Beint í efni

Stefnir í besta rekstrarár Fonterra frá upphafi

30.03.2011

Vegna afar góðrar stöðu mjólkurvara á alþjóðlegum mörkuðum lítur út fyrir að rekstrarárið 2010/2011 verði það besta í sögu Fonterra í Nýja-Sjálandi, en félagið miðar við árstíðirnar og rekstrarárið miðast við 1. ágúst til 31. júlí. Að sögn forsvarsmanna félagsins stefnir í að hægt verði að greiða hæsta verð fyrir mjólk til bænda frá upphafi eða 8 NZ$ (700 krónur) fyrir hvert þurrefniskíló mjólkurinnar.

 

Fyrstu sex mánuði rekstarársins nam hagnaður félagsins eftir skatta heilum 25,7 milljörðum íslenskra króna (293 NZ$ milljónum) en þetta er í fyrsta skipti sem félagið gefur upp rekstrarstöðu á miðju rekstrarári svo ekki er til samanburður við önnur rekstrarár hvað þetta varðar.

 

Stjórnarformaður Fonterra, Sir Henry van der Heyden, sagði í fréttatilkynningu félagsins að góður rekstur félagsins skili sér þráðbeint til eigenda sinna, kúabændanna. „Kúabændur landsins hafa margir hverjir átt í erfiðleikum undanfarin misseri vegna efnahagsástandsins og erfiðs veðurfars svo góður rekstur félagsins kemur þeim afar vel. Þessi árangur félagsins kemur þjóðinni einnig vel í kjölfar jarðskjálftans [í Christchurch] og minnir okkur á hve mjólkurframleiðsla er mikilvæg fyrir efnahag landsins“, sagði Sir Henry í tilkynningu félagsins.

 

Um ástæður góðs gengis félagsins segir hann áfram: „Hagnaður okkar byggir fyrst og fremst á góðu gengi á mörkuðum í Kína og öðrum löndum Asíu, auk tækifæra sem skapast hafa í nokkrum löndum vegna breytinga á veðurfari sem orsakað hefur minnkun í framleiðslu á viðkomandi heimamörkuðum. Vegna hagstæðs verðs á heimsmarkaði hefur það vegið upp styrkingu nýsjálenska dollarsins gagnvart bandaríska dollaranum, en flest okkar viðskipti eru einmitt í bandarískum dollurum“, sagði Sir Henry að lokum í fréttatilkynningu Fonterra./SS