útfærslur á þessu atriði. Stjórn þeirrar skoðunar að mánaðarskipting greiðslnanna sé ekki sérlega fýsilegur kostur, ef hún leiðir til þess að uppgjör verði verulega mikið flóknara en í dag. Framangreindar útfærslur verða einnig ræddar við BÍ.

6. Breytingar á búvörulögunum. Ljóst að málið fer ekki í gegnum Alþingi fyrir lok þessa þings. LK getur dregið þann lærdóm af málinu að undirbúa málsvörn samtakanna í málum af þessu tagi betur en gert hefur verið. Málið snýr fyrst og fremst að bændum, ekki mjólkuriðnaðinum. Ýtarlegar umræður urðu um málið.

7. Staða aðlögunarferils Íslands að ESB – samstarf LK og SAM. Ljóst er að ferill málsins er annar en reiknað var með í upphafi og stuðningur stjórnvalda við það óljós. Spurning er hvort forsenda sé fyrir áframhaldandi starfi verkefnahóps LK og SAM að svo komnu og nauðsinlegt að fá afstöðu stjórnar SAM til þess. Niðurstaða stjórnar LK er að verkefninu ljúki að sinni, en fylgjast þurfi vel með hverju fram vindur í aðlögunarviðræðum. Hvað sem öðru líður er útilokað annað en tekið verði mið af þróun þessara mála í vinnu stefnumörkunarhópsins. 

8. Stefnumörkun, staða og framhald málsins. Innan hópsins er nú unnið að skoðun á breyttu framleiðsluskipulagi greinarinnar, hvaða afleiðingar það hefði og hvaða breytingar þurfi að gera á stuðningskerfinu í framhaldi af því. Jafnframt er verið að greina hvaða möguleikar séu til lækkunará kostnaði með bústjórnarlegum aðgerðum. Til stendur að kynna þessar hugmyndir á haustfundum.

9. Kvótamarkaður. Sigurður, Guðný Helga og Baldur voru boðuð á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í gær um stöðu kvótamarkaðar. Þar kom fram að ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um að víkja frá ákvörðun ráðherra um að kvótamarkaður verði haldinn 1. desember n.k. Það er mat stjórnar LK að fullkomlega sé mögulegt að halda fyrsta markað 1. okt. sé vilji fyrir því og hvetur til að það  verði gert. Stjórn samþykkir svofellda bókun vegna þessa máls:

10. Endurskoðun búnaðargjalds. Upphaflega var nefndin skipuð, að tillögu Búnaðarþings, til að taka á innheimtu og ráðstöfun búnaðargjalds. Í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu felldi dóm 27. apríl um iðnaðarmálagjald breyttust hinsvegar forsendur þessarar vinnu talsvert. Nýlega bast BÍ erindi frá SLR þar sem beðið er um greinargerð varðandi ráðstöfun fjármunanna af búnaðargjaldi og stendur vilji ráðuneytisins til að styrkja og treysta lagastoð gjaldsins. Hefur nefndinni verið falið að vinna að þessu verkefni með stjórn BÍ. Nauðsynlegt verður að skilgreina ráðstöfun búnaðargjaldsins og óvíst að allir þeir verkefnaflokkar sem kostaðir hafa verið af því geti verið það áfram. Fari svo er því óásættanlegt annað en gjaldið lækki verulega.

11. Haustfundir LK 2010. Lögð fram tillaga að skipulagi haustfunda 2010. Framkvæmdastjóri hefur samband við aðildarfélögin varðandi staðsetningu fundanna.

12. Staða mála hjá kúabændum á áhrifasvæði Eyjafjallajökuls. Samskipti við Bjargráðasjóð hafa gengið hnökralítið, Vegagerðin og Landgræðslan hafa að mati bænda staðið sig heldur illa í sambandi við flóðavarnir, sem leiða mun til aukins kostnaðar á einhverjum  búum vegna fóðuröflunar á næsta ári. Gróðri hefur farið ótrúlega vel fram enda tíðarfar verið einstaklega gott. Ekki fyrirsjáanlegt á þessari stundu að neinn muni bregða búi vegna gossins, þó er einhver fækkun sauðfjár fyrirsjáanleg á svæðinu. Mjög stór verkefni framundan í sambandi við flóðavarnir einkum í kringum Svaðbælisá.  Inn á svæðið hafa verið keyptar 3.500 rúllur af heyi. Fyrstu niðurstöður athugana á áhrifum öskumengunar á gróffóður af svæðinu benda til að öskumengunin hafi ekki umtalsverð áhrif á verkun og lystugleika, þó er líklegt að einhvert misvægi geti verið í hlutfalli snefilefna. Ljóst að bændur á svæðinu eiga eftir að verða fyrir umtalsverðum kostnaði vegna bilana í tækjum sökum ösku, sem erfitt verður að færa sönnur á að eigi rætur að rekja til gossins.

13. Heimasíða LK. Unnið er að nýju útliti á heimasíðu LK sem kynnt var fyrir stjórn. Fleiri myndir og gæta að stærð, þannig að forsíða sjáist öll í einu. Innlendar/erlendar fréttir. Fleiri bloggsíður bænda. Stefnt að því opna nýju síðuna í byrjun október.

14. WCGALP. Framkvæmdastjóri sagði frá heimsráðstefnu um búfjárkynbætur, sem haldin var í Leipzig í Þýskalandi, 1.-6. ágúst sl. Umfjöllun um sk. úrval á grunni erfðamengis yfirgnæfði allt annað á ráðstefnunni. Ljóst að þessi misserin er að eiga sér stað meiri bylting í ræktun nautgripa en um getur sl. 75 ár.

15. Önnur mál.
a. Rætt um áreiðanleika skýrsluhaldsins. Óskað eftir umræðum í Fagráði í nautgriparækt um málið.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.55.

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.