Beint í efni

Stefnt að fríum aðgangi FEIF-félaga að WorldFeng

21.11.2008

Jens Iversen, forseti FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenskra hrossa, var í heimsókn á Íslandi dagana 19.-20. nóvember. Á ferð sinni fundaði Jens m.a. með Eiríki Blöndal, framkvæmdastjóra BÍ, og Jóni Baldri Lorange, forstöðumanni tölvudeildar,  um viðaukasamning milli Bændasamtakanna og FEIF um WorldFengs-verkefnið. Samningurinn felur m.a. í sér, ef hann nær fram að ganga, að allir félagar í FEIF, sem eru 60 þúsund talsins, fái frían aðgang að WorldFeng í gegnum aðildarfélög sín. Viðaukasamningurinn verður sendur til allra aðildarfélaga FEIF í 19 löndum í desember nk. og verður lagður fyrir næsta ársþing FEIF sem haldið verður í Hamborg í Þýskalandi 29. febrúar til 1. mars á næsta ári. Að sögn Jóns Baldurs á eftir að útfæra betur hvernig samningurinn kemst til framkvæmda hér á Íslandi í samráði við Landssamtök hestamannafélaga og Félag hrossabænda.

FEIF og BÍ eru sammála um ný markmið samstarfsins svo sem um að WorldFengur verði ættbók allra aðildarlanda FEIF og að gögn um íþrótta- og gæðingadóma verði aðgengileg í WorldFeng.

Jens Iversen hitti einnig að máli í ferð sinni nefnd hagsmunaaðila um fyrirhugaðar breytingar á lögum FEIF en henni sitja auk Jens m.a. Haraldur Þórarinsson, formaður LH, Kristinn Hugason, fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og Gunnar Sturluson hæstaréttarlögmaður. Þá fundaði Jens Iversen með nefnd um markaðssetningu íslenska hestsins, gjarnan kennda við Ástu Möller alþingismann. Þar var umræðuefnið hvaða gildi alþjóðasamtök eigenda íslenskra hrossa hafi í íslenska hestaheiminum. Jón Baldur Lorange segir að miklar vonir séu bundnar við vinnu nefndarinnar enda aldrei mikilvægara en nú að halda uppi merki Íslands erlendis að hans mati. „Íslenski hesturinn er og verður okkar besti sendiherra á erlendri grund eins og margoft hefur sannast. FEIF hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna en samtökin standa t.a.m. að heimsmeistaramótum íslenska hestsins en næsta mót verður haldið í Sviss næsta sumar,“ segir Jón Baldur.

Á meðfylgjandi mynd eru þeir Jens Iversen, forseti FEIF, Jón Baldur Lorange og Eiríkur Blöndal frá BÍ.