Beint í efni

Söfnuðu tveimur milljörðum!

22.07.2013

Center for Dairy Research (CDR) við háskólann í Wisconsin-Madison, sem væntanlega myndi kallast Rannsóknamiðstöð mjólkurafurða á okkar ylhýra, fór heldur óvenjulega leið til þess að fjármagna endurbætur og breytingar á aðstöðu sinni sem áætlað er að ljúki árið 2017. Þeir sem eru í forsvari fyrir CDR leituðu nefninlega eingöngu eftir styrkjum frá fyrirtækjum en ekki til hins opinbera eins og oftast er nú gert. Alls þurfti að safna um 2 milljörðum íslenskra króna og náðist að safna styrkloforðum á innan við einu ári frá rúmlega 100 fyrirtækjum.

 

Á rannsóknamiðstöðinni fara fram umsvifamiklar rannsóknir á mjólkurvörum bæði á framleiðsluháttum, bragðgæðum og eigindum mjólkurvara s.s. osta auk námskeiðahalds í mjólkurvöruframleiðslu. Auk rannsóknanna rekur CDR litla afurðastöð sem heitir Babcock sem framleiðir helstu afurðir fyrir námsfólk við háskólann og gesti m.a. ís með samnefndu nafni/SS.