Beint í efni

SS fékk hálfan milljarð afskrifaðan

10.03.2010

Í ársreikningi Sláturfélags Suðurlands (SS), sem birtur var fyrir skömmu, kemur fram í skýringum fyrirtækið hafi fengið niðurfellingu vaxta, verðbóta og taps vegna gengisbreytinga upp á 565 milljónir króna. Hagnaður SS á árinu 2009 nam 379 milljónum króna, og því er ljóst að afskriftin kom afkomu fyrirtækisins vel upp fyrir núllið.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi samið við Arion banka um endurfjármögnun lána og lengingu þeirra á síðasta ári: »Einnig skuldbreyttum við úr erlendum lánum í krónulán. Samhliða þessu fór fram endurskoðun á verðbótum og vöxtum, eins og kemur fram í ársreikningnum,« segir Steinþór í samtali við Morgunblaðið.

»Við vorum með talsvert af erlendum lánum á okkar bókum,« segir Steinþór. »Þessari vinnu er ekki lokið, en ég get ekki farið út í smáatriði um hverju er enn ólokið. Greiðslustaða og eiginfjárstaða fyrirtækisins er hins vegar góð og engin viðskiptavild er á okkar bókum,« segir Steinþór.

Arion banki vildi ekki tjá sig um málið. Upplýsingafulltrúi bankans, Berghildur Erla Bernharðsdóttir, sagðist telja eðlilegast að SS svaraði fyrir sitt eigið fyrirtæki. Engu vildi bankinn heldur svara um hvort önnur fyrirtæki fengju nú sambærilega meðferð.

 

Þórður Gunnarsson thg@mbl.is

Morgunblaðið 5. mars 2010.