Beint í efni

Staða og horfur í framleiðslu nautgripakjöts

08.07.2018

Nú eru allir sláturleyfishafar utan Sláturfélags Vopnfirðinga farnir að greiða eftir EUROP-matinu og búið er að uppfæra verðskrár þeirra hér á naut.is. Nokkrar breytingar hafa orðið á ytri aðstæðum á sl. mánuðum, sem hefur og gæti áfram haft nokkur áhrif á nautakjötsframleiðsluna hér á landi og því vert að fara yfir stöðuna í dag og framtíðarhorfur.

Árið 2017 var markaðshlutdeild íslensks nautakjöts um 76% af innanlandsmarkaði og er það svipuð hlutdeild og innlent kjöt hefur í Finnlandi og Noregi. Við höfum búið við þá stöðu að framleitt nautakjöt hefur selst og eftirspurn markaðarins umfram okkar framleiðslu hefur verið mætt með innflutningi.  Innvegið nautgripakjöt í sláturhús nam 4.613 tonn á síðasta ári, samanborið við 4.386 tonn árið 2016 og var því aukningin milli ára 5,2%. Salan hélst í hendur við aukna framleiðslu eins og hefur verið undanfarið og var 4.603 tonn árið 2017, sem var sömuleiðis aukning um 5,2% frá árinu áður. Ef við lítum svo til síðustu 12 mánaða var framleiðslan 4.600 tonn, aukning um 1,1% og salan hefur aukist um 0,6%.

Samhliða þessu var á síðasta ári flutt inn 848 tonn af nautakjöti, samanborið við 672 tonn árið 2016 og 1.044 tonn árið 2015. Jókst því innflutningur um 34% milli áranna 2016 og 2017 en þrátt fyrir það var markaðshlutdeild þess árs eins og áður segir 76% samanborið við 70% árið 2015. Hakkefni er langstærstur hluti innflutts nautakjöts eða rúmlega 420 tonn og koma lundir þar á eftir sem voru 180 tonn.

 

Innflutningur eykst
Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg aukning í innflutningi á landbúnaðarvörum og 1. maí sl. tók gildi samningur Íslands við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur. Með þeim samningi mun tollkvóti fyrir nautakjöt frá ESB tæplega sjöfaldast í skrefum næstu 4 ár eða fara úr 100 tonnum í 696 tonn árið 2021. Við erum strax farin að finna fyrir áhrifum þessa samnings en nokkur lækkun hefur orðið á verði nautgripakjöts til bænda frá gildistöku hans. Tollasamningurinn er þó ekki það eina sem hefur áhrif því miklar launahækkanir í íslensku samfélagi setja þrýsting á aðra kostnaðarliði og það hefur leitt til lægra verðs til bænda. Þessar breytingar kalla á aukna hagræðingu í framleiðslu og vinnslu nautgripakjöts en það skýtur vissulega skökku við að þegar laun annarra stétta eru að hækka, þá sé það í dag fyrst og fremst tekið af launalið bænda.

 

Endurskoðun búvörusamninga
Í búvörusamningum, sem tóku gildi fyrir rétt 18 mánuðum síðan, er lögð nokkur áhersla á aukna framleiðslu á nautakjöti hér á landi. Það endurspeglast m.a. í því að greitt er aukalega fyrir gripi í flokkum P+ og yfir, nái gripurinn 250 kílóum og sé yngri en 30 mánaða. Auk þess var einangrunarstöðinni að Stóra-Ármóti tryggt fjármagn á fyrsta ári og hefur einnig fengið úthlutað fjármagni af framleiðslujafnvægislið samningsins.

Á sama tíma og búvörusamningar voru samþykktir á Alþingi var ákveðið að staðfesta umræddan tollasamning við ESB. Auk þess kom niðurstaða EFTA-dómstólsins í hráakjöts-málinu svokallaða í lok árs 2017, en hún felur í sér að bann á innflutningi á ófrosnu kjöti er nú í uppnámi. Eru stjórnvöld í viðræðum við ESB þessi misserin um þá stöðu sem upp er komin en það er ljóst að ef frystiskyldan verður afnumin mun það hafa mikil áhrif á nautakjötsframleiðslu hér á landi. Það má segja að á síðustu árum hefur greininni verið lyft upp með annarri hendinni en dregin niður með hinni. Það er því ljóst að staða nautakjötsframleiðslunnar mun vega mikið í komandi endurskoðun á búvörusamningum þar sem ráðast þarf í mótvægisaðgerðir svo hægt sé að tryggja að íslensk nautakjötsframleiðsla verði áfram samkeppnishæf og arðbær fyrir bændur.

 

Neytendur vilja íslenskt
Þrátt fyrir allar þessar sviptingar er ljóst að íslenskir neytendur vilja versla íslenskt kjöt fremur en erlent, ef marka má kannanir undanfarinna ára. Í könnun Gallup frá haustinu 2016 kemur fram að 82,2% velja eingöngu, mun frekar eða frekar íslenskt kjöt en erlent þegar verslað er. Þá voru 16,5% hlutlausir eða alveg sama, en einungis 1,2% völdu frekar eða eingöngu erlent kjöt.

Þetta jákvæða viðhorf til íslenskrar matvælaframleiðslu endurspeglaðist svo enn frekar þegar spurt var; „Hversu miklu eða litlu máli skiptir það þig að upplýsingar um uppruna kjöts séu á umbúðum þess?“ Þar svöruð 88,3% því að það skipti öllu, mjög miklu eða frekar miklu máli að upplýsingar um uppruna séu á umbúðunum. Í áfram auknum innflutningi á landbúnaðarvörum skiptir því gríðarmiklu máli að upprunamerkingar séu aðgengilegar og auðsjáanlegar.

Framtíð íslenskrar nautakjötsframleiðslu er og á að vera björt. En það er ekki sjálfgefið né endilega auðvelt. Við þurfum að nýta þau tækifæri sem okkur gefast, byggja upp spálíkan fyrir framleiðsluna, bæta holdanautastofninn, leggja áfram aukna áherslu á gæðaframleiðslu og koma hreinleika og gæðum okkar framleiðslu vel á framfæri. Þar mun LK ekki láta sitt eftir liggja.

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri LK