
Smjörverð í hæstu hæðum
16.04.2018
Verðþróun á smjöri hefur nú enn á ný tekið flugið og ef fram fer sem horfir þá mun verða sett nýtt met á næstunni en á hrávörumarkaðinum í Evrópu í síðustu viku fór tonnið á smjörinu í um 590 þúsund krónur. Þetta er hæsta verð sem fengist hefur fyrir smjör í apríl á evrópska markaðinum og er þetta talið gefa vísbendingu um það sem koma skal á næstunni. Skýringin á meiri og meiri sölu á smjöri eru breyttar neysluvenjur í heiminum og sérstaklega í Evrópu.
Hér í eina tíð var oft talað um „smjörfjöll“ í Evrópu en þessi „fjöll“ voru auðvitað bara lagerhúsnæði þar sem smjör var geymt. Fyrir einungis tveimur árum var þessi metni heildarlager á smjöri í Evrópu talinn vera 150 þúsund tonn en nú er talið að ekki séu nema 75 þúsund tonn til í geymslum afurðastöðva víða í Evrópu. Þó svo að talan sé vissulega stór þá má geta þess að þetta svarar ekki til nema um tveggja vikna neyslu á smjöri í Evrópu/SS.