Beint í efni

Stjórnarfundir, 10. 2016 – 2017

22.09.2016

Tíundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda, starfsárið 2016-2017 er boðaður fimmtudaginn 22. september 2016 kl. 10.00 á skrifstofu samtakanna í Bændahöllinni að Hagatorgi 1, 107 Reykjavík.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, varaformaður, Samúel U. Eyjólfsson, Bessi Freyr Vésteinsson og Elín Heiða Valsdóttir. Fundur undir lið 1 með Bjarna Ragnari Brynjólfssyni og lið 6 með Sigurði Eyþórssyni. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og var því næst gengið til dagskrár.

Þetta var rætt.

1. Staða innvigtunar, sölu og birgða

Skrifstofustjóri SAM fór yfir stöðu og horfur í sölu- og birgðamálum mjólkur. Miðað við núverandi stöðu eru líkur á að framleiðsla mjólkur fari í 152 milljónir lítra á þessu ári. Þó hefur það áhrif að við erum með 53. vikur á þessu ári og því hærri innvigtun mælt á vikugrunni. Söluhorfur eru uppá við, innanlandsneysla eykst og ferðamönnum fjölgar. Sala á fitugrunni síðustu 12 mánuði er 136,1 m. lítra og farið að herða á söluaukningu sem mældist 3,24% á 12 mánaða tíma, endum líklega í um 3%. Líklegt má telja að salan fari uppí 137 m. lítra í ár og 141 m. lítra á næsta ári.

Framleiðslan í ár stefnir því 12-15 m. lítra yfir innanlandssölu. Birgðastaðan hefur lést nokkuð og liggur hún helst í umframframleiðslunni sem ætluð er til útflutnings. Búið er að fella úr lögum að gefa þurfi út greiðslumark 3 mánuðum fyrir áramót og ákvörðunin er komin undir MAST. Miklar umræður um stöðu framleiðslumála og þróun innan greinarinnar.

Stjórn LK leggur áherslu á að mikilvægt sé að fá uppgefið verð næsta árs á umframmjólk fyrir kvótamarkað í nóvember og tillaga um greiðslumark verði komin fyrir áramót.

2. Afgreiðsla fundargerða 7., 8. og 9. fundar stjórnar LK starfsárið 2016-2017

Stjórnarmenn rituðu undir fundargerðir síðustu funda, sem voru samþykktar í gegnum tölvupóst og birtar á vef sambandsins 5.8. og 24.8. Fundargerð 9. fundar birtist á vef sambandsins að fundi loknum.

3. Styrkbeiðni, Sumarilmur

Stjórn samþykkir að veita átaksverkefninu “Sumarilmur”, sem hefur verið í gangi undanfarna mánuði, styrk að upphæð 500.000 kr

4. Styrkbeiðni, Frumuxinn

Framkvæmdastjóri kynnti málið fyrir stjórn. Stjórn felur framkvæmdastjóra að hafa samband við forsvarsmann verkefnisins og veita styrk í formi upplýsingaöflunar og aðstoðar við kynningu á verkefninu.

5. Sýrufall í kjöti

Samtökunum barst erindi þar sem vakin var athygli á sýrufalli í kjöti. Afurðastöðvar eru að fá of mikið af rýrum gripum til innleggs og of mikið af gripum sem eru gæðalega gallaðir vegna þess að fóðrun er ábótavant og þeir sýrufalla. Slíkt leiðir til galla sem kallaður er DFD („dark firm dry“). Minnka má mikið líkur á þessum galla með góðri fóðrun í lok eldistímans. SS hefur óskað eftir samstarfi við Landssamband kúabænda um fræðslu og aðgerðir til að bæta úr. Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.

6. Útfærslur á búvörusamningi

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ, fór yfir stöðu á vinnu við reglugerðir búvörusamninga. Landssamband kúabænda mun fá reglugerðir til umsagna í októbermánuði.

7. Haustfundir LK

Framkvæmdastjóri fór yfirdagsetningar haustfunda, sem verða að þessu sinni haldnir í nóvembersökum þingkosninga í október.Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.

8. Skýrsla frá framkvæmdastjóra: “Af hverju á ég að vera meðlimur í Landssambandi kúabænda?“

Framkvæmdastjóri kynnti niðurstöður vinnuskýrslu til stjórnar þar sem var m.a. farið yfir nýja nálgun í kynningarmálum. Miklar umræður um ímyndarmál og upplýsingagjöf. Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.

9. Önnur mál

a. Fundur með tollstjóra

Stjórn felur framkvæmdastjóra að sitja fund með tollstjóra um sérstaka úttekt á tollafgreiðslu á landbúnaðarafurðum.

b. Áskorun til Auðhumlu

Um að birta verð fyrir næsta ár á mjólkurltr. umfram kvóta. Stjórn felur framkvæmdastjóra að senda áskorun til Auðhumlu um að birta verð á umframmjólk.

c. Erfðabreytt fóður

Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri LS, kynnti fyrir stjórn þá vinnu sem samtökin réðust í um að banna erfðabreytt fóður í sauðfjárrækt.

 

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 17.30

Margrét Gísladóttir,

framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda