Beint í efni

Starfsmenn Arla gerðu full vel við sig

06.01.2016

Sumir af starfsmönnum afurðafélagsins Arla í Svíþjóð gerðu full vel við sig við ótal mismunandi tækifæri árið 2014, en um var að ræða bæði lágt- og háttsetta starfsmenn félagsins. Í tilkynningu félagsins segir að starfsfólkið hafi notað fjármuni félagsins á óábyrgan hátt og á engan hátt í samræmi við það að um félag í eigu bænda væri að ræða, þ.e. samvinnufélag kúabænda. Einhverra hluta vegna var komin hefð fyrir því að líta á það sem hluta af starfinu að gera vel við sig m.a. með því að kaupa allt of dýrar veitingar þegar fólk var að ferðast á vegum félagsins, margir hafi að óþörfu ferðast á dýrari farrýmum flugfélaga og svona mætti áfram telja.

 

Það var rekstrarstjóri félagsins, Henri de Sauvage, sem gerði grein fyrir þessu í viðtali við sænska blaðið Dagens Industri, en blaðið hafði fengið upplýsingar um að ekki hefði verið allt með felldu í Svíþjóðardeild Arla. Henri nefndi jafnframt sem dæmi um sóun starfsmannanna að nokkrir yfirmenn fóru í golf og út að borða á vegum félagsins, viðskiptavinum hefur verið boðið í rándýra málsverði og þá hafa stundum verið haldnir starfsmannafundir félagsins á glæsilegum herragörðum með tilheyrandi kostnaði. Tekið var fram að ekki væri um það að ræða að nokkur hafi brotið af sér í starfi en að siðferðisþrek sumra starfsmanna hefði ekki verið of mikið.

 

Það var endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young sem komst að þessari sóun fjármuna félagsins, en það var fengið til þess að fara sérstaklega ofan í saumana á þessum málum vegna gruns um að misbrestur væri á því að vel væri farið með fjármuni kúabændanna sem eiga félagið/SS.