Beint í efni

Stjórn LK mótmælir harðlega enn frekari skerðingu á búvörusamningum

04.09.2010

Stjórn Landssambands kúabænda hefur samþykkt eftirfarandi ályktanir:

 

1. Búvörusamningar. „Stjórn Landssambands kúabænd lýsir furðu sinni á hugmyndum um að ekki verði staðið að fullu við ákvæði búvörusamninga. Vorið 2009 voru búvörusamningar endurskoðaðir þar sem bændur gengust undir verulega skerðingu á framlögum til þeirra. Þær skerðingar til kúabænda einna, nema nú tæplega milljarði kr. Verði framangreindar hugmyndir að veruleika, eins og þær hafa verið kynntar, hækkar þessi skerðing um tæpan hálfan milljarð til viðbótar. Ef miðað er við upphaflega samninginn frá 2004, stefnir í að skerðingin árið 2011 nemi 12,5%. Þegar umræddar breytingar voru gerðar á samningunum, vorið 2009, var horft til erfiðrar stöðu þjóðarbúsins og lögðu bændur þar sitt af mörkum. Nú eru horfur í ríkisfjármálum hins vegar mun bjartari en þá leit út fyrir. Því með öllu óviðunandi að aftur verði höggvið í samningana, örfáum misserum síðar. Verði af þessum hugmyndum hafa bændur engan annan kost en að láta reyna á réttarstöðu sína gagnvart ríkisvaldinu.

Þessu til viðbótar hafa verið kynntar hugmyndir um 100% skerðingu á framlagi ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda. Verði þær að veruleika, eins og þær hafa verið kynntar, munu kjör kúabænda rýrna um talsvert á annað hundrað milljónir króna. Þessi framlög ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda voru upphaflega hugsaðar til að koma í veg fyrir hækkanir á búvöruverði til neytenda. Verði hinsvegar af fyrrgreindum skerðingum á framlögum ríkisins til greinarinnar, er óhjákvæmilegt að bændum verði bætt tekjutapið með leiðréttingu á mjólkurverði sem þýðir tilsvarandi hækkun út á markað.

 

Mjólkurverð til bænda hækkaði síðast í nóvember 2008. Frá þeim tíma hafa því bændur bæði borið allar hækkanir aðfanga vegna rekstar síns og tekið á sig fyrr greindar skerðingar á búvörusamningi. Verulega er farið að taka í rekstur margra kúabúa vegna þessa og ljóst er að ekki verður lengra gengið í þeim efnum“.


2. Kvótamarkaður. „Stjórn Landssambands kúabænda ítrekar fyrri ályktanir og bókanir um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki og leggur eindregið til að fyrsti tilboðsmarkaður verði haldinn eigi síðar en 1. október n.k.“

Bókun stjórnar LK frá 27. maí sl. er svohljóðandi:

 

„Stjórn LK lýsir ánægju sinni með að Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðherra hafi komið til móts við óskir aðalfundar Landssambands kúabænda varðandi uppsetningu á miðlægum markaði með greiðslumark í mjólk. Með tilkomu markaðarins hafa tengslin milli kaupenda og seljenda verða rofin, en það mun að öllum líkindum auka sýnileika og jafnræði í þessum viðskiptum. Jafnframt væntir stjórnin þess að tilkoma útreiknings á jafnvægisverði í þessum viðskiptum stuðli að eðlilegri verðmyndun en verið hefur. Stjórn LK telur þó ámælisvert að með setningu reglugerðar vegna markaðarins séu öll viðskipti með greiðslumark í mjólk á yfirstandandi verðlagsári stöðvuð. Ljóst er að nokkur hópur aðila hugsaði sér til hreyfings í þessum viðskiptum á seinni hluta verðlagsársins eins og heimilt var samkvæmt gildandi reglum.  Verði ekki heimilt að stunda greiðslumarksviðskipti fyrr en 1. desember getur það valdið þessum aðilum verulegum fjárhagslegum skaða, þar sem þau viðskipti gilda einungis vegna komandi verðlagsárs. Eins er sú hætta fyrir hendi að viðskiptabannið leiði til þess að of lítil mjólk berist til vinnslu á síðustu mánuðum ársins. Stjórnin leggur því þunga áherslu á að fyrsta uppboð kvótamarkaðarins verði ekki seinna en 15. september n.k. og telur því ekkert til fyrirstöðu hvað framkvæmdina varðar. Ákvörðun um slíkt þarf þó að liggja fyrir hið allra fyrsta. Stjórn LK bendir á að uppsetning kvótamarkaðarins mun hafa verulegar breytingar í för með sér í þessum viðskiptum og því brýnt að þar náist strax upp trúverðug viðskipti. Í ljósi þess er afar mikilvægt að allt það greiðslumark sem flyst milli lögbýla í þessum viðskiptum fari í gegn um markaðinn og að ekki verði um frekari ígrip að ræða. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins þar sem umrædd reglugerð var kynnt, er ítrekað vísað til ályktanna aðalfundar LK. Var þar bæði um að ræða ályktun fundarins varðandi uppsetningu kvótamarkaðarins, sem og lítinn hluta annarar sem snéri að öðru máli. Það vekur undrun stjórnar að ráðuneytið skuli vitna í ályktanir aðalfundar samtakanna án þess að forsvarmenn þeirra hafi fengið tækifæri til að kynna ráðherra hvað að baki þeim liggur, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Stjórn LK leggur ríka áherslu á að eiga gott samstarf við ráðuneytið um þetta mál í framhaldinu sem og önnur þau mál er greinina varðar.“

Ályktun stjórnar 2. júlí sl. er svohljóðandi:

 

„Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur gefið út breytingu á reglugerð nr. 430/2010 um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Frá setningu reglugerðarinnar þann 17. maí sl. hefur gætt verulegrar óánægju meðal kúabænda, vegna þess að með henni voru viðskipti með greiðslumark stöðvuð út yfirstandandi verðlagsár, sem lýkur 31. desember nk. Stöðvun viðskipta um svo langt skeið veldur nokkrum fjölda kúabænda verulegum búsifjum. Til þess að ráða bót á þessum annmörkum og öðrum sem á reglugerðinni voru, var settur á fót starfshópur á vegum ráðuneytisins og fulltrúum LK, BÍ og MAST núna í júnímánuði. Þar var m.a. lagt upp með að fyrsti markaðsdagur kvótamarkaðarins yrði 15. september nk. og byggði aðkoma LK að starfshópnum alfarið á þeirri forsendu. Með þeim breytingum á reglugerðinni sem nú hafa verið gefnar út, er ljóst að ráðherra hefur ekki fallist á að fyrsti markaðsdagur verði 15. september 2010, þrátt fyrir að út frá því hafi verið gengið í vinnu starfshópsins. Stjórn Landssambands kúabænda  lýsir furðu sinni á framgangi ráðherra í þessu máli og fær ekki séð hvaða sjónarmið eða hagsmunir ráða ákvörðun hans. Með þessu er hætt við að góð hugmynd að stórbættu skipulagi á viðskiptum með greiðslumark bíði verulegan hnekki, auk þess sem ákvörðun ráðherra veldur kúabændum fjárhagslegum skaða. Lýsir stjórn Landssambands kúabænda allri ábyrgð á hendur ráðherra í máli þessu“.