Beint í efni

Stefnumörkun nýsjálenskra kúabænda

10.05.2010

Á síðastliðu ári settu nýsjálenskir kúabændur fram stefnumörkun fyrir búgreinina til ársins 2020. Um að ræða endurskoðun á stefnumörkun sem fyrst var sett fram árið 2004, þar sem tekið er tillit til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað síðan þá. Þær helstu eru eftirfarandi:

 1. Mikil aukning í neyslu mjólkurafurða á heimsvísu.
 2. Samkeppnisforskot nýsjálenskra kúabænda fer minnkandi, mikil áhætta í því fólgin.
 3. Mjög mikil þörf á áframhaldandi framleiðniaukningu í búgreininni.
 4. Hlutdeild mjólkurframleiðslunnar í efnahagslífi Nýsjálendinga er mikil og fer vaxandi.
 5. Arðsemi og virði kúabúanna hefur aukist mjög mikið.
 6. Almenningsálitið gagnvart greininni er misjafnt.
 7. Neytendur knýja á um aukna sjálfbærni mjólkurframleiðslunnar.
 8. Vaxandi þörf er á hæfileikafólki til starfa á búunum.

Til að koma til móts við framangreind atriði byggir stefnumörkunin á fimm megin stoðum:

 1. Aukin arðsemi búrekstrarins. Sett eru markmið um að hagnaður vegna framleiðniaukningar í mjólkurframleiðslunni nemi 110 NZ$ pr. ha. á ári.
 2. Greinin verði samkeppnisfær um hæfileikaríkt vinnuafl. Að vinnumarkaðurinn nái að uppfylla þarfir búanna fyrir hæfan vinnukraft.
 3. Samkeppnihæf mjólkurframleiðsla sem skilar hámarksarði til bænda. Mjólkin verði framleidd á samkeppnishæfu verði, gæðum og magni; bæði gagnvart öðrum löndum og öðrum próteingjöfum. Mjólkuriðnaðurinn nýti kosti þessarar samkeppnishæfu mjólkurframleiðslu til að ná ennþá meiri verðmætum út úr markaðinum, til kúabænda.
 4. Orðspor greinarinnar verði bætt, bæði heima og erlendis. Almenningur líti á greinina sem aðlaðandi vinnustaði sem framleiða gæðavörur en varðveita um leið land, jarðveg og grunnvatn. Mjólkurframleiðslan sé metin að verðleikum sem mikilvæg atvinnugrein fyrir Nýsjálendinga. Aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum verði bætt enn frekar.
 5. Ná sameiginlegum markmiðum með góðu samstarfi við stjórnvöld og samfélagið í heild. Greinin eigi í góðu samstarfi við stjórnvöld um lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum, sem tekur mið af þörfum beggja aðila. Þessar lausnir auki arðsemi búanna, bæta orðspor greinarinnar, byggja upp samkeppnishæfa mjólkurframleiðslu, laða að greininni hæfileikaríka einstaklinga og taka á ýmsum mikilvægum atriðum á borð við útblástur gróðurhúsalofttegunda, vatnsgæðum, orku- og vatnsnotkun.

Því hefur verið haldið fram að mannssálin sé mjög svipuð, hvort heldur er í Súdan eða Grímsnesinu, þannig að hér eru á ferðinni athyglisverðar hugmyndir sem stefnumörkunarhópur LK og Auðhumlu getur vafalítið nýtt í sinni vinnu, þrátt fyrir að aðstæður á Íslandi og Nýja-Sjálandi séu mjög mismunandi. Takmarkið hlýtur þó ætíð að vera hið sama: að hafa góða afkomu af því að framleiða gæðavörur á samkeppnishæfu verði, með góðum aðbúnaði starfsfólks og búfjár og lágmarks áhrifum á umhverfið. 

 

Með því að smella hér má sjá stutta útgáfu af stefnumörkuninni. Mun ýtarlegri útgáfu er að finna hér.