Stærsta mjaltaþjónabú heims í Chíle
09.07.2016
Í námd við Los Ángeles í Chíle er starfrækt kúabúið Agricola Ancali´s og eru þar 6.500 mjólkurkýr sem eru mjólkaðar með fjórum stórum hringekjum. Árið 2014 voru settir upp átta DeLaval mjaltaþjónar á kúabúinu og nú í mars voru aðrir átta teknir í notkun. Í dag eru því starfandi á búinu 16 mjaltaþjónar sem sinna 950 mjólkurkúm. Eigendur kúabúsins eru svo ánægðir með hvernig gengur að nú er búið að skrifa undir risasamning við DeLaval um afhendingu á 48 mjaltaþjónum til viðbótar.
Þegar framkvæmdum við fjósbreytingar og uppsetningu á mjaltaþjónunum verður lokið verða alls 64 mjaltaþjónar á kúabúinu sem munu sjá um 4.500 mjólkurkýr og segir í tilkynningu DeLaval að um stærsta mjaltaþjónabú heims sé að ræða. Þær 2.000 mjólkurkýr sem ekki verða mjólkaðar með mjaltaþjónum verða áfram mjólkaðar með hringekjum/SS.