Stjórnarformaður Arla stendur í stórræðum!
21.05.2012
Åke Hantoft, stjórnarformaður Arla, hefur til þessa verið með 220 kúa bú í Svíþjóð en stendur nú í stórræðum. Eftir langar viðræður við þarlenda banka hefur nú verið gengið frá samkomulagi um fjármögnun stækkunar upp í 700 kúa bú á jörð Åke. Þetta eru etv. ekki mikil tíðindi í sjálfum sér, en sýnir þó vel hvaða trú kúabændurnir innan Arla hafa á framtíðinni.
Í viðtali í sænskum fjölmiðli sagði Åke að bankarnir væru nú loks að taka almennilega við sér á ný eftir efnahagshrunið og færu klárlega afar varlega til að byrja með. Bankarnir taka þó skrefið með bændunum og byggir fjármögnunin í dag á mun skynsamari nálgun en áður, enda stór hluti ”veðsins” í rekstrinum sjálfum og ekki bara í landi eða öðru föstu fjármagni.
Í ljósi nýlegra tíðinda af þróun mjólkurverðs á heimsmarkaðinum er þó af þessum fregnum ljóst að fjármálageirinn hefur trú á því mjólkurverði sem nú er að jafnaði í gangi og er tilbúinn að lána fjármagn á ný til framkvæmda. Framkvæmdir við bú Åke hefjast síðar á árinu en ráðgert er að hefja mjólkurframleiðslu í nýju fjósi á næsta ári. Í fyrstu verður búið stækkað í 500 kýr, en síðar svo í 700/SS.