Stafrænar kýr? Nýtt app komið!
10.08.2013
Sumir símar hringja með hefðbundnum hringitóni, aðrir titra og sumir – ja þeir baula! Markaðsráð mjólkuriðnaðarins í Kalíforníu hefur brugðið á það ráð að láta útbúa nýtt snjallsímaforrit, reyndar eingöngu fyrir iPhone enn sem komið er, sem gerir notendum mögulegt að hafa kýrnar á sér allan daginn. Með þessu appi geta notendur tekið stafrænar kýr í fóstur og haft þær sem einskonar gæludýr í símanum sínum.
Kýrnar þarf að mjólka líkt og aðrar kýr, sem og að fóðra þær en þar með sleppir tengingunni við líf kúabóndans. Hinar stafrænu kýr geta nefninlega bæði talað, farið í föt, fengið á sig andlitsmálningu auk þess sem þær má kitla! Auk þess má láta þær tala fyrir sig skilaboð til annarra. En það sem er nú trúlega athyglisverðast við þetta nýja app er að það er ekki markaðssett gagnvart börnum og unglingum heldur bandarískum húsmæðrum!
Samkvæmt talsmanni samtakanna eru alltaf fleiri og fleiri sem hanga í símanum við leik og í vesturheimi hafa kannanir bent til þess að húsmæður nota að jafnaði 5 klukkustundir á viku hverri til þess að spila leiki á netinu! Þessi hópur notenda stjórnar oftast innkaupum á heimilin og því er farin þessi óvenulega leið að því að ná til hópsins. Nánar má fræðast um þetta app á YouTube með því að smella hér en hægt er að nálgast þetta app í vefverslun Apple og er það ókeypis – góða skemmtun húsmæður – og aðrir/SS.