Beint í efni

Staðan í EUROP-kjötmatinu

28.09.2017

Eins og fram hefur komið áður hér á naut.is, þá tók reglugerð um hið svokallaða EUROP-kjötmatskerfi í gildi fyrir nautgripi hér á landi þann 1. júlí. Um síðustu mánaðarmót birti svo kjötafurðastöð KS verðskrá fyrir þetta kerfi og hóf að greiða fyrir innlegg samkvæmt því, ein afurðastöðva. Áður höfðu sláturleyfishafar um talsvert skeið flokkað gripi eftir bæði gamla og nýja kerfinu til þróunar og samanburðar. Það er því til töluvert af gögnum sem hægt er að nota til að bera saman gömlu og nýju verðskránna. Gögnin eru fengin með góðfúslegu leyfi bænda og sláturleyfishafa. Notast er við gamla og nýja verðskrá hjá kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Við nánari greiningu hjá nautunum er öllum íslenskum nautum steypt saman, og UN1 úrval A notað hjá holdanautum því það var sá flokkur sem lang flestir gripir fóru í. Kýrnar eru hins vegar flokkaðar eftir því hvort þær séu undir eða yfir 200kg að fallþunga.

Heildarpotturinn
Sú spurning sem brennur líklega hvað mest á bændum er hvaða áhrif hefur breytingin á kjötmatinu á heildarpottinn, þ.e. á heildarupphæðina sem sláturleyfishafar eru að greiða bændum fyrir innlegg sín af nautgripakjöti. Í töflu 1. er tekið saman heildarverðið fyrir gripina sem skoðaðir voru í þessari greiningu og verð eftir gamla og nýja kerfinu borin saman.

 

Eins og sést í töflu 1, þá er lækkun í öllum þessum grunnflokkum nautgripakjöts. Athyglisvert er að það séu íslensku nautin sem taka á sig mestu lækkunina.

Íslensk naut
Mikilvægt er að greina örlítið nánar þessar tölur eftir grunnflokkunum. Varla þarf að útskýra það nánar fyrir lesendum naut.is hvað sé átt við með því þegar sagt er að allt önnur lögmál gilda um möguleika til bætingar fyrir þá bændur sem ala íslensk naut miðað við holdanautabændur. Á mynd 1 er tekið dæmi um hvernig íslensk naut dreifast á flokkana í EUROP matinu (súlurnar tákna fjölda gripa, tölur á vinstri ás eiga þar við). Til hliðsjónar er svo lína sem táknar meðalprósentubreytingu á verði sem gripirnir í hverjum EUROP flokki eru að verða miðað við þeirra gamla flokk (prósentutölur eru á hægri ás). Nautunum er allt svo ekki skipt neitt upp eftir gömlu flokkunum, þarna kemur bara fram í hvaða EUROP flokk nautið fer, og hver er breytingin á verðmæti þess við að flytjast á milli matskerfa.
Til einföldunar var ákveðið að sleppa flokkum sem innihéldu færri en 5 gripi. Þó var öllum gripum sem flokkuðust í R-, R og R+ steypt saman í eina súlu, til að sýna fram á að íslensk naut geti vissulega farið í þessa flokka, og hverju það ætti að skila að meðaltali.

Þar sést að það eru fimm bestu hóparnir af þessum 15 í heildina, þar sem íslenskur gripur er að hækka í verði eða að halda sínu. En við matsflokkinn O-2+ er strax komin tæplega 10% lækkun, og svo heldur verðlækkunin áfram og rokkar á milli 12 og 20 prósent niður skalan. Á þessu súluriti er 101 gripur sem ná hækkun, á móti 261 sem verða fyrir lækkun, sem eru býsna ójöfn hlutföll.
Ennfremur var íslensku nautunum skipt upp eftir því hvort að þá ná 250kg í þyngd eða ekki, ástæðan fyrir því að það þótti geta orðið áhugavert er að við þá þyngd miðast álagsgreiðslurnar. Á mynd 2 eru gripum yfir 250kg skipt upp á sama hátt og á mynd 1.


Hjá þyngri nautunum fara 83 gripir í þá flokka sem hækka sig eða standa í stað en 131 í þá flokka sem lækka að meðaltali. Á mynd 3 er svo dreifingin á þeim íslensku gripum sem eru undir 250kg að fallþunga.


Á þessu súluriti steypti ég saman öllum O- gripum, þar sem þeir voru frekar fáir í hverjum fituflokki, en allir urðu þeir fyrir verðlækkun. Hérna eru það 111 gripir sem verða fyrir verðlækkun, en einungis þessir 16 sem fara í O+2 og O2 hækka sig frá gamla matinu.

Holdanaut
Eins og við mátti búast, flokkast holdanaut í betri flokka en íslensku nautin, og fleir gripir ná bætingu í verði eða eru við það að halda sínu, eins og sést á mynd 2. Af 55 „UN1 úrval A“ gripum í heildina, þá eru 31 sem fara í 4 flokka sem skila hærra verði eða standa í stað, á meðan 24 fara í 15 flokka sem lækka þá í verði. Eins og gefur að skilja gerist það einnig við O-2+ að það verður skarpt verðfall, en
það lítur út fyrir að við R+2+ sé að hefjast skörp uppsveifla. Þess fyrir utan eru býsna margir flokkar hér sem lækka minna en 5%.

Kýrnar
Kúnum var skipt upp í tvo flokka eftir þyngd, undir og yfir 200kg fallþunga, vegna þess að þar gerir verðskrá KS greinarmun. Á mynd 5 má sjá breytingar hjá kúm undir 200kg.


Allar kýr undir 200kg lækka í verði, og mikill meirihluti er í flokkum sem verða fyrir 15% verðskerðingu eða meira. Flokkurinn P-1+ sker sig þó svolítið úr þar sem lækkunin er ekki nema 3%, en það orsakast af því að margar kýr þar fóru í K2 samkvæmt gamla matinu, og þannig vill til að eftir því sem kýrnar flokkast neðar í gamla matinu, eru þær líklegri til að verða fyrir hækkun þegar þær koma yfir í EUROP matið. Á mynd 6 eru svo niðurstöður fyrir kýr yfir 200kg í fallþunga. Þar sést að það er hækkun í sumum tilfellum, og þeir flokkar sem hækka eiga það sameiginlegt að vera allir ofarlega í fituflokki. Hérna eru það 68 gripir sem hækka eða standa í stað, á móti 51 sem lækkar sig, og mikill meirihluti þeirra sem hækka eru í fituflokki 4 eða 3+.

 

Möguleg breyting á verðskrá
Eins og fram hefur komið er tilgangurinn með því að skipta um kjötmat, að auðvelda það að stýra bændum í að framleiða gripi að betri gæðum. Besti flokkurinn í verðskrá KS er U2+, og þar eru greiddar 900kr/kg, sem er 6% hækkun frá UN1 úrval A í gamla matinu. Það er skiljanlegt að eitthvað þurfi að vera til í heildarpottinum til að mæta þeim gripum sem gætu náð slíkri bætingu. Holdanaut dagsins í dag standa nánast í stað með sinn heildarpott, þannig að lítið er þangað að sækja.
Ef við setjum dæmið upp þannig að lækkun á heildarpotti íslenskra nauta eigi að borga fyrir þessar 54 krónur sem eru hækkun úr UN1 úrval A í U2+, þá væru það um 144.000kg af slíkum nautum sem potturinn á inni hjá íslenskum nautum. Gefum okkur að hvert U2+ naut sé með 400kg fallþunga, þá væru það um 360 U2+ naut með 400kg fallþunga sem potturinn á inni hjá íslenskum nautum. Ólíklegt er að svo margir gripir eigi eftir að fara í þennan flokk á næstunni.
Ef þó ekki nema helmingnum af þessum tæplega 8 milljónum sem íslensk naut eru að tapa úr sínum eigin heildarpotti, yrði dreift á þá flokka sem eru með naut sem lækka í verði (O-2+ og neðar) væri hægt að setja 10% hækkun á línuna. Það myndi þýða að nautin í þessum flokkum væru að lækka að meðaltali um 1-12% í staðinn fyrir 10-20%. Þessi breyting hefur hverfandi áhrif á holdanautin, þeirra heildarpotturin myndi vera í 0,23% lækkun, og ennþá svigrúm til að borga 180 naut sem færu úr UN1 úrval A yfir í U2+ og væru 400kg að fallþunga.
Að sjálfsögðu á að taka ofangreindar tölur með þeim fyrirvara, að þetta er leikur að tölum. En þetta er í það minnsta tilraun til að setja í þessar fjárhæðir í samhengi, og koma með einhvers konar beinagrind að því hvaða breytingar eru mögulegar.

Niðurlag
Verðbreytingar á milli gamla og nýja kjötmatsins hjá 617 gripum voru skoðaðar. Heildarlækkun á verði til bænda fyrir þessa gripi er 9%, vitanlega er það mat hvers og eins hvort það sé hátt eða lágt, en greinarhöfundi þykir í það minnsta nokkuð stór spónn tekinn úr aski bænda þar.
Eins og verðskrá KS er lögð upp núna gæti reynst á brattann að sækja fyrir þá bændur sem ala upp íslensk naut. Mikill meirihluti gripa er að taka á sig 10% lækkun eða meira, sem er ansi þungt högg svona í fyrsta kastinu. Um það bil 1/3 af gripunum fer í P-flokk, og það getur verið hætta á því að framleiðendur sjái ekki tilgang í því að bæta sig þegar það er svona langt í skurðpunktinn (O-2+), og hverfi frá því að ala upp nautkálfa. Eins og við var að búast eru holdanautin í betri málum, og má segja að kjarninn af þeim liggi um og yfir 0% verðbreytinguna.
Að sjálfsögðu skal hafa í huga að þetta nýja kerfi er enn í þróun, og að t.d. hjá holdanautunum eru frekar fáir gripir inn í útreikningunum, sem þýðir að eitt mat sem er úr takti getur haft mikil áhrif á niðurstöðurnar. Til að impra á því að kerfið sé í þróun, má geta þess að núverandi verðskrá Kaupfélags Skagfirðinga fyrir EUROP, er önnur í röðinni en sú fyrri var uppfærð eftir ábendingar og samráð við stjórnarmeðlimi Landssambands kúabænda. En engu að síður er væri æskilegt að sláturleyfishafar hefðu ójafna stöðu íslenskra nauta og holdanauta til hliðsjónar, og draga úr verðlaunum og refsingum fyrir góða og lélega gripi. Smá skref til bætingar reynast yfirleitt heillavænlegust. Svo er algjört lykilatriði að þessar breytingar á heildarpottinum muni ekki eiga sér stað þegar á hólminn verður komið.

Þetta má kalla tilraun til að greina þær tölur sem liggja fyrir að svo stöddu varðandi stöðuna við EUROP kjötmatið. Hafi einhver ábendingar um aðra hluti sem má skoða, eða aðrar hugmyndir varðandi úrvinnslu og framsetningu, þiggur greinarhöfundur þær með þökkum.
Axel Kárason
axel@naut.is