Beint í efni

Sömu dýravelferðarkröfur í viðskiptalöndum WTO?

20.11.2002

Ný skýrsla frá Evrópusambandinu (ES) byggir á samanburði á dýravelferð landa innan ES og viðskiptalanda sambandsins. Fram kemur að mikill munur er á því hvaða kröfur eru gerðar til þeirra aðstæðna sem búfénaður lifir við og að mati skýrsluhöfunda getur þessi munur komið fram í viðskiptum á milli landanna. Sérstaklega er talið að svína- og alífuglarækt geti staðið illa í þessu sambandi.

 

Gott dæmi um þetta er þegar dýravelferðarkröfur voru hertar í alífuglarækt í Danmörku leiddi það til þess að verð á afurðum hækkaði nokkuð þar sem ekki mátti ala kjúklingana og hænurnar í þrengslum. Til að mæta þessu fóru stórar verslunarkeðjur og iðnaðarfyrirtæki að flytja sömu afurðir inn frá öðrum löndum þar sem dýravelferð var ekki höfð að leiðarljósi.

 

Fram kemur í tillögum skýrsluhöfunda að stefna beri m.a. að því að koma dýravelferðarsjónarmiðum inn í viðskiptaviðræður ES og annarra landa. Með því væri hægt að koma í veg fyrir innflutning landbúnaðarvara frá löndum sem gera litlar eða engar kröfur hvað snertir dýravelferð. Ljóst má vera að ef ES nær að koma þeirri stefnu áfram, þá mun það styrkja verulega útflutningsmöguleika Íslendinga á landbúnaðarvörum, enda dýravelferðarkröfur hérlendis jafn miklar eða meiri en í flestum öðrum löndum. Í samningaviðræðum um nýjan alþjóðasamning í viðskiptum (WTO) munu flulltrúar ES leggja áherslu á þennan þátt í viðskiptum, en þess ber að geta að þegar síðasta samningalota fór fram mættu þessi sjónarmið litlum eða engum skilningi þjóða utan Evrópu.

 

Rétt er að geta þess að þegar landbúnaðarvörur eru fluttar til Íslands er ekki gerð krafa um að viðkomandi afurð komi frá búfénaði sem hafi verið alinn við sambærilegar aðstæður og hér á landi/SS.

 

Nánar má lesa um skýrsluna á:

http://europa.eu.int/comm/food/fs/aw/index_en.html