Beint í efni

Soja hækkaði í Chicago

21.05.2013

Á uppboðsmarkaðinum í Chicago á fimmtudaginn hækkuðu sojabaunir í verði um 0,5% og hefur soja þá hækkað um 2,5% á einungis einni viku. Skýringin á þessari miklu hækkun felst í fréttum þess efnis að Kínverjar hafi keypt upp stærstan hluta alls soja sem í boði var á markaðinum fyrstu vikuna í maí.

 

Bandaríska landbúnaðarráðuneytið birtir alltaf upplýsingar um kaupendur á markaði en það er fyrst gert tveimur vikum eftir kaupin. Það var s.s. í þessari viku sem nú er að klárast sem ljóst varð að Kínverjar hafi verið stórtækir á markaðinum og þær fréttir höfðu framangreind áhrif enda vilja kaupendur væntanlega tryggja sig gegn því að Kínverjar kaupi hreinlega upp það korn sem í boði er.

 

Um leið og verðið hækkar á markaðinum hækkar að sjálfsögðu skilaverð til bænda og mun það vafalítið efla tiltrú á sojarækt og þar með eykst framboðið til lengri tíma litið. Spámenn á kornmarkaði telja ennfremur að hækkunin á soja nú verði ekki til langs tíma, enda hefur verð á soja nánast alltaf fallið verulega þegar uppskera viðkomandi árs berst á markaði/SS.