Stefnir í framleiðslumet hjá New Holland
21.06.2012
Dráttarvélaverksmiðja New Holland í Basildon í Englandi stefnir nú hraðbyri að nýju framleiðslumeti, en áætlað er að í ár fari framleiðslan yfir 26 þúsund dráttarvélar. Fari sem horfir er þetta nýtt met en fyrra metið er frá 2008.
Eins og framan segir eru afköst verksmiðjunnar mikil og daglega er gengið frá 120 nýjum dráttarvélum. Til þess að ná þessum miklu afköstum hefur New Holland verksmiðjan tekið upp nýja gæðastýringu sem kallast WCM (World Class Manufacturing-system) sem er sama gæðastýringarkerfi og notað er við framleiðslu á bílum. Kerfið byggir á mikilli notkun á færiböndum og tölvutækni sem lágmarkar gönguleiðir fólks og hámarkar nýtingu vinnuaflsins. Fyrir vikið eru nýju dráttarvélarnar frá New Holland ódýrari í framleiðslu en áður.
Verksmiðjan í Basildon er engin smásmíði og tilheyra henni 40 hektarar og er samsetningarlínan alls 2 kílómetrar. Verksmiðjan er afar fjölhæf og sem dæmi um það má nefna að T6 og T7 dráttarvélarnar er hægt að fá afgreiddar í 6.550 mismunandi útfærslum. Spurning hvort að fjölbreytileikinn valdi ekki bara valkvíða?/SS.