Beint í efni

Stefnumótun LK 2018-2028 komin út

13.12.2018

Nú hefur stefnumótun Landssambands kúabænda í nautgriparækt til næstu 10 ára verið birt á naut.is.

Mynd: af fundi kjöthópsins

Var stefnumótunarvinnunni skipt í tvennt, annars vegar mjólkurframleiðslu og hins vegar nautakjötsframleiðslu. Vinnuhópar skiluðu af sér drögum til aðalfundar samtakanna sem haldinn var á Selfossi í apríl og voru drögin samþykkt þar athugasemdalaust. Í kjölfarið ákvað stjórn LK að kynna drögin á haustfundum samtakanna og gefa bændum kost á spurningum og tillögum að breytingum.

Nokkuð er um nýjungar í stefnumótun nautakjötsframleiðslunnar sem endurspeglar þá auknu áherslu sem hefur verið lögð á þá framleiðslu undanfarið. Með tilkomu nýs kjötmats, sérstakra greiðslna í gegnum búvörusamninga og nýs erfðaefnis af holdanautakyni má segja að við séum að upplifa nýja dögun í íslenskri nautakjötsframleiðslu. Á sama tíma eru ákveðnar áskoranir sem greinin stendur frammi fyrir þegar kemur að framleiðslukostnaði og samkeppni frá innfluttum matvælum en það er ljóst að við getum gert betur á mörgum sviðum í framleiðslu nautakjöts hér á landi, hvort sem er þegar litið er til framleiðsluferilsins, upplýsingagjafar eða ráðgjafar

Umhverfis- og neytendamál

Umhverfismál vega sífellt þyngra í samfélagsumræðunni og eru bændur og landbúnaður þar síst undanskilinn. Í stefnumótununum er lögð áhersla á að íslensk nautgriparækt verði kolefnisjöfnuð á næstu 10 árum, dregið verði úr þörf á jarðefnaeldsneyti, þátttaka bænda í umhverfisvernd verði aukinn og áhersla verði lög á notkun innlendra aðfanga svo eitthvað sé nefnt. Eins hafa neytendamál verið bændum afar hugleikin, þá sérstaklega þegar kemur að upprunamerkingum matvæla, hvort sem er í matvöruverslunum, veitingastöðum eða mötuneytum.

Mynd: Af fundi mjólkurhópsins

Aukið virði nautgripaafurða

Í stefnumótununum er horft til þess að auka virði nautgripaafurða eftir fremsta megni. Þar er meðal annars horft til vöruþróunar og bætts framleiðsluferlis nautakjöts til að tryggja að allur skrokkurinn, hvort sem er fínni vöðvar, hakkefni eða hliðarafurðir nýtist sem best skildi. Einnig vilja samtökin sjá að regluverk og leyfisveitingar fyrir heimavinnslu verði gerð aðgengilegri.

Hægt er að nálgast stefnumótanirnar með því að smella hér eða á vefborðann efst á forsíðu.

 

Þrátt fyrir að vinnu við stefnumörkunina sé formlega lokið, er mikilvægt að gera sér grein fyrir að í raun lýkur slíkri vinnu aldrei. Nú tekur við það verkefni að hrinda henni í framkvæmd. Þá er og mikilvægt að endurmeta stöðuna á hverjum tíma, sem taki mið af síbreytilegum aðstæðum.