Beint í efni

Stærsta kúabú Finnlands með hringekjumjaltaþjón

17.01.2015

Stærsta kúabú Finnlands, sem er með 600 mjólkurkýr, tók nýverið alsjálfvirka hringekju frá DeLaval formlega í notkun. AMR (Automated Milking Rotary) er hringekja sem er alsjálfvirk og er með nokkra þjarka sem sjá um að þvo, setja mjaltatækin á og sprauta spenaspreyi á kýrnar eftir mjaltir.

 

Kúabúið, sem í daglegu tali kallast Finnmilk, var stofnað árið 2013 en að því standa fjórir kúabændur. Þeir höfðu áður unnið saman og notuðu þá hefðbundna mjaltaþjóna frá DeLaval en ákváðu að stækka búið enn frekar og fara í hringekju.

 

Valið stóð um að setja upp hefðbundna hringekju fyrir 50 kýr en slíkt mjaltakerfi krefst 4-6 manna áhafnar, að teknu tilliti til frídaga m.m., og það var ekki inni í myndinni fyrir bændurna. Því var ákveðið að ráðast í að kaupa hringekjumjaltaþjón og byggja nýjar byggingar fyrir heildarframkvæmdina.

 

Um tvö fjós er að ræða sem standa hlið við hlið. Í öðru þeirra, sem er 36 m x 126 m, eru legubásar fyrir 480 kýr og í hinu, sem er 38 m x 117 m, eru 120 básar fyrir geldkýr og kýr í velferðardeild, hringekjan sjálf ásamt biðsvæði, burðarstíur og meðferðarstíur.

 

Í dag er kúabúið það stærsta í landinu og er fjöldi búa með mörg hundruð kýr ekki mikill. Þó eru miklar breytingar í vændum í landinu og er búist við því að árið 2020 hafi kúabúum með fleiri en 300 kýr fjölgað verulega/SS.