Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2010-2011

15.04.2010

Fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda haldinn í húsakynnum Matvælastofnunar á Selfossi, 15. apríl 2010.

 

Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson.

 

Fundur hófst á kynningu Sigurborgar Daðadóttur, gæðastjóra MAST og Katrínar Helgu Andrésdóttur, héraðsdýralæknis á handbók um fjósaskoðun og eftirlit með framleiðslu nautgripaafurða. Einnig var gestur fundarins Steinþór Arnarson lögfræðingur MAST.

 

Gestir undir lið 3 voru Halldór Runólfsson, Auður Lilja Arnþórsdóttir, Katrín Helga Andrésdóttir, Guðbjörg Jónsdóttir og Sveinn Sigurmundsson.

 

Formaður setti fund kl. 13.45 og gekk til dagskrár.

 

1. Kosningar. Varaformaður: Sigurgeir Hreinsson kjörinn með fjórum atkvæðum, einn seðill auður. Ritari: Guðný Helga Björnsdóttir kjörin með fjórum atkvæðum, Jóhann Nikulásson fékk eitt. Verðlagsnefnd: tillaga að aðalmanni er Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson til vara. Samþykkt. Samstarfsnefnd SAM og BÍ: Tillaga um aðalmann Jóhann Nikulásson, Sveinbjörn Þór Sigurðsson til vara. Samþykkt. Tilnefning þriggja aðila í fagráð í nautgriparækt til næstu þriggja ára. Hugmyndin að taka vinnuhóp fagráðs um ræktunarmál inn í fagráðið sjálft. Tillaga að skipan eftirtaldra aðila: Þórarinn Leifsson, Sigurgeir Hreinsson og Sigurð Loftsson. Samþykkt. Beiðni Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um skipan í starfshóp um endurskoðun reglugerðar  nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra. Tillaga gerð um Guðnýju H. Björnsdóttur. Samþykkt.

 

2. Aðalfundur 2010. Framkvæmd fundarins gekk almennt mjög vel. Afar gott að hafa skrifstofustjóra og markvisst unnið í því að koma fundinum á framfæri. Athugasemdir komu hinsvegar fram vegna þess að ekki birtust  viðtöl við forsvarsmenn LK í tengslum við fundinn á ljósvakamiðlum. Full ástæða er til að taka það til skoðunar. Aftur á móti var samkeppnin við eldgosið á Fimmvörðuhálsi þessa daga erfið gagnvart fjölmiðlum.

3. Eldgos í Eyjafjallajökli. LK mun þurfa að fylgja eftir hagsmunum þeirra bænda sem nú þegar hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni vegna gossins. Skoða þarf hvaða möguleikar eru til staðar í þeim efnum? Tryggja verður möguleika þeirra bænda sem orðið hafa fyrir tjóni að halda búrekstri áfram. Ræða við Viðlagatryggingu Íslands. Huga að áfallahjálp. Verið er að efnagreina öskuna og gætu niðurstöður legið fyrir fljótlega. Taka þarf alla gripi inn sem hægt er, annars að tryggja fóðrun og brynningu gripa sem ganga úti eftir fremsta megni. Spurning hver áhrif á heyfeng verða næstkomandi sumars? Huga þarf að mengunarhætta í vatnsbólum. Skilvirkast væri að koma á aðgerðahópi frá BÍ eða SLR sem myndi kalla til þá aðila sem nauðsynlegt er. Búið er að tryggja dýralæknaþjónustu á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir áföllum vegna þessa. Yfirdýralæknir mun hafa samband við ráðuneytisstjóra SLR, forsvarsmenn Bssl. munu ræða við BÍ. Huga þarf að birgðastöðu mjólkurafurða. spurning hvort rekstrarstöðvunartrygging Auðhumlu og Sjóvár gildi í tilfellum sem þessum?

 

4. Aðalfundur LK 2011. Stefnt er að því að næsti aðalfundur LK verði haldinn á Hótel KEA á Akureyri 25. og 26. mars 2011. Landssamband kúabænda verður 25 ára á næsta ári. Ákveðið var að kanna möguleika á hátíðahöldum af því tilefni í samstarfi við heimamenn, hugsanlegt að halda fund á fimmtudegi og föstudegi, síðan árshátíð á laugardegi líkt og á 20 ára afmælinu.

5. Samþykktir LK. Ákveðið var að senda erindi til aðildarfélaga varðandi samþykktirnar með tilmælum um að þau aðlagi sínar samþykktir tímanlega fyrir næsta aðalfund LK. Óskað verður eftir að LK fái sent afrit af nýjum samþykktum aðildarfélaganna. Farið verði yfir samþykktir LK eins og þær hljóða nú á haustfundum 2010.

 

6. Úrvinnsla ályktana aðalfundar LK 2010.

a. Ályktun um skuldamál kúabænda og úrlausn þeirra. Sent til SLR, BÍ og þeirra lánastofnana sem máli skipta. Jafnframt farið yfir fund sem haldinn var á Hvolsvelli, þar sem m.a. komu fulltrúar frá samtökum lánþega.
b. Ályktun um samstarf LK, BÍ, búnaðarsambanda og annarra aðila um samstarf varðandi skuldamál bænda. Senda til BÍ, búnaðarsambanda og SLR.
c. Tillaga um verðlagsmál. Senda til fulltrúa bænda í verðlagsnefnd og á SAM. Vinna áfram að leiðréttingu á framlegðarskekkju drykkjarmjólkurinnar.
d. Tillaga um dýralæknamál. Verði sent til SLR og MAST.
e. Tillaga um stefnumörkun. Er veganesti stefnumörkunarhóps LK og Auðhumlu svf. Næsti fundur stefnumörkunarhópsins verður í síðustu viku aprílmánaðar. Stefnt að því að ljúka málinu fyrir haustfundina. Staða málsins verði einnig kynnt fyrir ráðherra málaflokksins við fyrsta tækifæri.
f. Ályktun um kynbætur nautgripa – úrval á grunni erfðamengis. Verði sent til fagráðs, BÍ, stefnumörkunarhópsins og kynnt fyrir ráðherra málaflokksins.
g. Tillaga um útflutningsmál. Verði sent til Auðhumlu svf. og SAM.
h. Tillaga um kvótamarkað. Úrvinnsla þess er komin í fullan gang. Ráðuneytið sendi sl. föstudag frumvarpsdrög til BÍ. Viðbrögð við því hafa verið send til baka til ráðuneytisins. Formaður og framkvæmdastjóri, ásamt fulltrúum BÍ og LS áttu fróðlegan fund með Reiknistofu Fiskmarkaða í gær um tilboðsmarkað á fiski. Fulltrúar Mælkeudvalget hafa boðist til að halda kynningu á danska kvótamarkaðnum 27. apríl n.k.
i. Tillaga um sæðingamál. Framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir sem fyrst.
j.  Tillaga um Evrópumál. Send til BÍ og SAM, ásamt stefnumörkunarhópnum.
k. Tillaga varðandi tilhögun B- og C-greiðslna. Er stefnumarkandi fyrir stjórn LK.
l. Ályktun um Búnaðargjald. BÍ mun væntanlega óska eftir tilnefningum í hópinn.
m. Ályktun um tryggingamál. Ræða við Auðhumlu um samstarf vegna tryggingamála. Skoða hvort vilji er til að setja í málið aðila úr sitt hvorri stjórinnin, LK og Auðhumlu svf.
n. Ályktun um breytingar á búvörulögum. Senda til ráðherra landbúnaðarmála.
o. Ályktun um andstöðu við sameiningu ráðuneyta. Senda til forsætisráðherra og ráðherra landbúnaðarmála.
p. Búnaðarlagasamningur. Senda til fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra.
q. Ályktun um nautakjötsmál. Senda til ráðherra landbúnaðarmála.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.25.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda