Stefnumörkun danskra kúabænda til 2013
10.11.2009
Í september sl. kynntu samtök danskra kúabænda, Dansk kvæg, stefnumörkun samtakanna til 2013. Markmið stefnumörkunarinnar er þríþætt:
1. Kúabúskapur í Danmörku skal vera samkeppnishæfur á heimsmarkaði með búvörur, grein sem framleiðir gæðavörur, hefðbundnar og lífrænt ræktaðar sem mæta kröfum markaðarins.
2. Greinin skal geta greitt framleiðendum góð laun sem eru í samræmi við vinnuframlag og ávöxtun á þá fjármuni sem bundnir eru í greininni. Ávöxtunin skal vera í samræmi við 15 ára ríkisskuldabréf, sem er nú 5,3%.
3. Greinin skal höfða til breiðs hóps af vinnukrafti sem býr yfir ýmsum hæfileikum og vinnur að ögrandi verkefnum.
Stefnumótunina er að finna í heild sinni hér.
Til að ná framangreindum markmiðum hefur Dansk kvæg skilgreint 9 svið þar sem sett hafa verið skilgreind og mælanleg markmið. Þau helstu eru eftirfarandi:
1. Efnahagslegur styrkur mjólkurframleiðslunnar. Breytilegur kostnaður pr. kg mjólkur skal lækka á tímabilinu um 15%. Meðalnyt árskúa skal aukast um 1.000 kg, án aukins tilkostnaðar. Uppskera gróffóðurs verði aukin um 1.000 fe. pr. hektara. Fóðurnýting aukist úr 82% í 87%. Kálfadauði lækki úr 8,6% í 5,5%. Landsmeðaltal frumutölu í tankmjólk verði undir 220.000. Aldur við 1. burð hjá svartskjöldóttu og rauðu kúnum verði 24 mánuðir, 22 mánuðir hjá Jersey.
2. Skilvirk kjötframleiðsla. Nautakjötsframleiðslan nái efnahagslegum styrk þrátt fyrir lágt afurðaverð og afnám styrkja. Daglegur vöxtur kjötframleiðslugripa aukist um 10%, úr 1.250 gr í 1.375 gr. Fóðurnotkun pr. kg vaxtar skal minnka um 10%. Vanhöld kjötframleiðslugripa frá 14 daga aldri til slátrunar minnki um 40%, þ.e. úr 5% í 3%. Salmonella Dublin skal finnast á minna en 9% stærri búa (>100 slátraða kálfa árlega) og á innan við 4% minni búa (<100 slátraða kálfa). Flokkun falla batni um 5%. Hlutfallið milli fóðurverðs og kjötverðs fari úr 6,22 sem það er nú, niður í 5 (hlutfall milli verðs á 100 kg af kjarnfóðurblöndu og kg falls).
3. Samkeppnishæf framleiðsluaðstaða. Framleiðsluaðstaðan skal taka mið af hámarks velferð gripa, afurðagæðum, vinnuumhverfi og hagkvæmni, með lágmarks áhrifum á náttúru og umhverfi. Ákvarðanir um fjárfestingar í nýrri tækni og búnaði séu teknar á grundvelli fullrar vitneskju um arðsemi hennar og afleiðingar á umhverfi, vinnuaðstöðu, afurðagæði, velferð gripa og smitvarnir. Fastur kostnaður vegna ræktunar, geymslu og fóðrunar gróffóðurs verði lækkaður.
4. Holl og örugg matvæli. Að gæði afurða séu á hverjum tíma í góðu samræmi við eftirspurn markaðarins. Þetta gerir kröf um náið samstarf við afurðastöðvar. Förgun matvæla, mjólkur og kjöts skal haldið í algeru lágmarki og ímynd greinarinnar sem framleiðanda að náttúrulegum og hollum matvælum skal viðhaldið. Mengun mjólkur og kjöts skal forðast af öllum mætti, gæði og næringargildi þeirra viðhaldið.
5. Fagleg stjórnun kúabúanna. Kúabændum skulu hafa aðgang að bestu stjórntækjum til að stjórna framleiðslu, rekstri og vinnukrafti búsins, svo afkomugrundvöllur búsins sé sem bestur. Stöðluðum vinnubrögðum (e. Standard Operational Procedures) skal beitt sem víðast við bústörfin.
6. Skilvirk þjónusta við kúabændur framtíðarinnar. Öll gögn sem búið þarf að nota skulu vera uppfærð og aðgengileg þegar þörf er á. Gögn skulu fljóta sjálfvirkt á milli búsins og gagnagrunna, t.d. með notkun handtölva og frá mjalta- og fóðurkerfum. Þetta verður tryggt með gagnagrunni nautgriparæktarinnar, sem geymir bæði þær upplýsingar sem greinin skal safna samkvæmt lögum og þær sem hún hefur sjálf ákveðið að taka saman. Í grunninum verða upplýsingar frá búunum sjálfum, afurðaskýrsluhaldi, sæðingastarfi, ráðgjafaþjónustunni, dýralæknum, afurðastöðvum o.fl. Upplýsingum verði miðlað með skilvirkum hætti til kúabænda, ráðgjafa og rannsókna. Árið 2013 verði allir gripir með rafræn eyrnamerki og lokið verði þróun á þráðlausu skráningarkerfi í því sambandi.
7. Öflugar sjúkdómavarnir. Sjúkdómavarnir og dýralæknaþjónusta verði þróuð og viðhaldið, svo tryggja megi góða sjúkdómastöðu landsins. Þannig megi tryggja samkeppisforskot afurðanna á heimsmarkaði.
8. Hæfusta ráðgjafaþjónustan. Að viðhalda, endurnýja og þróa faglega, öfluga og heildstæða ráðgjafaþjónustu sem kemur til móts við þarfir og úrlausnarefni einstakra búa. Ráðgjöf framtíðarinnar skal þróuð af bestu kúabændunum, ráðunautum og vísindamönnum greinarinnar. Aukinni hæfni skal ná með endurmenntun, námsferðum og með þátttöku í þróunarverkefnum.
9. Samskipti og sýnileiki. Markmiðið er að auka skilning almennings á þýðingu greinarinnar fyrir verðmætasköpun í Danmörku, og þar með að tryggja stuðning við greinina. Skilningur á skilyrðum greinarinnar er mikilvægasti grundvöllurinn að góðu rekstrarumhverfi. Í því sambandi er mikilvægt að setja fram skýr pólitísk og fagleg markmið, til að halda sjónarmiðum bænda á lofti og auka möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnmálamanna. Greinin verði sýnilegri í augum almennings og fjöldi jákvæðra frétta af henni í fjölmiðlum verði aukinn um 5% frá því sem nú er. Tryggt verði að réttum og faglegum upplýsingum verði komið á framfæri við þá sem við á. Í tengslum við hvert og eitt verkefni hjá Dansk kvæg verði unnin samskipta- og fréttaáætlun.
Hér er á ferðinni mjög athyglisverð áætlun, sem íslenskir kúabændur og samtök þeirra ættu að taka sér til fyrirmyndar á margan hátt. Ekki er t.d. vanþörf á að ná niður kostnaði við mjólkurframleiðsluna, því hefur á tíðum verið haldið fram að hann sé eina raunverulega vandamál greinarinnar. Hvað væri verðugt markmið þar? Á fulltrúafundi Auðhumlu svf. í síðustu viku var varpað fram hugmynd um 35% lækkun kostnaðar á næsta áratug. Er það raunhæft? Þarf meira til?
Meðalnyt hér á landi er sú sama í dag og í Svíþjóð árið 1975, hvaða markmið er eðlilegt að setja þar? 6.000 kg árið 2013? 6.500 kg? Kálfadauðinn er 15-16% hér. Er ekki gott markmið að ná honum niður í 10% á næstu 5 árum, eitt prósentustig á ári?
Hafa allar ákvarðanir um fjárfestingar á undanförnum árum verið byggðar „á grundvelli fullrar vitneskju um arðsemi“?
Allar rannsóknir sýna að gæði og öryggi okkar afurða eru með því besta sem gerist. Kröfur markaðarins verða samt sífellt meiri. Hvernig náum við að fylgja því eftir?
Með stækkandi búum verður stjórnun og rekstur sífellt umfangsmeiri hluti af búskapnum. Hefur verið hugað nógu vel að þörfum bænda á því sviði? Hafa þeir gefið stjórnunarþættinum nægan gaum? Hér er líka talsvert af erlendu verkafólki á kúabúum. Víða þekkjast staðlaðar lýsingar, myndskreyttar á nokkrum tungumálum, á einstökum verkum, mjöltum, þrifum, fóðrun ungviðis, greiningu beiðslis, sjúkdóma o.s.frv.
Mikið og gott verk hefur verið unnið varðandi gagnagrunn nautgriparæktarinnar hér á landi. Þar er þó enn óplægður mikill akur. Hvaða verkefni á að setja í forgang á því sviði?
Óumdeilt er að sjúkdómastaða landsins er góð. Verkefni á sviði dýraheilbrigðis hafa þó nær eingöngu snúist um að slökkva elda sem upp kunna að koma. Eiga dýralæknar ekki að vera mun virkari í forvörnum og ráðgjöf?
Ráðgjafaþjónustan stendur á miklum tímamótum, t.d. vegna niðurskurðar á Búnaðarlagasamningi. Hvaða leiðir á að fara til að tryggja bændum bestu mögulega ráðgjöf og skynsamlegasta nýtingu fjármuna?
Til að tryggja góð samskipti við almenning verða allir að leggja hönd á plóg. Skrifa í blöðin. Fyrir nokkrum árum buðu bændur heim, þáðu þúsundir landsmanna það boð. Er kominn tími á það aftur? Á hverju vori bjóða samtök lífrænna kúabænda í Danmörku gestum og gangandi til að verða vitni að því þegar kúnum er hleypt út. Er ekki tilvalið að gera slíkt að reglulegum viðburði hér? Kúnum er jú hleypt út á hverju vori…
Mun fleiri atriði úr stefnumörkuninni mætti tína til. Framkvæmdastjóri LK óskar eindregið eftir viðbrögðum við þessum hugleiðingum, annað hvort í athugasemdum eða á spjallborði.