Beint í efni

Stærsta lífrænt vottaða kúabú Bandaríkjanna sakað um svindl

21.07.2017

Fyrirtækið Aurora Organic Dairy, sem er stærsta lífrænt vottaða kúabú landsins með 15 þúsund mjólkurkýr, var nú í byrjun júlí sakað um að svindla með hinar lífrænu reglur. Snýr það að kröfum um beit mjólkurkúnna en loftmyndir af búinu sýna að kýrnar eru hafðar í stórum útihólfum með aðgengi að fóðri en þær geti á engan hátt farið á beit. Þetta hefur einnig verið staðfest með rannsókn á mjólk frá búinu og líkist hún mun meira hefðbundinni mjólk en mjólk frá kúm sem eru á beit.

Það sem er merkilegt við þetta mál er að ásökunin kemur ekki frá vottunarstofu um lífræna framleiðslu heldur frá sjálfstæðum samtökum sem komust að þessu og vekur það upp áleitnar spurningar um hvernig eftirliti með lífrænt vottaðri framleiðslu er háttað í Bandaríkjunum og etv. mun víðar í heiminum/SS.