Beint í efni

Staða og horfur í nautakjötsframleiðslunni

19.07.2011

Nokkrar umræður hafa skapast um verðlagningu á kjöti að undanförnu. Vegna þessa er rétt að taka fram nokkur atriði er varða nautakjötsframleiðslu. Verðlagning á nautakjöti er frjáls og ræðst af markaðsaðstæðum hverju sinni, hverjum sláturleyfishafa er í sjálfsvald sett hvaða verð hann greiðir. Í 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993 er heimild til handa Landssambandi kúabænda til að gefa út viðmiðunarverð á nautakjöti. Þá heimild hefur LK ekki nýtt.

 

Framleiðsla og sala á innlendu nautakjöti hefur farið heldur vaxandi undanfarin ár. Árið 2006 voru framleidd 3.196 tonn, en árið 2010 var framleiðslan 3.895 tonn. Það er 22% aukning á fjórum árum. Innflutningur á nautakjöti hefur snarminnkað á sama tímabili. Árið 2006 voru flutt inn tæplega 600 tonn af nautakjöti, en 110 tonn á sl. ári, 2010, það er rúmlega 80% samdráttur. Ástæður þessa eru alkunnar; afar óhagstæð gengisþróun og hækkandi verið á nautakjöti í nálægum löndum.

 

Í júní 2010 hækkaði nautakjötsverð til bænda í fyrsta skipti síðan í mars 2008, eða í 27 mánuði. Síðan þá hefur verðið hækkað um rúmlega 20% fyrir ungnautakjöt en 23-26% fyrir kýrkjöt. Ef litið er yfir lengra tímabil, þá er raunverð á nautakjöti svipað og það var fyrir u.þ.b. 15 árum síðan, ef miðað er við fast verðlag. Á þeim tíma hefur greinin þurft að mæta ýmsum áskorunum, t.d. lækkaði nautakjötsverð um allt að 30% á árunum 2000-2003, þegar offramleiðsla á hvítu kjöti var hvað stórfenglegust. Þá hafa yfirgengilegar aðfangahækkanir síðustu ára verið tíundaðar rækilega, þar sem áburður og kjarnfóður eru í algerum sérflokki.

 

Framleiðsluferill nautakjöts er langur. Frá því að kálfur kemur í heiminn og þar til að hann hefur náð æskilegum sláturþunga, líðan 18-28 mánuðir. Framleiðsluferill á kjúklingakjöti er 35-40 dagar. Þessa staðreynd verður af hafa í huga, þegar viðbrögð nautakjötsframleiðenda við breytingum á markaðsaðstæðum eru skoðuð. Með tilkomu einstaklingsmerkinga nautgripa árið 2003 urðu tölur um ásetning mun áreiðanlegri en áður var. Ef litið er til þróunar síðustu ára í þeim efnum, má sjá að ásetningur nautkálfa til kjötframleiðslu jókst milli áranna 2008 og 2009 um 4,4%. Þá voru 1,7% fleiri nautkálfar settir á árið 2010 en árið þar áður. Það sem af er þessu ári, er ekki hægt að sjá neinar sérstakar breytingar í ásetningum frá fyrra ári. Því má gera ráð fyrir að ársframleiðsla á innlendu nautakjöti verði á bilinu 3.900-4.000 tonn á næstu misserum./BHB