Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. 2010-2011

02.07.2010

Símafundur stjórnar LK 2. júlí 2010. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna og var fundur settur kl. 10.05.

1. Viðbrögð við breytingu á reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki. Settur var á fót starfshópur á vegum ráðuneytis, LK, BÍ og MAST í júní 2010.  Þar var lagt upp með að fyrsti markaðsdagur kvótamarkaðar væri 15. september og unnið með þær hugmyndir. Á fundi í ráðuneytinu í gær kom síðan fram að ráðherra mun ekki fallast á að svo verði. Ráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir hversu mikil inngrip kvótamarkaðurinn er, sala á greiðslumarki verður einungis gerð að vandlega yfirlögðu ráði, stöðutaka verður ekki möguleg, ekki hægt að selja á hvaða verði sem er. Í starfi hópsins hefur einnig verið lögð áhersla á að fjölga markaðsdögum í þrjá, því hefur ekki verið hafnað og þeim möguleika haldið opnum að taka reglugerðina upp í lok þessa árs, eftir að fyrsti kvótamarkaður hefur verið haldinn. Formaður rakti drög að breytingum á reglugerðinni. Skerpt á ákvæðum um að reglugerðin eigi ekki við um eigendaskipti á bújörðum, að tilboð skuli hafa borist eigi síðar en 25. næsta mánaðar á undan markaðsdegi svo sannreyna megi tilboðin, ábyrgðaryfirlýsing fjármálafyrirtækis skuli fylgja tilboðum og að ef ekki næst fullt jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, þá skiptist magn hlutfallslega milli tilboðsgjafa. Í 54. grein búvörulaga kemur fram að ábúendur leigujarða hafi forkaupsrétt að greiðslumarki. Sett er inn ákvæði sem gefur þessum ábúendum 20 daga frest til að ganga inn í tilboðin á jafnvægisverði.  Framkvæmdastjóri rakti nokkur atriði í þessu sambandi. Ákvæði um að fyrsti markaðsdagur verði 15. september 2010 fellst ráðherra ekki á, þrátt fyrir að út frá því hafi verið gengið, eins og að framan hefur verið rakið. Rætt að gera könnun á því, hvað væntanleg viðskipti með greiðslumark hefðu orðið mikil á næstu mánuðum að óbreyttu. Ítarleg umræða varð um hversu snörp viðbrögð LK ættu að vera í stöðunni, en að lokum samþykkir stjórn Landssambands kúabænda samhljóða eftirfarandi ályktun vegna málsins:

 

„Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur gefið út breytingu á reglugerð nr. 430/2010 um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Frá setningu reglugerðarinnar þann 17. maí sl. hefur gætt verulegrar óánægju meðal kúabænda, vegna þess að með henni voru viðskipti með greiðslumark stöðvuð út yfirstandandi verðlagsár, sem lýkur 31. desember nk. Stöðvun viðskipta um svo langt skeið veldur nokkrum fjölda kúabænda verulegum búsifjum. Til þess að ráða bót á þessum annmörkum og öðrum sem á reglugerðinni voru, var settur á fót starfshópur á vegum ráðuneytisins og fulltrúum LK, BÍ og MAST núna í júnímánuði. Þar var m.a. lagt upp með að fyrsti markaðsdagur kvótamarkaðarins yrði 15. september nk. og byggði aðkoma LK að starfshópnum alfarið á þeirri forsendu. Með þeim breytingum á reglugerðinni sem nú hafa verið gefnar út, er ljóst að ráðherra hefur ekki fallist á að fyrsti markaðsdagur verði 15. september 2010, þrátt fyrir að út frá því hafi verið gengið í vinnu starfshópsins. Stjórn Landssambands kúabænda  lýsir furðu sinni á framgangi ráðherra í þessu máli og fær ekki séð hvaða sjónarmið eða hagsmunir ráða ákvörðun hans. Með þessu er hætt við að góð hugmynd að stórbættu skipulagi á viðskiptum með greiðslumark bíði verulegan hnekki, auk þess sem ákvörðun ráðherra veldur kúabændum fjárhagslegum skaða. Lýsir stjórn Landssambands kúabænda allri ábyrgð á hendur ráðherra í máli þessu“.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.35

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK