Staða nautakjötsframleiðslu á Íslandi og framtíðarmöguleikar – skýrsla LBHÍ
22.06.2016
Út er komin skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, Staða nautakjötsframleiðslu á Íslandi og framtíðarmöguleikar. Höfundur skýrslunnar er Þóroddur Sveinsson, lektor við Landbúnaðarháskólann. Skýrslan er unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið samkvæmt samningi við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) um „…rannsóknir á stöðu og framtíðarmöguleikum nautakjötsframleiðslu, m.a. með tilliti til nýsamþykktra lagabreytinga og reglugerðarsetningar vegna innflutnings á erfðaefni holdanauta.“ Einnig er kveðið á í samningnum að starfsmenn LbhÍ „móti tillögur um raunhæfar rannsóknir í kjölfarið.“ Skýrsluna má nálgast í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér neðst í fréttinni./BHB
Ágrip skýrslunnar er svohljóðandi:
Á undanförnum tveimur árum varð verulegur samdráttur í nautgripakjötsframleiðslu á Íslandi sem mætt var með auknum innflutningi til að anna eftirspurn. Markaðshlutdeild innlends nautgripakjöts árin 2014 og 2015 var um 70% en árin á undan yfir 90%. Er það að stórum hluta vegna minni veltu á kýrkjöti en einnig á ungnautakjöti. Útlit er fyrir aukið framboð á innlendu kýr- og ungnautakjöti árið 2016 en 2017 mun framboð á ungnautakjöti minnka aftur og óljóst hvernig framboð á kýrkjöti þróast en það ræðst af ástandinu í mjólkurframleiðslu sem erfitt er að spá um.
Markaðurinn gerir stöðugt meiri kröfur um fjölbreytt úrval af ungnautakjöti líkt og þekkist í nágrannalöndunum. Því mega ungnautakjötsframleiðendur búast við harðari samkeppni við innflutt ungnautakjöt í nánustu framtíð, bæði í verði og gæðum. Þegar er hafinn undirbúningur á innflutningi á fósturvísum af holdanautakyninu Angus sem mun bæta stöðu hjarðbænda frá því sem nú er. Ávinningurinn af þessum innflutningi skilar sér þó ekki fyrr en eftir 6 ár. Ungnautakjötsframleiðslan mun áfram líkt og í Evrópu, byggja að stærstum hluta á nautum sem koma úr mjólkurframleiðslunni. Um 75% ungnautakjöts hér á landi kemur frá kúabúum með mjólkurframleiðslu sem aðalbúgrein en
með bættum skilyrðum fyrir hjarðeldi með holdanautgripum gæti þetta hlutfall minnkað í nánustu framtíð. Stærstur hluti framleiðslunnar er stíueldi „frá vöggu til grafar“. Kjötframleiðendur utan mjólkurframleiðslu eru mest með hjarðeldi þar sem kálfar ganga undir mæðrum sínum í um 6 mánuði en áframeldið fer fram í stíum líkt og hjá mjólkurframleiðendum. Hjá hjarðbændum er uppistaðan
holdablendingar af óljósum uppruna en mest þó blanda af Angus, Galloway og íslenskum nautgripum. Þessir blendingar skila að jafnaði verðmeiri föllum en ungnaut frá mjólkurframleiðendum vegna betri flokkunar en að öðru leyti skera þeir sig ekki úr. Rannsóknir LbhÍ sýna að auðveldlega má bæta flokkun (gæði) ungnauta, bæði blendinga og íslenskra með markvissari fóðrun en nú tíðkast almennt.
Niðurstaða þessarar skýrslu er að bændur í eða utan við mjólkurframleiðslu geti náð mun meiri arðsemi í ungnautakjötsframleiðslunni með bættum eldisaðferðum. Grunnurinn að því er:
• Markviss nákvæmnisfóðrun út eldistímann sem byggir á ódýrum hágæða heyjum og kjarnfóðri sem passar við þarfir gripanna. Á þessu er mikill skortur hjá mörgum bændum.
• Góðum aðbúnaði sem fylgir að lágmarki núverandi reglugerð um velferð nautgripa (Nr. 1065/2014) og góðu eftirliti með ástandi og heilbrigði þeirra. Þetta er þáttur sem enn má
bæta verulega hjá mörgum bændum.
• Aukin alhliða fagmennska í kjöteldi, við fóðuröflun og í rekstri.
• Auka fallþunga ungnauta úr 230 kg (núverandi meðalþungi) í 300 kg að því gefnu að fylgt sé ofangreindum ráðleggingum.
Nauðsynlegt er að bændur fái leiðsögn og kennslu í öllum þessum þáttum í þeim tilgangi að bæta framlegð nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi og til að geta mætt betur aukinni samkeppni að utan.
Nú er nýlokið stórri eldistilraun hjá LbhÍ sem hafði það markmið að mæla fóðurþörf og vaxtarhraðagetu (kg/dag) íslenskra nauta. Þessi tilraun, ásamt eldri tilraunum LbhÍ, leggur grunninn
að ítarlegum leiðarvísi og nýju kennsluefni í kjöteldi fyrir íslenska bændur.