
Staða samningaviðræðna
10.08.2019
Undanfarnar vikur hafa okkur hjá Landssambandi kúabænda borist bæði bréf og símtöl sem varða yfirstandandi samningaviðræður um endurskoðun búvörusamninga. Allt við það er eðlilegt og best er að fara hérna aðeins yfir stöðuna svo félagsmenn okkar geti verið með á nótunum.
Nú þegar er búið að funda nokkrum sinnum með samninganefnd ríkisins frá því í apríl, þó fundir hafi legið í dvala undanfarið vegna sumarleyfa.
Helst er að segja frá því að enginn stór ágreiningur er um þá endurskoðun sem nú fer í hönd en samninganefnd Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda byggir kröfu sínar helst á aðalfundarályktunum aðalfundar LK sem haldinn var fyrr á þessu ári ásamt þeim áherslum sem höfð hefur verið í stefnum beggja aðila, svo sem að styðja við minni bú og halda í dreifingu búa landið um kring.
Þá má nefna að aðilar beggja megin borðsins eru sammála breytingu á núverandi samningi í þá veru að greiðslumark í mjólkurframleiðslu leggst ekki niður eins og ráð var gert fyrir, heldur verði fyrirkomulag greiðslumarksmarkaðar endurskoðað til að gera bót á honum.
Það er lagt til af samninganefnd bænda að greiðslumark haldi sér sem kvóti sem tryggi aðgang að innanlands markaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Viðskipti með það eigi sér stað í gegnum miðlægan markað í umsjón opinbers aðila og markaðurinn byggist upp á jafnvægisverði en þó að hámarki sem nemur tvöföldu lágmarks afurðastöðvarverði innan greiðslumarks.
Eini forgangurinn á markaði verði fyrir nýliða sem verði kaup á 25% af því greiðslumarki sem í boði er hverju sinni. Einnig er lagt upp með að skoða hvort ekki sé hægt að opna fyrir eðlilega tilfærslu greiðslumarks á milli jarða t.d. þar sem um er að ræða búferlaflutninga eða flutning og breytinga í rekstri.
Hefur samninganefnd bænda lagt til ákveðin mörk á eign og greiðslur. Þannig verði hámark sett á það hlutfall heildargreiðslumarks sem hver framleiðandi getur verið handhafi að hverju sinni, sem verði 1,2% af heildargreiðslumarki hvers árs. Jafnframt verði framlög til framleiðanda eða framleiðenda sem eru í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða tengdra aðila ekki hærra en 0,7% af árlegum heildarframlögum samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar.
Einnig er vonast til að tekið verði á því fyrirkomulagi sem hefur verið á verðlagningu mjólkur, það hefur ekki virkað sem skyldi og þróunin verið á þann hátt að langur tími hefur liðið á milli þess sem verði er breytt, með tilheyrandi áhrifum á rekstur mjólkuriðnaðarins og afkomu bænda. Þannig gæti breytt fyrirkomulag verðlagningar mjólkur, tekjumarkaleiðin, verið mikilvægt tæki í starfsumhverfi greinarinnar til að takast á við ójafnvægi í sölu efnaþátta mjólkur og stóraukna samkeppni á mjólkurmarkaði.
Ein af áherslum samninganefndar bænda hefur verið að styðja eigi meira við nautakjötsframleiðsluna t.d. í formi hærra álags á gripi sem ná ákveðinni gæðaflokkun og greiðslur aðlagaðar sveiflum í eftirspurn yfir árið. Einnig verði tryggt að stuðningur á hverja holdakú þynnist ekki of mikið út með auknum fjölda þeirra en á seinasta ári fjölgaði þeim um nærri 300 gripi.
Hefur samninganefnd bænda einnig lagt áherslu á mikilvægi þess að líta til aukins stuðnings við minni bú í mjólkurframleiðslu. Það er í samræmi við meginmarkmið stefnumótunar LK 2018-2028 og verði framkvæmt með einhverjum tilfærslum á milli liða.
Von okkar er sú að samningar náist með haustinu, það hefur mikið mætt á stéttinni hvað varðar þá aðila sem ætla sér í kynslóðaskipti, kaup, breytingar og sölu á meðan beðið er eftir niðurstöðu búvörusamninga. Auðvitað getur það verið erfitt að vera fastur í biðstöðu en þó ekki sé stór ágreiningur um breytingar, þá eru breytingarnar stórar frá því sem var s.s. að hætta við niðurlagningu greiðslumarks í formi kvóta og þar þarf að vanda til verka. Það er gott fyrir okkur sem sitjum í samninganefndinni að heyra í okkar félagsmönnum og hvað stendur þeim hjarta næst í þessum málum, þannig getum við rætt saman um kerfið sem við vinnum með og oft fundið góðar lausnir. Ósk okkar hefði verið sú að samningar gengju hraðar en vonandi að þetta gefi okkur tækifæri til að yfirfara þá betur og komast að bestu niðurstöðu stéttinni til heilla.
Borgarfirði í ágúst 2019
Jóhanna María Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri LK