Beint í efni

Sprettuspá Páls Bergþórssonar 2011

05.05.2011

Í Morgunblaðinu í dag birtir Páll Berþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi Veðurstofustjóri, spá sína um grassprettu á sumri komanda. Greinin fer hér á eftir:

 

„Útlit er fyrir mjög gott grassumar í sveitum landsins. Spáin byggist á meðalhita 7 mánaða í Stykkishólmi, október til apríl, en hitafar þar er líkt því sem er að meðaltali á landinu. Fylgni þessa vetrarhita við heyfeng sumarsins framundan er mjög há, var til dæmis 0,96 árin 1901-1975. Ýmis annar gróður fer líka mjög eftir þessum hita, einkum spretta fjölærra jurta.

Þessi vetrarhiti var nú 1,8°C en hefur verið að jafnaði 1,6° síðasta áratug. Þetta bendir til þess að lítið frost sé í jörðu og mjög litlar skemmdir hafi orðið á rótum grasanna. Á hlýindaskeiðinu 1931-1960 var vetrarhitinn 1,1°C, en lægstur -3°C frostaveturinn 1918, en þá var geysilegt kal í túnum.

Aðalvinningurinn af þessum hlýindum er að hægt er að spara áburðargjöf. Enn meira má spara með því að forðast eftir föngum að beita túnin á vorin. Þá er hægt að byrja sláttinn fyrr og fá meira hey, auk þess sem það verður þá kjarnmeira en ella, en verstu áhrif vorbeitar á sprettuna felast í þeim átroðningi á túnin sem henni fylgir“.