Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. 2010-2011

27.05.2010

Stjórnarfundur í Landssambandi kúabænda 27. maí 2010 í Búgarði á Akureyri. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Bjarni Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Þá sat fundinn Snorri Sigurðsson, staðgengill framkvæmdastjóra. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 10.15. Snorri boðinn velkominn til starfa. Gestur undir lið 4. var Þórólfur Sveinsson, verkefnisstjóri LK og SAM. Gestur undir lið 5. var Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búgarðs.

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð.

2. Reglugerð um kvótamarkað. Formaður fór yfir aðdraganda málsins og það sem gerst hefur síðan reglugerðin var sett. Lýsti furðu sinni á því að ráðherra hefur ekki séð sér fært að funda með LK út af þessu eða öðrum málum, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um slíkt. Fundur með ráðherra hefur þó nú verið boðaður n.k. miðvikudag, 2. júní. Jákvætt að reglugerðin tekur í öllum meginatriðum undir sjónarmið LK, hins vegar ber málið mjög brátt að. Vilji LK stendur til að fyrsti markaður verði haldinn mun fyrr, enda kemur bændum mjög illa að viðskipti skuli vera stöðvuð í svo langan tíma og eru þeir ósáttir við það, en alls ekki við hugmyndina sem slíka. Málið var einnig rætt á stjórnarfundi BÍ. Lögfræðingi samtakanna hefur verið falið að skoða hvort lögmætt sé að koma kvótamarkaðnum á einungis með útgáfu reglugerðar en ekki með breytingum búvörulögum. Skilningur LK var að breyta þyrfti lögum, en ástæðulaust sé annað en að treysta því að ákvörðun ráðuneytisins haldi. Eindreginn vilji fundarmanna er að reglugerðinni verði breytt á þann veg að fyrsta markaði verði flýtt til 15. september. Eins er spurning hvort setja eigi inn ákvæði um að vísað skuli frá frávikstilboðum meðan markaðurinn er að ná jafnvægi. Stjórn samþykkti eftirfarandi bókun vegna málsins:

 

„Stjórn LK lýsir ánægju sinni með að Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðherra hafi komið til móts við óskir aðalfundar Landssambands kúabænda varðandi uppsetningu á miðlægum markaði með greiðslumark í mjólk. Með tilkomu markaðarins hafa tengslin milli kaupenda og seljenda verða rofin, en það mun að öllum líkindum auka sýnileika og jafnræði í þessum viðskiptum. Jafnframt væntir stjórnin þess að tilkoma útreiknings á jafnvægisverði í þessum viðskiptum stuðli að eðlilegri verðmyndun en verið hefur. Stjórn LK telur þó ámælisvert að með setningu reglugerðar vegna markaðarins séu öll viðskipti með greiðslumark í mjólk á yfirstandandi verðlagsári stöðvuð. Ljóst er að nokkur hópur aðila hugsaði sér til hreyfings í þessum viðskiptum á seinni hluta verðlagsársins eins og heimilt var samkvæmt gildandi reglum.  Verði ekki heimilt að stunda greiðslumarksviðskipti fyrr en 1. desember getur það valdið þessum aðilum verulegum fjárhagslegum skaða, þar sem þau viðskipti gilda einungis vegna komandi verðlagsárs. Eins er sú hætta fyrir hendi að viðskiptabannið leiði til þess að of lítil mjólk berist til vinnslu á síðustu mánuðum ársins. Stjórnin leggur því þunga áherslu á að fyrsta uppboð kvótamarkaðarins verði ekki seinna en 15. september n.k. og telur því ekkert til fyrirstöðu hvað framkvæmdina varðar. Ákvörðun um slíkt þarf þó að liggja fyrir hið allra fyrsta. Stjórn LK bendir á að uppsetning kvótamarkaðarins mun hafa verulegar breytingar í för með sér í þessum viðskiptum og því brýnt að þar náist strax upp trúverðug viðskipti. Í ljósi þess er afar mikilvægt að allt það greiðslumark sem flyst milli lögbýla í þessum viðskiptum fari í gegn um markaðinn og að ekki verði um frekari ígrip að ræða. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins þar sem umrædd reglugerð var kynnt, er ítrekað vísað til ályktanna aðalfundar LK. Var þar bæði um að ræða ályktun fundarins varðandi uppsetningu kvótamarkaðarins, sem og lítinn hluta annarar sem snéri að öðru máli. Það vekur undrun stjórnar að ráðuneytið skuli vitna í ályktanir aðalfundar samtakanna án þess að forsvarmenn þeirra hafi fengið tækifæri til að kynna ráðherra hvað að baki þeim liggur, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Stjórn LK leggur ríka áherslu á að eiga gott samstarf við ráðuneytið um þetta mál í framhaldinu sem og önnur þau mál er greinina varðar.“

3. Staða verðlagsmála, framleiðslu og sölu. Verðlagsnefndarfundur var haldinn í byrjun maímánaðar. Þar var farið yfir stöðu verðlagsgrundvallar frá 1. mars sl. Í honum hafði vélaliður verið endurskoðaður til samræmis við breytingar í kjölfar bankahrunsins. Þessi breyting kemur fram annars vegar í afskriftaliðnum, sem hækkar um 19% og vaxtaliðnum, sem þó lækkar um 29%, vegna almennrar lækkunar á verðtryggðum vöxtum. Hækkun kostnaðar í verðlagsgrundvelli er 9,1% og ef afurðastöðvaverð er hækkað hlutfallslega eftir því eru það 6,46 kr/ltr. Ef mjólkursamningurinn hefði staðið óbreyttur hefði hækkunarþörfin verið 5,35 kr/ltr. Minnt á bókun verðlagsnefndar um leiðréttingu framlegðarskekkju frá því í júlí 2009. Sala á nautakjöti gengur áfram vel en afkoman af framleiðslunni heldur áfram að versna. Framleiðsluferillinn er mjög langur í nautakjötsframleiðslunni, langvarandi taprekstur mun leiða af sér minnkandi ásetning nautkálfa.

4. Áfangaskýrsla LK og SAM um umsókn Íslands um aðild að ESB. Verkefnið þrískipt: 1. Að fylgjast með verkefninu í heild sinni og almennt. 2. Hvað myndi gerast á markaði ef verndartollar féllu niður. 3. Skýrsla frá 2003 verði uppreiknuð; að íslensk bú yrðu sett inn í finnskt umhverfi, væntanlega mun SLR fara í það verkefni. Ekkert komið fram sem hrekur þá spá sem sett var fram í umsögn LK og SAM um þingsályktunartillögu um umsókn Íslands um aðild að ESB í júní 2009. Þar kemur fram að markaðshlutdeild íslenskra mjólkurafurða muni minnka við inngöngu um 25-50%. Nauðsynlegt er að vinna aðgerðaáætlun svo fyrir liggi með hvaða hætti á að bregðast við þessum aðstæðum. Atburðarásin verður mjög hröð ef til óhefts innflutnings kemur. Tollvernd er óhjákvæmilegur hluti af grundvallar starfsskilyrðum greinarinnar í heild sinni, frumframleiðslu og vinnslu. Hremmingarnar sem ESB er að ganga í gegnum núna mun hafa mikil áhrif á t.d. stuðning við landbúnað og byggðamál, frá því sem nú er. Talsverðar umræður voru um verkefnið og stöðu þess. Mat verkefnisstjóra að nú sé komið að ákveðnum skilum í störfum hópsins, nú sé ekki tilefni til frekari vinnu, þar til að aðlögunarviðræður fara af stað, ef það þá gerist.

5. Skuldamál kúabænda og fundir með lánastofnunum.  Föstudaginn 21. maí áttu Sigurður, Jóhann og Baldur fundi með Arion banka og Landsbankanum um skuldamál kúabænda. Ljóst að ekki verður fallið frá biðlánunum. Mat á jarðavirði er enn hátt, til þess að halda skuldum á jörðunum. Arion banki er kominn lengst í að vinna að úrlausn mála, t.d. í útibúinu á Akureyri er búið að færa alla bændur úr erlendum lánum yfir í íslensk, sem er undanfari að sértæku skuldaaðlöguninni og skilyrði fyrir henni. Þar er einn kominn alla leið. Landsbankinn kominn mun styttra á veg, eru í gagnaöflun og yfirferð rekstraráætlana. LK voru sendar tillögur bankaráðs Landsbankans frá 20. maí 2010 um aðgerðir vegna skuldugra bænda.

6. Heimasíða LK. Endurskoðun á heimasíðunni naut.is stendur nú yfir. Talsverðar umræður um fyrir hvað síðan á að standa og hverju á hún að miðla. Tillaga um að stjórnarmenn skrifi leiðara, einu sinni til tvisvar í mánuði, um hvaðeina sem snýr að greininni. Álit á fréttum koma ekki fram, áskrifendur að fréttum fái meldingu ef slíkt kemur fram. Framkvæmdastjóri hefur átt fund með Nepal um málið og eru þeir að vinna að tilboðsgerð í verkefnið. Stefnt að því að koma fram með nýtt útlit á naut.is fyrir haustfundi 2010.

7. Aðbúnaðarreglugerð. Settur hefur verið á fót starfshópur sem hefur það hlutverk að endurskoða aðbúnaðarreglugerð og hefur hann þegar hafið störf. Þessa dagana einbeitir hópurinn sér að ákvæðum um útivist nautgripa. Hópinn skipa Sigurborg Daðadóttir, dýralæknir hjá MAST, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, LK, Snorri Sigurðsson, Lbhí og Unnsteinn Snorri Snorrason, BÍ. Rætt er hvort eðlilegt sé að veitt verði undanþága frá útivistarákvæði ef fjósin uppfylla strangar kröfur um rými, aðbúnað og dýravelferð, sem metnar eru af óháðum fagaðila. Verður ekki gerð krafa um beit.

8. Tryggingamál kúabænda – samstarfshópur LK og Auðhumlu. Frá Auðhumlu hafa Erlingur Teitsson og Birna Þorsteinsdóttir þegar verið skipuð í hann. Samþykkt var að skipa Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson í hópinn fyrir hönd LK. Haldið verði áfram því starfi sem framkvæmdastjóri og núverandi formaður stóðu að í samstarfi við Sjóvá um gripatryggingar og fleira.

9. Markaðstorg fyrir nautgripi. Til þessa hafa kvóti og kýr tíðum verið seldar saman í einum pakka. Spurning hvort þörf er á vettvangi fyrir verslun með lífgripi þegar kvótamarkaður verður kominn á? Einnig þörf á að skilgreina hvaðan má flytja og hvaðan ekki. Stjórn telur rétt að unnið verði í málinu.

10. Vettvangsferð undir Eyjafjöll. Sigurður, Jóhann og Baldur fóru í vettvangsferð á gossvæðið undir Eyjafjöllum á fimmtudaginn í sl. viku. Komu á Raufarfell, Önundarhorn og á Skógasand. Hæpið er að á svæðinu verði stundaður heyskapur til nytja í sumar og jafnvel næstu sumur. Áfok af ösku getur skapað vandamál víðar næstu misseri, jafnvel þótt að öskufall sé hætt. Hvaða áhrif getur það haft og hvernig eiga bændur að snúa sér í þeim málum?

 
11. Stefnumörkunarhópur LK og Auðhumlu. Daði Már er að vinna að samantekt á kostnaðarliðum í búrekstrinum, bæði föstum og breytilegum kostnaðarliðum. Tiltölulega auðvelt að lækka breytilegan kostnað um 10-15%. Búið að taka saman talsvert af gögnum hjá Auðhumlu en lítið komið á prent enn sem komið er. Stefnt að ýtarlegri umfjöllun um málið á næsta stjórnarfundi. Markmið stefnumörkunar er að benda á leiðir að því markmiði að lækka framleiðslukostnaði um 35% á næstu 10 árum. Síðan er það greinarinnar að taka afstöðu til þeirra.

12. Önnur mál.
a. Skipuð hefur verið nefnd um endurskoðun búnaðargjalds. Sigurður Loftsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson frá búgreinafélögum, Einar Ófeigur Björnsson og Árni Brynjólfsson frá búnaðarsamböndum, Sveinn Sæland formaður.
b. Vinnustaðaskírteini.
c. Erindi frá DÍ um geldingar leikmanna á hrútum og kálfum.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK