Beint í efni

Stefnir í heldur minni kornframleiðslu

29.07.2011

Þrátt fyrir að það stefni í að kornuppskeran í Evrópusambandinu verði heldur minni en í fyrra, er ekki útlit fyrir nein stórtíðindi á heimsmarkaðinum. Á tímabili í sumar stefndi hratt í enn meiri verðhækkanir á korni þegar þurrkar herjuðu í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi, stærstu kornframleiðslulöndum Evrópusambandsins. Þegar verst lét, gerður spár ráð fyrir 20-30% framleiðslusamdrætti. Sem betur fór, fór að rigna og var kornvextinum því bjargað að hluta til amk.
 
Í dag gera spár ráð fyrir því að hveitiframleiðsla landa Evrópusambandsins verði 1-3% minni en í fyrra enda þótt samdrátturinn verði meiri í framangreindum þremur löndum þá stefnir í aukna uppskeru á Spáni, í Rúmeníu og í Búlgaríu. Ef horft er til allra korntegunda, er talið að samdrátturinn í heild muni nema um 1,5-4% en tölurnar eru enn nokkuð á reiki enda uppskera á vorsáðu byggi rétt byrjuð. Allt útlit er þó fyrir að maísuppskeran taki mikinn kipp upp á við með aukningu um allt að 9% og þá er útlit fyrir góða uppskeru af höfrum einnig. Fari svo sem horfir með framangreindar spár, eru því þokkalegar líkur á því að kornverð hækki ekki mikið á næstunni. Á hinn bóginn liggur jafnframt fyrir að líkur á mikilli lækkun á heimsmarkaði með korn eru ekki miklar/SS.