Beint í efni

Staldrað við um áramót – leiðari formanns LK

02.01.2013

Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda kemur víða við í áramótaleiðara sem birtur var á naut.is í gær, nýársdag. Svo sem vænta má af þeim „sem allt sitt eiga undir sól og regni“ kemur hið óvenjulega veðurfar nýliðins árs upp í hugann, tíð illviðri en einnig einstaklega sólríkt sumar, sem gaf af sér mikla uppskeru jarðargróða sunnanlands, en mun rýrari nyrðra.

 

Um sölu mjólkurafurða segir formaður að „sala mjólkurafurða gekk afar vel á liðnu ári og talsvert umfram þær væntingar sem uppi voru þegar greiðslumark ársins var ákveðið. Þannig var 12 mánaða sala á próteingrunni eftir nóvembermánuð komin í 115,9 milljónir lítra og 114,5 milljónir lítra á fitugrunni„. Þessi árangur í aukinni fitusölu sé sérstaklega ánægjulegur, í ljósi þess að fyrir fáum árum var 12 milljón lítra munur á sölu fitu og próteins. Útflutningur mjólkurafurða gengur ágætlega hvað magn varðar, en mun síður hvað skilaverði áhrærir, mikilvægt sé að vinna markvisst að hækkun þess. Batamerki sjást í rekstri kúabúanna, en margir þættir þar séu brothættir.

Framleiðsla og sala nautakjöts er meiri nú en nokkru sinni áður, en minnkun í ásetningi veldur talsverðum áhyggjum. Um endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna segir formaður LK: „Starfandi hefur verið nú hátt á annað ár starfshópur um þetta efni á vegum ráðuneytis landbúnaðarmála, sem eftir því sem best er vitað hefur lokið sínu starfi. Enn ber þó ekkert á niðurstöðu hans og verður það að teljast með öllu óviðunandi.“ Formaður kemur einnig inn á framlengingu mjólkursamnings og telur afar mikilvægt að hafa náð henni fram, með því náist bærilegur fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfinu til ársloka 2016. Ekki skipti minna máli að „að samningsaðilar hafa skuldbundið sig til að fara í sameiningu yfir allar forsendur greinarinnar og reynsluna af gildandi samningi„. Formaður telur einnig brýnt að fara yfir smitvarnir og verkferla, í tengslum við greiningu á mótefni gegn smitandi barkabólgu sem upp kom sl. haust. Þá er komið inn á leiðbeiningar um góða framleiðslu hætti, sem unnið er að um þessar mundir. Að lokum óskar formaður LK sameiginlegu fyrirtæki í ráðgjafastarfsemi og starfsmönnum þess velfarnaðar í starfi./BHB

 

Staldrað við um áramót – leiðari Sigurðar Loftssonar, formanns LK 1. janúar 2013