Stefnir uppskerumet á korni í heiminum!
05.08.2016
Alþjóða kornráðið IGC (International Grains Council) hefur gefið út spá um kornuppskeru ársins en talið er að heildarframleiðsla ársins endi í 2.046 milljónum tonna! Ef svo fer sem horfir er það næst mesta magn sem hefur verið þreskt í heiminum á einu ári frá upphafi mælinga en heimsmetið var sett fyrir tveimur árum. Árið í ár hefur reyndar verið erfitt til kornrætkar í norðurhluta Evrópu og er t.d. útlit fyrir mun minni uppskeru í Frakklandi en væntingar stóðu til um vegna rigningasumars. Á sama tíma stefnir hins vegar í metuppskeru í Bandaríkjunum og í mörgum af löndum austur Evrópu.
Sé litið til skiptingarinnar á kornuppskeru ársins þá er talið að hveitiuppskeran fari í 735 milljón tonn og maís í 1.017 milljón tonn en þessar tvær korntegundir eru lang stærstu tegundirnar sem eru þresktar í heiminum. Vegna hinnar miklu uppskeru er ráðgert að nærri fjórðungur hins uppskorna magns lendi í geymslum eða svokölluðum kornfjöllum. Mikil uppskera er vonandi ávitull á lækkandi heimsmarkaðsverð og þar með lægra kjarnfóðurverð en alþjóðabankinn Rabobank, sem er sérhæfður landbúnaðarbanki, hefur einmitt nýverið sent frá sér spá sína um heimsmarkaðsverð á korni en bankinn spáir því að vegna mikillar framleiðslu muni verðið falla veruelga og það strax í september/SS.