Stjórn Landssambands kúabænda fundar á Héraði 18. ágúst
17.08.2011
Þriðji stjórnarfundur Landssambands kúabænda á þessu starfsári verður haldinn á morgun, fimmtudaginn 18. ágúst á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Að venju verða fjölmörg mál tekin til umfjöllunar. Meðal þeirra helstu eru sölu- og markaðsmál nautgripaafurða, horfur á aðfangamörkuðum, væntingar um greiðslumark ársins 2012, staða verðlagsmála, skuldamál bænda, staða sjóðsstreymis og endurútreikninga lána, stefnumörkun, drög að nýrri aðbúnaðarreglugerð og drög að frumvarpi um velferð dýra. Þá verður farið yfir ábendingar og athugasemdir við drög að stefnumörkun Landssambands kúabænda 2021, sem aðalfundarfulltrúar hafa haft til umsagnar í sumar. Stefnt er að útgáfu stefnumörkunarinnar á næstu vikum. Þá verður farið yfir framgang ályktana frá síðasta aðalfundi, stöðu aðlögunarferilsins að Evrópusambandinu og drög að skipulagi haustfunda LK./BHB