Beint í efni

Stefnum á framúrskarandi matvælaframleiðslu

12.12.2020

Í vikunni var í fyrsta sinn kynnt Matvælastefna fyrir Ísland. Stefnan á að vera leiðbeinandi fyrir ákvarðanatöku hins opinbera til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu landsins, tryggja matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.

Ég fagna því mjög að fram sé komin stefna um matvælaframleiðslu Íslands og greip tækifærið þegar mér bauðst að vera með stutt ávarp á kynningu stefnunnar og ræða hlið bænda og áherslur varðandi matvælastefnu.

Það er óhætt að segja að matvælastefna fyrir Ísland er gríðarmikilvægt skref og er öllum viðkomandi. Bændur á yfir 3.000 býlum vítt og breytt um landið framleiða um 30.000 tonn af kjöti, 15.000 tonn af grænmeti og 150 milljón lítra af mjólk og mikill fjöldi fólks kemur að framleiðslu, vinnslu, flutningi og sölu matvæla til neytenda.

Verðmæt staða

Það er mín sýn að við búum yfir gríðarlega dýrmætum kostum í innlendri matvælaframleiðslu sem við þurfum að vernda, mörgum hverjum sem við tökum jafnvel sem gefnum. Auðveldur aðgangur að hreinu neysluvatni þykir nánast sjálfsagður, áburðarmengun mælist ekki í jarðveginum, heilbrigði bústofna er til fyrirmyndar, við eigum okkar eigin búfjárkyn sem eru einstök á heimsvísu og almennt nýtur íslenskur landbúnaður stuðnings neytenda. Búum fækkar og þau stækka en fjölskyldubúið er enn langsamlega algengasta búformið.

Við Íslendingar notum hvað minnst af sýklalyfjum í landbúnaði af löndum heims og okkur hefur einnig tekist að takmarka notkun þeirra enn frekar síðustu ár.

Við höfum áður heyrt talað um að notkun sýklalyfja sé hér í lágmarki en í nýlegri skýrslu Lyfjastofnunar Evrópu var þróun á sölu sýklalyfja fyrir dýr tekin saman fyrir hvert og eitt land árin 2010-2018. Þar kemur fram að heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis hefur dregist saman um 20% yfir þetta tímabil. Þetta eru gríðarlega ánægjulegar niðurstöður og sýnir metnaðinn sem býr í innlendri matvælaframleiðslu. Þá er einnig mjög ánægjulegt að sjá að stærstur hluti sölunnar eru þröngvirk, beta-laktamasanæmum pencillin en notkun þröngvirkra sýklalyfja takmarkar myndun á sýklalyfjaónæmi.

Í innlendri nautgriparækt eru sýklalyf notuð til að bregðast við sýkingum og að mínu mati snýr notkun þeirra hér oftast að hreinni dýravelferð s.s. við meðhöndlun júgurbólgu en erlendist þekkist víða að sýklalyf séu notuð sem vaxtarhvetjandi efni og eru þá blönduð saman við fóður skepna.

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandi í heiminum og ógnar heilsu manna auk þess að valda auknum kostnaði við heilbrigðistþjónustu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af mestu heilbrigðisógnum heimsins.

Neytendur og landbúnaður

Landbúnaður hefur áhrif á ímynd landsins og aðrar starfsgreinar, ekki hvað síst ferðaþjónustuna. Það er að mínu mati mikilvægt að áfram verði blómleg bú hringinn í kringum landið, sem framleiða heilnæmar og hreinar vörur fyrir þjóðina og þá gesti sem sækja landið heim. Tenging neytenda og sátt við frumframleiðsluna er dýrmæt.

Ákall neytenda um sjálfbæra og loftslagsvæna framleiðslu er mikið og ætla bændur ekki að láta sitt eftir liggja í umhverfis- og loftslagsmálum en nautgriparæktin stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Til að ná því markmiði þarf samstarf bænda og stjórnvalda að vera náið og gott.

Tækifæri okkar eru fjölmörg en það skiptir máli að aðgerðir séu ekki íþyngjandi fyrir rekstur bænda og að áhersla verði lögð á loftslagsvænni búskaparhætti sem bera með sér fjárhagslegan hvata.

Í sífellt upplýstara samfélagi þurfum við að halda í við kröfur neytenda og markaðarins.

Neytendur eiga rétt á því að fá að vita hvaðan maturinn kemur til að geta tekið upplýsta ákvörðun í vali sínu á matvælum. Þar ber helst að nefna upprunamerkingar sem skyldu á veitingastöðum og í mötuneytum landsins, en þegar þangað er komið getur reynst torvelt að fá upplýsingar um matinn.

Landbúnaður er stærsta framleiðslugrein heims og yfir milljarður manna starfa við hann.

Um 90% matvælaframleiðslu á heimsvísu fer á innanlandsmarkað og því skiptir höfuðmáli að til staðar sé stefna og sátt ríki um hana. Við höfum margt með okkur og því þarf að halda til haga í því harða samkeppnisumhverfi sem íslenskur landbúnaður er sannanlega í.

Það er heldur dýrt að stunda landbúnað hér á 66. breiddargráðu en við fáum mikið á móti.

Staða okkar er verðmæt, við höfum stórkostleg tækifæri til að vera framúrskarandi og öðrum þjóðum til fyrirmyndar þegar kemur að heilnæmi og gæðum matvæla.

Ritað á Egilsstöðum 11. desember 2020

Herdís Magna Gunnarsdóttir