Beint í efni

SpermVital – Athyglisverð nýjung á sviði sæðinga

03.06.2011

Þann 29. nóvember í fyrra tók ræktunarfélag norskra kúabænda, Geno, í notkun nýja tækni við meðhöndlun sæðis. Þessi nýja tækni, sem kölluð er SpermVital, gerir það að verkum að sáðfrumurnar lifa um 24 klst lengur í legi kýrinnar, en hefðbundið sæði. Tækninýjungin felst í því að takmarka hreyfigetu sáðfrumanna fyrir djúpfrystingu. Sú takmörkun sparar orku hjá þeim og lengir líf sáðfrumanna. Þetta gerir það að verkum að tímasetning sæðingar er ekki eins mikilvæg og áður, auk þess sem auknar líkur eru á því að kýrnar haldi. Auk þess felast ýmsir möguleikar í þessari tækni, t.d. að:

  • Beiðslisgreining verður auðveldari og ekki eins háð kjörtíma
  • Fanghlutfall hækkar
  • Færri sæðingar þarf til, bæði þar sem um hefðbundið beiðsli er að ræða, sem og þar sem kýr/kvígur eru samstilltar.
  • Hægt er að fækka sæðingum um helgar og á almennum frídögum.
  • Tæknin krefst ekki sérhæfðs búnaðar, hefbundinn búnaður til sæðinga er notaður.

Fyrir bændur þýðir þetta lækkun á kostnaði við sæðingar og betri frjósemi, sem svo leiðir til aukinnar hagkvæmni við búreksturinn. SpermVital fékk verðlaun á landbúnaðarsýningunni Agriscot í Skotlandi í nóvember sl. sem athyglisverðasta nýjungin.

Auk Noregs, hefur SpermVital sæði frá Geno verið markaðssett í Þýskalandi og Ítalíu, nú síðast fengu færeyskir kúabændur nokkra skammta.

SpermVital er samstarfsverkefni BioKapital, dótturfyrirtækis Geno og Sintef Group, sem er óháð rannsóknafyrirtæki í Noregi./BHB