Beint í efni

Stefnir í uppskerumet!

26.04.2013

Samkvæmt spá Alþjóðlega kornráðsins (IGC – International Grains Council) stefnir allt í að kornuppskeran í ár verði sú mesta hingað til í heiminum. Þetta eru vissulega stórtíðindi og afar jákvæð fyrir þá sem nota korn í landbúnaði enda er mikil uppskera ávitull á lækkandi verð. Á móti kemur eru þetta síður góð tíðindi fyrir bændur sem byggja viðurværi sitt á kornrækt en hér á landi fer væntanlega ekki um neinn af þeim sökum.
 
Alls spáir IGC því að uppskeran muni nema 1.906 milljónum tonna sem er nýtt heimsmet en fyrra metið var sett árið 2011 þegar 1.851 milljón tonn voru þreskt. Til samanburðar má geta þess að síðasta ár var uppskeran ekki nema 1.781 milljón tonn og er hér því um gríðarlega mikla aukningu að ræða.
 
Spá þessi byggir bæði á upplýsingum um sáningar víða um heim en einnig áætlun um aukna uppskeru vegna framræktunar. Þannig er því spáð að það verði fjögur prósent aukning á hvetiuppskeru og heil 10 prósent á maísuppskeru. Þó svo að enn sé langt í að allir hektarar heimsins hafa verði þresktir í ár þá eru þetta vissulega jákvæð og góð tíðindi sem vonandi munu rætast þegar árið er úti. Nánar má fræðast um málefni kornframleiðslunnar á heimasíðu IGC: www.igc.int /SS.