Stærsta bú heims til sölu
07.03.2011
Hefur þú áhuga á að kaupa þér smá land og er þér sama þó það sé svolítil fyrirhöfn að komast að því? Ef svo er þá eru kaup á Ivolga etv. þér að sinni, en rússneska fyrirtækið Ivolga er jarðræktarfyrirtæki með rekstur í bæði Rússlandi og Kasakstan. Ivolga hefur yfir 1,5 milljónum hektara að ráða, annarsvegar 800 þúsund hekturum í Kasakstan og 700 þúsund hekturum í Rússlandi. Til samanburðar má geta þess að gróflega metið magn mögulegs ræktarlands hér á landi er um 160 þúsund hektarar eða rétt rúmlega
10% þess lands sem Ivolga hefur yfir að ráða!
Ivolga er í dag stærsta einkarekna jarðræktarfyrirtækið í heiminum en það næst stærsta er fyrirtækið El Tejar í Argentínu með 1,1 milljón hektara.
90-180 milljarðar?
Sérfræðingar eiga afar erfitt með að verðleggja fyrirtækið en talið er að kaupverðið muni liggja á bilinu 90-180 milljarðar króna. Vandinn við kaupmatið felst m.a. í óvissu vegna stjórnmálaástandsins í framangreindum löndum en bændur þar í löndum hafa búið við ákvarðanir yfirvalda sem oft á tíðum virka sem teknar séu á grunni hentistefnu og ekki í samráði við grasrót bændanna. Þar á meðal má nefna bann við útflutningi á korni sl. ár, sem þýddi að þarlendir kornbændur fóru á mis við verulega tekjumöguleika vegna miklu hærra verðs á heimsmarkaði en heimamarkaði. Þá hefur óvissa með veðurfar í þessum löndum ekki auðveldað sérfræðingum að reikna út ætlað söluverðmæti Ivolga.
Ástæður þess að Ivolga er nú til sölu er slæm rekstrarstaða en fyrirtækið þarf á auknu eigin fé að halda en gríðarlegt tap varð á rekstri þess og fleiri kornfyrirtækja árið 2009. Ivolga keypti inn áburð á hæstu verðum 2008/2009 en gat ekki selt uppskeruna nema fyrir lágmarksverð og því fór sem fór.