Beint í efni

SÞ: tileinka samvinnufélögum árið 2012

09.01.2012

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa tilkynnt að árið 2012 verði tileinkað samvinnufélögum. Flestir þekkja vel hvernig hlutafélög eru rekin, þar sem markmiðið er að skila eigendum hlutabréfanna sem mestum arði. Kostir samvinnufélaga umfram hlutafélögin liggja hinsvegar í ábata eigandanna í hlutfalli við framlag þeirra, rétt eins og kúabændur hér landi þekkja vel. Nú hafa SÞ svo ákveðið að leggja áherslu á það á þessu ári að kynna þetta rekstrarform, sem hefur að margra mati mun fleiri kosti en hlutafélögin vegna tengslanna við framlag eigendanna sjálfra.

 

Vegna tengsla samvinnufélaga við eigendur sína, bæði félagslega og fjárhagslega, er það mat SÞ að leggja beri áherslu á að fjölga þessu rekstrarformi en í dag eru um 750 þúsund samvinnufélög til í heiminum. Hjá þessum félögum starfa um 100 milljón manns og eigendur þessara félaga telja um 800 milljónir manna í yfir 100 löndum. 300 stærstu samvinnufélögin velta sem nemur landsframleiðslu á við níunda stærsta hagkerfi heimsins.

 

Hægt er að skoða nánari upplýsingar um þetta áhugaverða átak SÞ á heimasíðu sem sett hefur verið á fót í tengslum við átakið: http://social.un.org/coopsyear/ SS.